Skrifað af Dýr og plöntur Líffræði Náttúran

Stefnumót við styggan risa íshafsins

Þarna! Magnús bendir í norðurátt. Hann hefur komið auga á blástur rostungs, en á sjónum er nokkur bræla. Gúmmíbáturinn skoppar á öldunum og við getum varla greint útblástur rostungsins frá hvítfyssandi öldutoppunum.

Þetta er gamalt karldýr sem liggur í yfirborðinu og andar þar. Einungis höfuðið er sjáanlegt, en við heyrum greinilega til hans úr nokkurra metra fjarlægð þegar hann fnæsir loftinu út um nasirnar. Við höfum lengi beðið eftir þessu tækifæri.

Við erum hjá Daneborg á norðaustur Grænlandi þar sem flokkur rostunga heldur til hvert sumar við að fita sig, áður en hinn langi heimskautavetur skellur á. Sem líffræðingur við Umhverfisrannsóknarstofnun Danmerkur er ég nú í leiðangri með tveimur reyndum sænskum náttúruljósmyndurum, þeim Magnusi Elander og Göran Ehlmé, sem hafa myndað öll stærri dýr á heimskautasvæðum jarðar – Magnus ofansjávar og Göran neðansjávar. Nú er komið að rostunginum og það hefur tekið mörg ár að komast nærri þessum værukæra risa. Nú skortir einungis mikilvægustu mynd leiðangursins: fæðuuppsprettu rostungsins í undirdjúpunum. Aldrei fyrr hefur tekist að mynda hana.

Á landi virðist rostungurinn annars harla friðsamur. Þegar hann hefur étið fylli sína leggst hann gjarnan upp á sandströnd eða á ísjaka til að hvíla sig og melta fæðuna. Þar má oft sjá stóra hópa sem liggja hér og þar, og sofa í marga daga. Sólin sem skín allan sólarhringinn á heimskautasvæðinu hitar húð þeirra upp í 25 gráður. Þarna ummynda risarnir fæðuna í spik sem á að duga þeim allan veturinn. Meðan rostungarnir liggja á landi er unnt að ganga alveg upp að hrjótandi dýrunum án þess að þau vakni, en þegar rostungur er kominn út í sjó gjörbreytist háttalag hans.

Í sínu rétta umhverfi getur rostungurinn verið afar árásargjarn. Hann ræðst ósmeykur á kajaka og smábáta, og hefur drepið margan veiðimanninn. Ungu dýrin þykja einkar óútreiknanleg. Eldsnöggt skjóta þau höfðinu fram með skögultennurnar sem árásarvopn. Það er beinlínis lífshættulegt að fylgja flokki kafandi rostunga eftir. Fyrstu tvö árin voru ljósmyndararnir því eingöngu á grynningum þar sem þeir gátu náð til botns. Smám saman sáu þeir að eini möguleikinn til að fylgja rostungi í hafdjúpi var að finna gamalt spakt dýr sem kafar og étur aleitt. Við teljum okkur hafa komið auga á slíkt dýr. Meðan Magnus stýrir gúmmíbátnum bíðum við Göran eftir réttu augnabliki til að stökkva í sjóinn.

Þorum við að fylgja honum til botns?

Rostungurinn liggur og dregur andann nokkra stund, síðan kafar hann á ný. Við vitum að hann getur kafað í sex til sjö mínútur og getum einungis vonast til að hann komi upp aftur nálægt bátnum. Botninn hér er einungis tæpa 30 metra undir yfirborðinu. Þetta ætti að takast, en hann má ekki fara út á meira dýpi eigi okkur að takast að fylgja honum til botns.

Með kröftugum blæstri brýst hann upp á yfirborðið ekki langt frá bátnum. Við höldum nær honum. Hann kemur til okkar en verður ekki óttasleginn. Hins vegar tekur adrenalínið að flæða um æðar okkar. Þorum við að fylgja honum til botns? Eftir tæpa hálfa stund tökum við ákvörðun. Meðan báturinn hoppar og skoppar á öldunum förum við yfir köfunarbúnaðinn í síðasta sinn. Síðan flýtum við okkur á þann stað sem rostungurinn kafar frá.

Það er eins og að vera laminn með hrísvendi þegar ískaldur sjórinn skellur á höfðinu. En nú gefst enginn tími til umhugsunar. Við höfum einungis fimm mínútur til þess að ná til botns og sjá rostunginn. Þegar við köfum niður minnist ég síðustu orða Görans: „Treystu aldrei rostunginum”.

