Lifandi Saga

Olíuborpallur springur: Eldhaf í Norðursjó

Eldsúluna mátti sjá úr 100 km fjarlægð þegar sprenging umbreytti olíupallinum Piper Alpha í logandi helvíti árið 1988. Úti á Norðursjó hófst kapphlaup við að bjarga 226 Bretum, enda var hitinn ægilegur.

BIRT: 03/08/2023

Bob Ballantyne logsvíður í andlit og augu.

 

Allt frá því að borpallurinn Piper Alpha sprakk fyrir 45 mínútum hefur þessi 46 ára gamli skoski rafvirki leitað í örvæntingu eftir leið út úr þessu brennandi helvíti.

 

Allur borpallurinn er umlukinn reyk og á mörgum stöðum eru logarnir við það að bræða burðargrindina.

 

Klukka hans sýnir 22.50 þann 6. júlí 1988 þegar Ballantyne kemur loksins auga á tækifæri til að sleppa undan bráðum bana. Ballantyne stendur á kjallarapalli borpallsins sex metrum yfir öldum Norðursjávar og fyrir ofan hann geisar eldhafið látlaust.

 

Hvað eftir annað falla stórir brennandi hlutir niður í hafið. Ballantyne stendur við suðausturstöpul borpallsins og ekki langt frá – við vesturstöpul borpallsins – má grilla í björgunarbát.

Bob Ballentyne sést hér á minningarathöfn fyrir fórnarlömb Piper Alpha-slyssins.

Margir félagar hans hafa hópast þar að í von um að komast upp í bátinn og hann hyggst fara til þeirra yfir neðstu brú Piper Alpha. En rétt í þann mund sem Ballantyne ætlar að hlaupa af stað gellur við mikil sprenging.

 

Enn ein sprenging verður þess valdandi að gjörvallur pallurinn hristist og skelfur og hann sér félaga sína hverfa inn í eldhaf.

 

Ballantyne gerir sér grein fyrir því að hann geti ekki verið á Piper Alpha öllu lengur. Skotinn er þarna staddur í versta olíuslysi sögunnar og möguleikar hans á að lifa það af minnka með hverri mínútu.

 

Hvarvetna á borpallinum reyna aðrir að koma sér í öruggt skjól.

 

Viðvörunarbjöllur ærast

Fáeinum tímum áður líktist þessi dagur öllum öðrum úti á Norðursjó.

 

Þegar dagvaktin hóf störf á Piper Alpha var allt friðsælt. Himininn var blár og mjög gott í sjóinn.

Piper Alpha vann olíu og náttúrugas úr botni norðursjávar. Hvort tveggja var leitt með rörum áfram til olíustöðvarinnar Flotta á Orkneyjum.

Piper Alpha var ferlíki hafsins

Olíuborpallurinn Piper Alpha var stálrisi Stóra-Bretlands í Norðursjó. Það tók þrjú ár að byggja ferlíkið sem var tilbúið árið 1976. Borpallurinn gnæfði 88 metra í loft upp og neðansjávar var Piper Alpha ennþá stærri: Pallurinn hvíldi á 145 metra háum stöplum.

 

Þar sem Norðursjór er eitt af kaldranalegustu svæðum jarðar var pallurinn hannaður til að geta þolað ofsaveður með ekki minna en 185 km/klst. hraða og allt að 29 metra ölduhæð.

 

Undir Norðursjó liggur olían í jarðlögum sem er að finna milli 2 og 5 km undir sjávarborði og Piper Alpha dældi svarta gullinu upp úr 36 brunnum á hafsbotni. Á olíuborpallinum var náttúrugas skilið frá olíu og flutt með aðskildum leiðslum til strandar. Piper Alpha var einnig millistig með þjónustustöð fyrir gas frá öðrum borpöllum á Piper-svæðinu.

 

Bormenn unnu að jafnaði 14 daga í senn og gistu um borð í borpallinum. Það átti eftir að reynast mörgum mönnum örlagaríkt.

Allt í allt voru 226 menn staðsettir á borpallinum 190 km austan við skosku borgina Aberdeen. Langflestir þeirra voru Bretar, þrátt fyrir að bandaríska fyrirtækið Occidental Petroleum sæi um vinnsluna á Piper-svæðinu.

 

Sumarmánuðir voru nýttir í viðhald á borpallinum og þennan miðvikudagsmorgun sendi vaktin í stjórnstöðinni frá sér verkbeiðni og sendi á flokk verkamanna sem átti að gera við öryggisventil í bilaðri dælu.

 

Piper Alpha hafði yfir tveimur dælum að ráða sem blönduðu sérstöku efni í hráolíuna til þess að hún yrði meira fljótandi, áður en hún var send síðan áfram í gegnum leiðslur inn til strandar.

