Líffræðingar róa lífróður til að bjarga viðkvæmum bryndrekanum

Styrjan lætur ekki að sér hæða. Hún hefur haldið brynvörðu útliti sínu og lifað óbreytt í 250 milljónir ára. Hins vegar eru biksvörtu hrognin í kvið hennar, sem ættu að tryggja framtíð styrjunnar, svo eftirsótt að styrjan er nánast í útrýmingarhættu.

Gífurlegur fjöldi styrjuhrygna í Kaspíahafi leitar upp árnar í átt að bestu hrygningarstöðunum. Þær eru útþandar af eggjum sem þær nú hrygna í klösum sem fljóta um á árbotninum. Fyrr en varir er aragrúi af hængum mættur á svæðið og þeir frjóvga eggin með því að sprauta svili sínu yfir þau. Að viku liðinni hafa frjóvguð eggin svo breyst í litlar styrjur sem synda sjálfar um.

Þannig var þessu að minnsta kosti eitt sinn farið. Í dag er hins vegar liðin meira en hálf öld síðan þær fjórar til fimm tegundir sem enn lifa í Kaspíahafi gátu hrygnt fyrirvaralaust. Ástæðan fyrir ógninni gegn þeim 27 tegundum sem synt hafa um heimsins höf undanfarin 250 milljón ár er það sem kalla mætti geðveikislega eftirspurn eftir rándýrum hrognunum, þ.e. ófrjóvguðum eggjum styrjunnar. Við þetta bætast svo aðrir þættir, svo sem mengun, stíflugerð, röng úthlutun veiðikvóta, ólögleg sala og óheyrileg spilling. Styrjan virðist í fljótu bragði vera búin að vera. Hugsanlega á hún sér þó viðreisnar von, þrátt fyrir að á móti blási.

Ein helsta von styrjunnar er Ellen Pikitch, prófessor, en hún stýrir stofnuninni Ocean Conservation Science við Stony Brook háskólann í New York. Ásamt dr. Phaedra Doukakis við Kaliforníuháskólann í San Diego hafa hún og aðrir vísindamenn í áraraðir heimsótt sjómenn, fiskeldisstöðvar og ár við Kaspíahaf. Í samstarfi við sjávarlíffræðinga og fiskræktendur, einkum frá Kasakstan og Rússlandi, hafa þau safnað saman sýnishornum, einkum frá Úralfljóti, en það er eini staðurinn sem styrjan hrygnir enn náttúrulega.

Beluga-styrjan er sú eftirsóttasta allra tegunda enda eru hrogn hennar talin þau albestu. Markmiðið með rannsóknum líffræðinganna er að reikna út hversu mikið sé óhætt að veiða til þess að styrjan haldi áfram að fjölga sér. Tölurnar hafa svo verið bornar saman við þær upplýsingar sem aðgengilegar eru um raunverulegan veiðiafla á svæðinu. Niðurstöðurnar eru svo langt frá því að vekja neina von.

„Sem stendur er veitt um það bil fjórum til fimm sinnum meira af styrju en óhætt er til að stofninn minnki ekki,“ segir Ellen Pikitch. Þetta mikla magn er í sjálfu sér nægilega hryggilegt en lífshlaup styrjunnar gerir hana sérlega viðkvæma. Styrjan verður ekki kynþorska fyrr en hún nálgast 20 ára aldur og þar sem hún hrygnir einungis með minnst þriggja ára millibili er ekkert við því að segja þótt stofninn fari stöðugt minnkandi. Vísindamennirnir mæla fyrir vikið með því að lágmarksaldur veiddrar styrju verði minnst 30 ár til þess að tryggja að allar styrjuhrygnur hafi náð þeirri stærð og þeim aldri að þær séu farnar að framleiða egg í stórum stíl. Ef farið yrði að þessum tilmælum vísindamannanna myndi styrjustofninn geta fætt af sér tífalt fleiri nýjar styrjur en það magn sem fæst úr fiskeldisstöðvum.

Vísindamenn þvingaðir til að beita mútum

Nákvæmlega hve mikið magn af styrju fiskræktendur í grennd við Kaspíahaf rækta og sleppa er þó vandasamt að segja fyrir um með nokkurri vissu, en á svæðinu er hefð fyrir mikilli spillingu og ógegnsæi. Ellen Pikitch hefur sjálf orðið að múta embættismönnum og að vera neitað um aðgang að fiskeldisstöðvum og rannsóknarstofum, jafnvel þótt hún og samstarfsfólk hennar hafi haft öll tilskilin leyfi fyrir slíkar heimsóknir.
Til allrar hamingju er þessu þó ekki ætíð svo farið og sem dæmi má nefna mjög velheppnaða tilraun með senditæki á litlu magni af beluga-styrjum á fiskeldisstöð einni í Kasakstan. Tilraunin var vel heppnuð hvað aðgang og leyfi varðaði. Hins vegar virkuðu senditækin ekki sem skyldi og á því hefur enn ekki fengist nein skýring. Sama gerð af sendum virkaði nefnilega algerlega vandkvæðalaust í tilraun sem gerð var í Hudson-ánni í New York seinna meir. Ellen bauð í grun að yfirvöld á staðnum hefðu heft boðin sem tækin áttu að senda frá sér en lagði jafnframt áherslu á að engar sannanir hefðu fundist. Að öllu jöfnu virðist yfirvöldum vera alvara með því að vilja standa vörð um verndun stofnsins. Hins vegar er skriffinnskan þung í vöfum og virðist hún geta staðið fyrir þrifum eiginlegri áætlun um að hrinda vernduninni í framkvæmd.

Til allrar hamingju hljóta skýrslur þeirra Pikitch og Doukakis þó hljómgrunn annars staðar í heiminum, þ.e. hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN). Þar er ákvarðað að hve miklu leyti dýr eru í útrýmingarhættu. Hvað styrjuna varðar eru allar tegundirnar 27 í mikilli hættu en það er alveg einstakt að allar tegundir innan tiltekins flokkunarkerfis séu í slíkri hættu. Vísindamenn óttast að 85 hundraðshlutar allra styrjutegunda verði útdauðar á næstu áratugum en nú þegar hafa fjórar tegundir horfið algerlega af sjónarsviðinu. Ástæðan fyrir þessu dapurlega hlutskipti styrjunnar er einkum eftirspurnin eftir alvöru kavíar og er þá ekki hvað síst við bandarískan markað að sakast.

Bandaríkjamenn borða sviknar kræsingar

Raunverulegur kavíar hefur öldum saman verið álitinn hið mesta lostæti. Það var hins vegar ekki fyrr en kringum aldamótin 1900 sem þessi svörtu og brúnu fiskhrogn fóru að freista efnaðra sælkera. Framboðið og eftirspurnin leiddu af sér svimandi hátt verð og þannig er staðan enn í dag. Eins kg dós af villtum beluga-hrognum í hæsta gæðaflokki kostar varla undir því sem samsvarar einni milljón íslenskra króna. Þetta gerir það að verkum að óheyrilega mikil ólögleg verslun á sér stað, bæði með alvöru kavíar, svo og hrogn annarra styrjutegunda, sem ekki njóta jafnmikilla vinsælda.

Bandaríkjamenn hafa verið allra þjóða iðnastir við sviksamlega sölu á styrjuhrognum undanfarna áratugi. Röng merking á umbúðum er það bragð sem oftast er beitt. Þetta á bæði við um inn- og útflutning, til þess að narra tollverði, en einnig gagnvart kaupendunum sjálfum sem oft greiða fyrir fyrsta flokks vöru og fá svo í hendur svikna vöru, í langtum lakari gæðum. Hér kemur að góðu gagni, fyrir bæði neytendur og sjálfa styrjuna, Samningur um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu (CITES), sem tekur til sölu á tegundum dýra og plantna í útrýmingarhættu. Starf samtakanna sem að samningnum standa, ásamt skýrslum ýmissa vísindamanna á borð við Pikitch og Doukakis, leiddi til þess að bannað var með öllu að flytja inn til Bandaríkjanna Beluga-styrju og afurðir tengdar henni árið 2005. Lögin hafa gert það að verkum að minna er smyglað af kavíar inn í landið, auk þess sem minna er um sviksamlega sölu á honum.

Baráttan fyrir lífi styrjunnar hófst þó löngu áður en þetta bann varð að lögum. Árið 1998 þvinguðu umhverfisverndarsinnar í gegn lög sem bönnuðu söluleyfi til handa inn- og útflytjendum. Tveimur árum eftir að bannið gekk í gildi tókst yfirvöldum svo að hafa hendur í hári fyrstu lögbrjótanna á þessu sviði. Hópur glæpsamlegra innflytjenda fékk sekt upp á 10,4 milljónir Bandaríkjadala, sem var hæsta fésekt sem beitt hafði verið fyrir ólöglegan innflutning og sölu á dýrategund í útrýmingarhættu. Heiðurinn af því að upplýsa málið féll einkum í skaut Doukakis og lítils hóps starfsfélaga hennar, sem tókst að koma upp um sviksamlegt athæfi sölumannanna. Vísindamennirnir höfðu þegar þetta var nýverið þróað nýja aðferð til að bera kennsl á raunverulegan kavíar með hliðsjón af erfðaefni hans. Næsta skref fólst í að kaupa kavíardósir frá hinum ýmsu innflytjendum og sælkeraverslunum, einkum í New York. Þar sem Doukakis er tiltölulega þekkt, einkum meðal ólöglegra kavíarseljenda og -kaupenda, fékk hún m.a. ættingja og vini til að sjá um innkaupin, eða þá hún notaði greiðslukort þeirra þegar kaupin fóru fram á netinu.
Dósirnar voru síðan opnaðar og innihaldið rannsakað í safninu American Museum of Natural History á Manhattan. Leynilögregluvinnan leiddi í ljós að alls fjórðungur af öllum kavíar sem seldur var í New York var ranglega merktur. Út frá sjónarhóli neytendanna þýddi þetta að fjórðungur gestanna meðal ríka fólksins á Park Avenue, og í öðrum heldrimannahverfum í New York, hafði áratugum saman gætt sér á og lofsamað lostæti, án þess að renna í grun um hvað þeir væru að stinga silfurgöflunum í.

