Óþekkt dýr leynast undir ferðamannaeyju

Þegar líffræðingar leggja upp í leit að nýjum dýrategundum er vinsæl ferðamannaeyja yfirleitt ekki fyrsti staðurinn sem þeim dettur í hug. En það mætti kannski taka til endurskoðunar, a.m.k. ef aðstæður kynnu að vera eitthvað svipaðar og á eyjunni Lanzarote. Þar hafa vísindamenn, m.a. hjá dýralæknaháskólanum í Hannover, uppgötvað áður óþekkta tegund hellakrabba. Þessi smávaxna skepna hefur fengið heitið Speleonectes atlantida og hefst við í löngum hellisgöngum undir sjávarmáli. Þessi hrauhellir myndaðist þegar Coronafjall gaus fyrir um 20.000 árum. Hraunstraumurinn rann út í sjó og storknaði og myndaði um leið þessi löngu göng, sem kallast Túnel de la Atlántida. Þau eru um 1.500 metra löng og þar með lengsti neðansjávarhellir heims.

Nýja krabbategundin minnir helst á þúsundfætlu. Dýrið er 10-20 mm langt og augnalaust, enda berst ekkert ljós niður í hellinn. Þess í stað standa langir fálmarar út úr höfðinu og mikið af tilfinninganæmum hárum vex á öllum líkamanum. Með klónum getur krabbinn náð taki á afar smágerðri fæðu en reyndar líka ráðist á bráð sem er allt að tvöfalt stærri en krabbinn sjálfur. Í dimmum neðansjávarhelli dugar engin matvendni, segja vísindamennirnir.

Krabbinn minnir talsvert á Speleonectes ordinae, en þessar tvær tegundir eru hinar einu svonefndra „remipedda“ sem lifa í þessum helli. Aðrar tegundir þessara dýra, um 20 talsins, er að finna í Karabíahafi og þegar slík dýr finnast nú við Kanaríeyjar er það vísbending um að tegundirnar allar hafi átt sér sameiginlegan forföður fyrir um 200 milljón árum, áður en meginlandsflekana tók að reka sundur.

Subtitle:
Í lengsta neðansjávarhelli heims, undir Lanzarote, hefur fundist ný krabbategund.
Old ID:
1027
844
(Visited 10 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.