Ef þú ferð til læknis í dag til að athuga með húðkrabbamein grípur læknirinn skurðhnífinn og tekur vefjasýni til prófunar.
En þessir litlu skurðir í húðina gætu brátt heyrt sögunni til, því nú hafa vísindamenn, með örbylgjum, þróað aðferð sem greint getur húðkrabbamein án minnstu inngripa.
Að sögn rannsakenda er hægt að yfirfæra tæknina á auðveldan og ódýran hátt yfir í einfalt tæki sem halda má á, og getur orðið fastur liður í hverri heimsókn til læknis.
Læknar taka mörg vefjasýni
Um 57.000 manns létust árið 2020 úr húðkrabbameini (einnig þekkt sem sortuæxli). Alls greindust tæplega 325.000 manns um allan heim sama ár.
Sem betur fer eru læknar að prófa meira en nokkru sinni áður fyrir húðkrabbameini, en það þýðir líka að taka æ fleiri vefjapróf á áhyggjufullum sjúklingum.
LESTU EINNIG
Samkvæmt skýrslu einni skera læknar 15 heilbrigða einstaklinga í húðina fyrir hvern krabbameinssjúkling sem þeir finna.
Og bæði læknar og sjúklingar hafa að sjálfsögðu löngun til að draga úr fjölda heilbrigðra vefjasýna. Þessir litlu skurðir geta valdið sársauka, skilið eftir ör og og eru tímafrekir fyrir bæði lækna og rannsóknarstofur.
Hátíðnibylgjur fækka skurðum um helming
Vísindamennirnir sem hafa þróað þessa uppfinningu hafa í nokkur ár rannsakað möguleikann á að greina frumubreytingar – sem síðar geta þróast í krabbamein – í húð og fæðingarblettum.
Með því að nota skanna með örbylgjum og hátíðnibylgjum – sem eru líka rafsegulbylgjur, en með aðeins hærri tíðni – geta rannsakendur sett saman mynd af húðfrumunum.
Skönnunin virkar þannig að bylgjurnar skella á frumunum og skjótast til baka. Ef frumurnar eru að breytast breytist magn vatnssameinda, próteina, sykurs og sýra – og það er hægt að greina með tækinu þegar bylgjan endurkastast til baka frá frumunni.
Þegar handheldur hátíðniskanni verður að raunveruleika getur hann komið í staðinn fyrir eða verið viðbót við húðsjá sem læknar nota. Það er í grundvallaratriðum stækkunargler sem gerir heilbrigðisstarfsmönnum kleift að horfa allt að 100 sinnum nær húð sjúklingsins.
Í nýju rannsókninni notuðu vísindamenn hátíðnibylgjur til að rannsaka 136 manns með tilliti til húð- og brjóstakrabbameins.
Hátíðnibylgjuskanni þeirra náði um 97 prósenta árangri, sem er að sögn rannsakenda á pari við bestu og nútímalegustu aðferðir.
Brátt ætti skanninn að vera handheldur
Í rannsókninni notuðu vísindamennirnir ekki skanna sem er handheldur. En í skýrslunni segir að tæknin sé þegar til staðar þannig að hægt sé að framleiða lítinn og ódýran skanna með sömu skilvirkni.
Skanninn þarf tvö loftnet til að gefa frá sér hátíðnibylgjur, en auðvelt er að smíða þau inn í eina örflögu.
Að sögn vísindamannanna gæti svoleiðis skanni rutt brautina fyrir auðveldar og fljótlegar prófanir á húðkrabbameini og – að minnsta kosti – dregið verulega úr fjölda óþarfa vefjasýna.