Eignast afkvæmi einungis þriðja hvert ár

Latneskt ættarnafn rostunga, odobenus, þýðir „sá sem fer um á tönnunum”. Nafnið bendir til að dýrin noti m.a. skögultennurnar til að draga sig upp á ísjaka. Rostungar lifa einungis á Norðurheimskautinu. Þeir tilheyra selum – náskyldir eiginlegum selum, sæljónum og pelsselum – og mynda eigin fjölskyldu.

Rostungar geta orðið 30 til 40 ára gamlir. Kvendýrin para sig á fjögurra ára aldri og eignast afkvæmi einungis þriðja hvert ár. Stofninn vex því afar hægt og veiðar geta með skjótum hætti orðið alvarleg ógn. Á landi sem á ísjökum halda rostungarnir sig í stórum hópum og þar sem skepnurnar eru sérlega silalegar á landi er auðvelt að útrýma heilum hóp í sömu veiðiferðinni.

Frá lokum 17. aldar og fram á miðja 19. öld voru rostungar veiddir af miklum móð og þúsundir dýra drepnar. Úr spikinu var gert lýsi og skögultennurnar voru afar eftirsóknarverðar. Vegna ofveiða hvarf rostungurinn af fjölmörgum svæðum. Á V-Grænlandi sást til síðasta rostungsins á landi undir lok fjórða áratugs síðustu aldar og á A-Grænlandi var stofninn talinn nánast útdauður um 1950.

Á NA-Grænlandi og á Svalbarða voru rostungar friðaðir um miðja síðustu öld. Stofnarnir eru nú smám saman að ná sér aftur á strik á þessum svæðum. Reiknað er með að á milli eitt þúsund og tvö þúsund dýr finnist nú við A-Grænland. Við V-Grænland fækkar þó rostungum stöðugt. Árlega skjóta veiðimenn um 150 dýr sem koma frá norðlægasta stofninum. Slíkt veiðiálag krefst þess að stofninn samanstandi af þrjú til sjö þúsund dýrum eigi hann ekki að minnka. Raunveruleg stofnstærð er ekki þekkt, en talið er að fjöldi dýra sé undir sjö þúsund.

Líkist helst svíni á hafsbotninum

Á leiðinni að botni greinum við undir okkur leirský sem rótast upp af botninum. Þar er rostunginn að finna. Ég hef enga hugmynd um hvað bíður okkar og held mig nærri bláum sundfitum Görans. Skyndilega birtist rostungurinn úr leirrótinu. Feiknarlegur og örum settur líkaminn er greinilegur í tærum sjónum. Hann líkist helst risavöxnu svíni án fóta sem rótar um í hafsbotninum. Allt í einu erum við rétt við hliðina á honum. Hann hefur trúlega aldrei séð kafara áður og við erum grunlausir um hvernig hann muni bregðast við þessum framandi verum, sem birtust svo nærri honum.

Dýrið staðnæmist í sviphendingu og horfir á okkur pírðum augum. Augun standa sem á stilkum til að auka sjónsvið dýrsins. Þarna erum við þrír grafkyrrir í sjónum. Við höldum niðri í okkur andanum. Loftbólurnar gætu annars hrætt hann. Hann starir beint á okkur. En hvernig ber að túlka augnaráð rostunga? Það er fátt eitt til hjálpar þegar maður er rétt við svo risavaxna skepnu á 30 metra dýpi. Skömmu síðar snýr hann sér við og heldur áfram fæðuleit sinni.

Göran veifar til mín hinu megin við rostunginn. Ég er einungis í hálfs metra fjarlægð frá höfði hans og gæti teygt mig í skögultennurnar ef ég kærði mig um. En ég hef enga löngun til þess. Og þrátt fyrir að hitastig sjávar sé aðeins -1,5 ° celsíus er mér ekkert kalt.

Rostungurinn fylgist með okkur af áhuga. Hann er með annað augað á okkur en leitar stöðugt eftir fæðu. Skegg hans samanstendur af stífum veiðihárum sem standa út í allar áttir. Veiðihárin minna á broddgölt en hvert og eitt þeirra er sem næmur fingurgómur. Lengstu veiðihárin á hliðunum finna fæðuna en hin styttri nema hvers eðlis hún er. Veiðihárin geta greint milli þríhyrndra og ávalra fyrirbæra sem eru aðeins 7 mm í þvermál og greina hvort þau eru æt.

Skögultennurnar liggja flatar á hafsbotninum og virka eins og meiðar meðan rostungurinn dregur höfuðið eftir botninum. Skeggið finnur það sem hann leitar að: kræklingana. En það er einungis öndunarrör kræklinganna sem stendur upp úr hafsbotninum. Sjálfur er kræklingurinn jafnan á 20-30 sm dýpi í leirnum.