Kavíar á að skilja eftir sig gott bragð

Líffræðingar hafa engan metnað í þá veru að neita neytendum um ánægjuna af að snæða kavíar. Ötular tilraunir þeirra til að skapa skynsamlega og sjálfbæra áætlun fyrir styrjuveiðar grundvallast nefnilega á þeirri staðreynd að styrjuveiðar geti verið mjög ábatasamar og að viðskiptavinirnir eigi að geta haldið áfram að njóta kavíarsins. Raunar borða þær Doukakis og Pikitch afar sjaldan kavíar sjálfar. Þá sjaldan það gerist er það nánast eingöngu í tengslum við vinnuna og þá aðeins styrjuhrogn frá viðurkenndum fiskeldisstöðvum. Fiskeldi getur nefnilega átt stóran þátt í að viðhalda tegundunum. Ef ekki tekst að gera það í náttúrunni þá ætti það að vera hægt með fiskeldi við rétt skilyrði. Víða hafa skotið upp kollinum styrjueldisstöðvar á síðustu áratugum, og ekki aðeins í grennd við Kaspíahaf, heldur einnig í löndum á borð við Þýskaland, Frakkland, Spán, Ísrael og Bandaríkin. Þá hafa einnig verið gerðar tilraunir með að sleppa styrjum úr fiskeldi í sjó, meðal annars í Eystrasaltið. Til þessa þó með takmörkuðum árangri.

Annað framtak, sem vonir standa til að auka muni framleiðslu á kavíar, auk þess að hlífa mörgum fiskum, er fólgið í því að taka hrognin með eins konar keisaraskurði, þ.e. án þess að deyða styrjuna. Verið er að gera tilraunir með ýmsar aðferðir á nokkrum stöðum, en enn sem komið er hefur ekki fundist nein ein örugg aðferð, sem einnig gæti tryggt ábatasama framleiðslu.

Hugsanlega væri réttast að beina athyglinni í auknum mæli að framleiðslu á tilbúnum kavíar, sem myndi bragðast alveg eins, eða nánast jafn vel, og raunverulega varan. Japönsk afurð, sem framleidd er undir heitinu „Cavianne“, og unnin er úr skelfiski og þangi, er þegar framleidd í svo miklu magni í Japan að salan svarar til fimmtungs af allri framleiðslu á svörtum kavíar í landinu.

Eigi að verða unnt að bjarga styrjunni segir Ellen að neytendur verði að taka höndum saman. Kaupendur virðast smám saman vera að átta sig á mikilvægi þess að kaupa einungis kavíar frá viðurkenndum fiskeldisstöðvum, meira að segja í New York. Þetta tekur sinn tíma og þann tíma hefur styrjan einfaldlega ekki, nema þá allir standi við sinn þátt í samkomulaginu. Ef ekki, er hins vegar hætt við að villta styrjan verði horfin úr Kaspíahafi að 50 árum liðnum, ef marka má Ellen Pikitch. Annars staðar í heiminum eiga aðrar tegundir að sama skapi erfitt uppdráttar. Tegundirnar í Norður-Ameríku þjást af völdum mengunar, vegna stíflugerðar í fljótum svo og ránveiða; og sömu sögu er að segja af styrjutegundum í Mið-Evrópu og alla leiðina gegnum Asíu til Kyrrahafs.

Því er afar brýnt að samtök á borð við IUCN og CITES haldi áfram nánu samstarfi sínu við vísindamenn og yfirvöld staðanna þar sem styrja lifir. Þá er einnig mjög brýnt að löndin sem styrja lifir í hrindi í framkvæmd áætlunum um að bjarga stofninum. Ef þetta verður gert eru enn vonir um að kaupa megi kavíar að 50 árum liðnum, jafnvel þótt það kunni að vera frá fiskeldisstöðvum. Framleiðsla þessa eftirsótta lostætis kann nefnilega mætavel að verða sjálfbær á nýjan leik en eigi svo að verða þarf að grípa í taumana nú þegar.

„Ef ólöglega salan er stöðvuð og aflinn minnkaður niður í 1/5 af núverandi veiði, þá er von um að stofninn í Kaspíahafi nái sér á strik eftir 30 til 40 ár,“ segir Ellen Pikitch. Takist þetta munu fiskarnir aftur hrygna svo mörgum eggjum í árnar að 250 milljón ára löng saga styrjunnar geti haldið áfram.

(Visited 75 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.