Komið að leikslokum!

Tony Wu áttar sig á að hann er vitni að einstökum atburði um leið og búrhvalurinn syndir framhjá honum. Gríðarstór kjaftur hvalsins er opinn og í gininu sjást leifarnar af níu metra löngum risakolkrabba.

Tony er gamalreyndur sjávarlífsljósmyndari en hefur samt aldrei séð myndir af neinu í líkingu við þetta. Hann bítur í vörina á sér til að fullvissa sig um að hann nái góðum myndum. Hann bíður þess þolinmóður að hvalurinn og fylgisveinarnir fimm leyfi sér að komast nær. Aðeins fimm mínútum síðar eru búrhvelin horfin niður í dýpið en Tony hefur nælt sér í forsíðufrétt.

„Þarna rættist draumurinn minn. Þetta var nokkuð sem mig hafði dreymt um að sjá frá því að ég var barn“, segir Tony Wu.

Tony Wu er ekki sá eini sem hefur látið sig dreyma um að geta ljósmyndað þessa óheyrilega sjaldséðu sýn. Vel þekkt er að búrhveli lifa meðal annars á risakolkolkröbbum en þessir tveir risar hafa ekki verið festir á filmu saman fyrr, það er að segja ekki fyrr en Tony tókst það núna. Atburðurinn átti sér stað í október 2009, þegar Tony stjórnaði ljósmyndaleiðangri við Ogasawara-eyjar í norðvesturhluta Kyrrahafs, ríflega þúsund kílómetra suður af Japan. Svæðið er vel þekkt sem vinsæll staður meðal búrhvala og það voru einmitt búrhveli sem ljósmyndararnir bundu vonir við að rekast á og geta ljósmyndað. Segja má að þeir hafi haft erindi sem erfiði og vel það. Heil hjörð búrhvala, þ.e. fimm fullorðin dýr og einn kálfur, birtust nefnilega rétt við yfirborð sjávar og héldu sjaldséða sýningu um lifnaðarhætti sína. Stærsta kýrin kallaði þó á mesta athygli, því í kjaftinum á henni reyndust vera leifarnar af risakolkrabba.

Ýmsar sögur hafa verið sagðar af risakolkröbbum allar götur frá tímum Hómers þar sem þeim er lýst sem sjávarskrímslum og segja má að stærð þeirra hafi oftar en ekki verið ýkt verulega. Eina þekktustu frásögnina er að finna í Sæfaranum eftir Jules Verne, þar sem risavaxinn kolkrabbi ræðst á Nautilus, en svo nefndist kafbátur Nemó skipstjóra.

Kolkrabbi ljósmyndaður árið 2004

Öðru máli gegnir þó um staðreyndir en skáldskap. Risakolkrabbar lifa á mjög miklu dýpi og fyrir vikið hefur reynst óhemju vandasamt að rannsaka lifnaðarhætti þeirra. Í heimi vísindanna eru dýrin aðallega þekkt í formi beinagrinda sem legið hafa lengi í sjó og telja mátti á fingrum annarrar handar fjölda ljósmynda sem fyrirfundust af lifandi risakolkröbbum. Þetta átti að minnsta kosti við fram til ársins 2004 en þá tókst japönskum sjávarlíffræðingum í fyrsta sinn að ljósmynda fullorðinn risakolkrabba í eðlilegu umhverfi sínu með því að notast við beitu og myndavél í 900 metra langri taug. Tveimur árum síðar veiddu vísindamenn lítið, en þó fullvaxið, dýr á svipuðum slóðum. Dýrið drapst hins vegar áður en tókst að koma því um borð í skip. Þrátt fyrir hve fátt er vitað um líf og dauða kolkrabbanna búa vísindamenn engu að síður yfir ýmiss konar vitneskju um þessar ævintýraskepnur, þökk sé eina óvini þeirra í gjörvallri náttúrunni, þ.e. búrhvalnum. Matarleifar í maga dauðra hvala hafa hvað eftir annað leitt í ljós tormeltanlega trjónu af risakolkrabba. Með því að telja hringina í trjónunni geta vísindamenn meðal annars aldursgreint þessa hryggleysingja, ásamt því að áætla stærð þeirra. Risakolkrabbar eru lindýr og geta orðið allt að 13 metrar á lengd, að meðtöldum þreifiöngunum tveimur. Helsta sönnunin á því að búrhveli og risakolkrabbar séu erkióvinir sést þó einkum á hringlaga örunum sem stundum sjást á húð hvalanna, einkum kringum höfuð og kjaft. Ör þessi eiga rætur að rekja til hundruða sogskála sem þekja armana átta að innanverðu, svo og þreifiarmana tvo. Hver sogskál er umlukin oddhvössum „tönnum“, sem dýrin nota ýmist til að sjúga eða bíta með og við það myndast örin. Enginn mennskur maður hefur þó enn orðið vitni að átökum dýranna, svo vitað sé, en það sem Tony Wu varð vitni að er þó ekki hvað síður áhugavert:

„Fullorðnu dýrin voru greinilega að kenna kálfinum allt um veiðar og át á kolkröbbum. Þessi sýn veitti okkur mikilvægar upplýsingar um það hvernig búrhvalir lifa sem hópur“, sagði Tony Wu.

Allur hópurinn, að meðtöldum kálfinum, elti forystukúna hvað eftir annað niður á dýpið og upp á yfirborðið aftur og stóra kýrin var ætíð með bráðina í kjaftinum. Þetta gefur okkur mikilvæga innsýn í það hvernig fullorðnir hvalir kenna kálfunum sínum. Með því að tengja bráð við köfun hvað eftir annað lærist kálfinum fljótt að góðgæti er að finna í djúpum sjó og hann fer síðan fljótt sjálfur að veiða. Búrhvalir veiða oftast risakolkrabba á 500 til 1.000 metra dýpi, hvar svo sem þeir lifa í heimshöfunum. Eitt sinn greindist búrhvalur í fiskleitartæki á alls 2,5 kílómetra dýpi. Hvalirnir geta komist hjá því að anda í allt að 90 mínútur, sem kemur að sjálfsögðu að góðu gagni þar sem uppáhaldsfæðan lifir á miklu dýpi en sökum þess að búrhveli eru stærstu kjötætur hafsins og þau sem kafað geta dýpst eru þau einu eiginlegu óvinir risakolkrabbans.

Tony Wu hefur í hyggju að snúa aftur til Ogasawara seinna á þessu ári til að freista þess að ná myndum af búrhvölum. Draumurinn er að sjálfsögðu sá að verða vitni, fyrr eða síðar, að átökum á milli þessara tveggja risavöxnu dýra.

Subtitle:
Risakolkrabbar eru uppáhaldsfæða búrhvala. Vísindamenn hafa áður veitt því athygli að sterkir armar kolkrabbans geta skilið eftir sig stór ör á höfðum hvalanna. Enn sem komið er hefur enginn orðið vitni að átökum milli þessara tveggja risa, því risakolkrabbar lifa á ríflega 500 metra dýpi. Neðansjávarljósmyndarinn Tony Wu náði mynd af búrhval rétt eftir slík átök, með bráðina í kjaftinum.
Old ID:
1163
981
(Visited 44 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.