Með ógnarkrafti slær rostungurinn með hægri hreifa að botninum. Þetta gerist með ótrúlegum hraða. Hann þeytir miklu magni af leir burt þannig að kræklingarnir verða berskjaldaðir. Þetta endurtekur hann hvað eftir annað og skyndilega sjáum við ekki handa okkar skil. Í skýi af sandi og leir vitum við ekkert hvar hann heldur sig nú og drögum okkur í skyndingu til baka.

Hafsbotninn líkist orustuvelli með sprengjugígum þar sem rostungurinn hefur verið á ferðinni. Ætla mætti að einhver hefði kastað handsprengjum í allar áttir þarna. En það eru öflug högg rostungsins sem skilja eftir gígana – 40 til 50 sm djúpa og allt að 2 m í þvermál. Þegar hann er búinn að dæla kræklingnum upp úr botninum með þessum hætti sýgur rostungurinn kjötið upp úr þeim. Munnur rostungsins virkar eins og lofttæmisdæla. Með miklum undirþrýstingi dregur hann einfaldlega kjötið út úr skelinni, sem fellur síðan tóm til botns.

Myndirnar gagnast fræðimönnum

Myndir Görans af rostungi í fæðuleit á hafsbotni eru fyrstu sinnar tegundar í heiminum. En markmið hans er ekki einvörðungu að ná frábærum myndum – hann vinnur einnig með okkur fræðimönnunum. Vegna framlags Görans vitum við nú miklu betur hvernig rostungur ber sig að í fæðuleit. Í hvert sinn sem hann verður var við rostung að róta um á botninum merkir hann svæðið með bauju. Síðar, þegar dýrið er á braut og sjórinn aftur tær, getum við kafað þar niður og náð í tómar skeljar. Með þessu móti höfum við komist að því að rostungur getur étið yfir 50 kræklinga í hverri köfun. Þetta svarar til átta til níu kræklinga á mínútu. Rostungurinn getur kafað og étið samfleytt í þrjá til níu daga, áður en hann fær sér verðskuldaðan lúr á ströndinni í allt að tvo sólarhringa.

Með því að svæfa rostunga og koma mælitæki fyrir á skögultönnum þeirra hafa fræðimenn getað greint hve oft, hve djúpt og hve lengi rostungar kafa. Í hvert sinn sem dýrið kemur upp á yfirborðið sendir búnaðurinn upplýsingar til fræðimanna í gegnum gervihnött.

Þannig vitum við nú að eins tonna rostungur étur um 70 kg af kræklingi daglega. Á góðum degi getur rostungur étið um 7% af eigin líkamsþyngd. En rostungurinn er gráðugt rándýr sem lætur sér ekki einungis kræklinga nægja. Æðarfuglar eru einnig á matseðli hans, en jafnframt er hann fær um að drepa seli með skögultönnunum. Þessu næst sýgur hann í sig bráðina með húð, hári og spiki. Einnig eru til frásagnir um rostunga sem hafa drepið ísbirni, smáhveli og háhyrninga.

Leirinn lekur úr skegginu

Skyndilega stingur hann aftur höfðinu út úr leirskýinu sem hann hefur dælt upp. Leirinn lekur úr skegginu og myndar langa slóð í sjónum. Nú er tímabært fyrir rostunginn að halda aftur að yfirborðinu og ná sér í nýjan skammt af súrefni áður en hann heldur á ný í forðabúr sitt. Hann glennir út hreifana og gríðarlegur skrokkurinn rís í sjónum. Rostungurinn er ríflega 4 metrar á lengd og mér líður eins og dvergi þegar hann líður hjá í átt að yfirborðinu. Við Göran erum í sjöunda himni. Hann hefur nú loksins fengið þær myndir sem hann hefur beðið eftir í áraraðir.

Í gúmmíbátnum segir Göran mér að ég sé einungis þriðji maðurinn í heiminum sem hefur kafað með rostungi. Og ég er sannarlega þakklátur fyrir að rostungurinn ruglaði mér ekki saman við sel.

Subtitle:
Náin kynni við rostung eru hættuspil. Þessi mikla skepna getur á örskotsstundu breyst í skelfilegan drápara. Engu að síður tók danski líffræðingurinn Peter Bondo áhættuna ásamt tveimur sænskum ljósmyndurum og truflaði átvarginn við matarborðið á hafsbotni.
Old ID:
369
223
(Visited 20 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.