Það er ekki að ástæðulausu sem næststærsti bílaframleiðandi heims, BYD, hefur fjárfest gríðarlega í þróun svonefndra natríum-jóna-rafhlaðna.
Menn telja þessa nýju gerð alvöru keppinaut liþíumjónarafhlöðunnar sem nú knýr flesta rafbíla, farsíma og fartölvur.
Natríum-jóna-rafhlaðan er ódýrari, umhverfisvænni og öruggari. Hún heldur hins vegar ekki jafn mikilli orku og tekur lengri tíma í hleðslu.
En nú virðist hópur kóreskra vísindamanna hjá KAIS (Korea Advanced Institute of Science and Technology) hafa leyst þennan vanda með nýrri gerð natríumrafhlaðna.
Blendingsrafhlaða
Nýja rafhlaðan er blendingsrafhlaða og rafeindirnar koma frá tveimur uppsprettum. Rafhlaðan er sögð hafa gríðarlega orkuþéttni og unnt að hlaða hana á fáeinum sekúndum.
Rafhlaða byggist á tveimur rafóðum sem kallast katóða og anóða. Katóðan tengist svonefndum plús-enda en anóðan mínus-endanum.
Vísindamennirnir samtengdu anóðuefni sem notuð eru í venjulegum rafhlöðum við katóður úr svonefndum ofurþéttum. Hið síðarnefnda eru rafhlöður sem geta geymt mikla orku og skilað henni á miklum hraða og er þess vegna unnt að hlaða á skömmum tíma.
Niðurstaðan varð alveg ný natríumrafhlaða með járnsúlfíðeindum í kolefni og grafíni. Þessa rafhlöðuhluta segja vísindamennirnir bæði auka magn orku sem unnt er að geyma í rafhlöðunni og leiðni í henni.

Hugvitið auðveldar loftslagsreikninginn
Rafhlöður í bíla vega þungt á mínushlið loftslagsreikningsins. En ný efni eru á leiðinni.

1. Nikkel í stað dýrs málms
Bandarískir vísindamenn hyggjast nota nikkel í katóðu eða plús-pólinn. Vinnsla nikkels framleiðir miklu minna af gróðurhúsalofti en vinnsla kóbolts sem nú er algengasta katóðuefnið.

2. Natríum verður loftslagshetjan
Jónir streyma frá mínus-pól til plús-póls og mynda þannig strauminn. Vísindamenn hafa þróað rafhlöðu sem nýtir natríum-jónir í stað liþíumjóna sem eru mjög erfiðar í vinnslu.

3. Nanóefni í stað grafíts
Jónirnar binda sig við anóðuna, mínus-pólinn. Hópur vísindamanna hyggst gera anóður úr járni, kopar og járnoxíði í nanóstærð í stað grafíts. Það gæti þrefaldað afköstin og fimmfaldað endingartíma rafhlöðunnar.
Þegar þessum nýju rafhlöðum er pakkað saman í bílrafhlöðu segja vísindamennirnir orkuþéttnina verða meiri en í þeim bílarafhlöðum sem nú eru á markaði en um leið heldur nýja rafhlaðan snöggum hleðslutíma ofurþéttanna.
Mælingar á natríumrafhlöðunni þegar hún var tæmd og endurhlaðin 5.000 sinnum sýndu að hún náði orkuþéttni upp á 250 vattstundir á hvert kg og skilaði 34.748 vöttum á hvert kg.
Þessi rafhlaða virðist samkvæmt því halda meiri orku á hverja þyngdareiningu en núverandi natríumjónarafhlöður og er hundraðfalt hraðari í hleðslu en aðrar bílarafhlöður.
Rafhlaðan reyndist halda hæfni sinni og afköstum alla þessa 5.000 hringi og það bendir til að hún endist lengi og þoli þó mikla notkun.