Tækni
Ný aðferð til að greina fingraför sem þurrkuð hafa verið af málmfleti, gera afbrot nú enn erfiðari atvinnugrein.
Það eru vísindamenn við Leicester-háskóla sem standa að þessari nýju tækni en hún byggist á þeirri staðreynd að þegar sviti á fingri kemst í snertingu við málmflöt verður alltaf örlítil tæring.
Tæringin situr eftir hvort sem yfirborðið er þurrkað vandlega eða verður t.d. fyrir hita eins og gerist þegar skotið er úr byssu. Fingrafarið verður sýnilegt þegar rafleiðandi duft er borið á flötinn og vægum straumi síðan hleypt á. Þessi tækni getur leitt í ljós margra áratuga gömul fingraför og því reikna vísindamennirnir með að hún geti leitt til endurrannsóknar á ýmsum gömlum afbrotamálum.