Skrifað af Dýr og plöntur Náttúran Þróun lífsins

Tígurinn er vitrastur katta

Tígrisdýr hafa stærri heila og þar með að líkindum meiri greind en önnur stór kattardýr – ljón, hlébarðar og jagúarar. Í tölum er tígrisheilinn 16% stærri en ljónsheili, þegar bornar eru saman tvær jafn stórar beinagrindur. Hauskúpa tígrisdýrsins er þannig löguð að heilinn fær meira pláss.

Það voru vísindamenn við Oxford-háskóla sem mældu höfuðkúpur stórra kattardýra. Þeir mældu bæði lengd hauskúpunnar og stærð holrúmsins sem geymir heilann. Í ljós koma að heilar ljóns, hlébarða og jagúars eru jafnstórir þegar leiðrétt hefur verið fyrir stærð dýrsins en tígrisdýrin hafa rými fyrir fleiri gráar frumur.

Uppgötvunin kemur vísindamönnum á óvart sem nú neyðast til að endurskoða þá almennt viðteknu kenningu að félagslynd dýr á borð við ljón hafi stærri heila en einfarar eins og tígrisdýr. Það virðist sem sagt ekki samhengi milli stærðar heilans og félagshæfni dýrsins.

Vitað er að öll stór kattardýr eru komin af sameiginlegum forföður sem uppi var fyrir um 3,7 milljónum ára, en ekki er vitað hvers vegna tígrisdýrin hafa þróað stærsta heilann. Næsta skref er að rannsaka hvaða hlutar heilans eru rúmfrekari í tígrisdýrum en öðrum stórum köttum.

Subtitle:
Ný mæling sýnir að félagslynd dýr hafa ekki endilega stærstan heila
Old ID:
1066
883
(Visited 8 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019