Inngangurinn að helvíti

Í miðri Karakum-eyðimörkinni, nærri þorpinu Darvaza í Túrkmenistan, er að finna logandi gíg sem sést úr margra kílómetra fjarlægð að nóttu til. Gígurinn er ríflega 60 metrar á breidd og 20 metra djúpur og þar hefur eldur logað látlaust svo áratugum skiptir. Í næsta nágrenni við gíginn er mjög sterk brennisteinslykt, en íbúar á staðnum kalla gíginn „innganginn að helvíti“.

Logarnir við Darvaza stafa frá brennandi lofttegund, en gígurinn er svonefnt jarðfall sem á rætur að rekja til þess er Túrkmenistan var eitt Sovétríkjanna og þar var borað eftir gasi neðanjarðar.

 

Til þess að gas geti hegðað sér líkt og á sér stað við Darvaza þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt.

 

Í fyrsta lagi verður umhverfið áður fyrr að hafa verið þannig úr garði gert að gas gæti myndast.

 

Með þessu er átt við að það svæði sem nú er eyðimörk hafi eitt sinn verið allt öðruvísi umhorfs, með nægu vatni, þar sem síðar meir hafi safnast fyrir lífrænn framburður sem fór að rotna og hann síðan aftur verið þakinn með nýju setlagi. Þá hafi þrýstingurinn aukist, svo og hitastigið, og smám saman hafi þetta lífræna efni breyst í jarðgas.

 

Til þess að slíkar aðstæður myndist þarf að vera fyrir hendi holrými neðanjarðar, þar sem gasið getur varðveist, en yfirleitt er um að ræða örlítið bil á milli sandkorna ellegar þá sprungur í jörðu.

 

Að lokum verður jarðvegurinn að vera þannig úr garði gerður að hann hafi að geyma náttúrulegar gildrur, en með því er átt við staði sem gasið lekur niður í og kemst ekki upp úr aftur.

 

Yfirleitt er gasið lokað inni í setlögum sem ekkert kemst í gegnum. Þarna við Darvaza er gasgildruna að finna aðeins örfáa metra undir yfirborði jarðar. Þá hefur grunnvatn einnig seytlað niður í jörðina á þessum stað.

 

Vatnið hefur leyst upp kalkríka hluta af jarðveginum og valdið því að myndast hafa neðanjarðarhellar djúpt niðri í eyðimerkursandinum. Þegar borað var í jörðu varð fyrir bornum hellir fullur af gasi.

 

Skyndileg þrýstingsminnkun í hellinum, auk þungans af völdum borturnsins, hefur gert það að verkum að jarðvegurinn féll saman og þannig varð gígurinn til.

 

Gasið seytlaði út um barma gígsins og ákveðið var að kveikja í því til að koma í veg fyrir að það skaðaði fólk. Þegar fram liðu stundir kom svo í ljós að mjög mikið magn af gasi væri að finna þarna. Gígurinn hefur að minnsta kosti logað allar götur síðan, það er að segja í rúmlega fimmtíu ár.

 
 
(Visited 52 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

No Content Available

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR