Sæhestar sem eru af sænálaætt, eru meðal sérkennilegustu skepna hafanna. Tegundin sem hér er sýnd kallast þangdreki. Langt trýnið er notað til að soga inn fæðu og hængurinn ber hrogn hrygnunnar í poka þar sem þau klekjast. Skrokkurinn er allur þakinn beinplötum.
Nú hafa vísindamenn hjá Oregonháskóla uppgötvað að sæhesta vantar mikilvæg vaxtargen sem m.a. eiga þátt í tannmyndun. Aftur á móti eru erfðamengin full af síendurteknum kóðabútum sem kallast transpósónar. Transpósónar hafa getu til að klippa og afrita sjálfa sig víða í genamenginu og það hamlar getu annarra gena til að hafa áhrif á þróun lífverunnar á sérkennum.
Sterkir litir vernda
„Þessi nýja þekking um sæhesta gæti komið að góðu haldi við að viðhalda þessum sérkennilegu dýrum,“ segir í niðurstöðunum sem birtust í Proceedings of The National Academy of Sciences.
Sæhestar halda sig oft á grunnsævi allt frá tempruðu beltunum til hitabeltisins og allmargar tegundir eru á kóralrifjum. Þar eiga sterkir litir dýranna þátt í að fela þá fyrir rándýrum.
En það kemur líka fyrir að sæhestar finnist í svalari sjó norður með vesturströnd Evrópu, norður til Englands og Írlands og jafnvel syðst í Eystrasalti.
Það er erfitt að halda sæhestum á lífi í fiskabúrum og enn erfiðara að láta þá fjölga sér. Seyðin eru mjög smá og viðkvæm og ekki nema um 5 af hverjum 1.000 lifa af.
Margar tegundir eru í útrýmingarhættu vegna eyðileggingar búsvæða og rányrkju í sjó.