 

Mennirnir héldu í átt til dælunnar en þetta verkefni tók lengri tíma en þeir áttu von á. Þegar klukkan nálgaðist 18 voru þeir ekki enn búnir og hér urðu fyrstu afdrifaríku mistökin:

 

Þeir komu með bráðabirgðapakkningu og settu dæluna saman með skrúflykli. Í handbókinni stóð annars skýrt og greinilega að dælan skyldi sett saman með högglykli.

Piper Alpha stóð á 144 metra dýpi úti í Norðursjó. Frá borpallinum voru 190 km til Aberdeen.

Norðursjávarolía var gullnáma Breta

Fundur á olíu og gasi í Norðursjó reyndist ábatasamt ævintýri fyrir Stóra-Bretland. Fyrir utan að skapa fjölmörg ný störf veitti olíuiðnaðurinn breska hagkerfinu kærkomna innspýtingu.

 

Upp úr 1960 fundu Bretar fyrstu olíu- og gaslindirnar undir Norðursjó og brátt kom í ljós að þetta reyndist vera sannkölluð gullnáma. Áratug síðar streymdi svarta gullið í rörum inn á strandstöðvar.

 

Oft voru það erlend fyrirtæki sem tóku að sér olíuvinnsluna á meðan breska ríkið mokaði inn gríðarlegum fjármunum með því að skattleggja olíufyrirtækin með allt að 45 – 70% af tekjum þeirra.

 

Á níunda áratugnum nam skattlagning Breta þannig ríflega 372 milljörðum króna á ári í olíusköttum frá Norðursjó sem samsvaraði tíunda hluta af heildartekjum þjóðarinnar.

 

Vinnslan átti sinn þátt í að gera Aberdeen að olíuhöfuðborg Evrópu. Höfn borgarinnar var stækkuð mikið og ekki leið á löngu þar til heimsins stærsti flugvöllur fyrir þyrlur spratt þar upp.

 

Frá 1970 til 1980 jókst íbúafjöldinn um 40.000.

Viðgerðarhópurinn skráði á verkbeiðnina að ekki mætti taka dæluna í notkun fyrr en verkinu væri að fullu lokið því öryggisventill dælunnar virkaði ekki ennþá. Og síðan urðu mönnunum á enn fleiri mistök.

 

Í stað þess að tilkynna starfsfólkinu í stjórnstöðinni um þessa yfirvofandi hættu lögðu þeir bara frá sér verkbeiðnina á skrifborð og fóru síðan í kærkomið frí.

 

Þegar tæknimaðurinn Geoff Bollands mætti á kvöldvakt sína í stjórnstöðinni uppgötvaði hann ekki viðvörunina. Bollands var þrautreyndur og með meira en 10 ára starfsreynslu en þegar önnur dæla Piper Alpha stöðvaðist klukkan 21.45 hafði hann enga hugmynd um að borpallurinn gæti ekki lengur dælt olíu.

 

Bollands og félagar hans í stjórnstöðinni hikuðu því ekkert við að setja hina biluðu dæluna í gang. Og þetta reyndist upphafið að endalokunum fyrir Piper Alpha.

 

Eldfimt gas lak út um óþéttan ventilinn og tíu mínútum síðar tóku viðvörunarljós að blikka í stjórnstöðinni.

Í stjórnklefa Piper Alpha voru allar mikilvægar ákvarðanir teknar. Í 12 ár hafði pallurinn framleitt olíu án alvarlegra slysa en 6. júlí árið 1988 fór allt úrskeiðis.

Bollands náði rétt að pirra sig á því að nú þyrfti að hætta allri starfseminni á borpallinum – en það er sérdeilis kostnaðarsöm aðgerð fyrir olíufyrirtæki – þegar einhver neisti kveikti í gasinu.

 

Það næsta sem hann heyrði var gríðarlegur hávaði.

 

Veggir tætast í sundur

Loftþrýstingurinn frá sprengingunni var svo öflugur að þykkir brunaveggirnir á borpallinum tættust í sundur. Veggirnir voru einungis hannaðir til að hindra eldsvoða í að dreifast um framleiðslupallinn – en þeir réðu ekkert við þessa öflugu sprengju.

 

Rétt eins og meirihluti af starfsfélögum hans á borpallinum hafði rafvirkinn Bob Ballantyne nýtt frítíma sinn til að fara í bað, fá sér að borða í matsalnum og skemmta sér við spil á efsta þilfarinu.

 

Með bolla í hönd gekk hann aftur í átt að káetu sinni þegar sprengingin varð.

„Mér fannst eins og gjörvallur borpallurinn hefði lyfst upp af hafinu“.
Bob Ballantyne

Ballantyne riðaði og missti kaffibollann sinn.

 

„Mér fannst eins og gjörvallur borpallurinn hefði lyfst upp af hafinu“, sagði hann síðar.

 

Hvarvetna á borpallinum lágu starfsmenn á þilfari og enginn var í vafa um að eitthvað mjög alvarlegt hefði gerst. Þeir sem voru staddir á framleiðslupallinum gátu séð logana meðan þykkur eitraður reykur varaði aðra menn ofar á borpallinum við aðsteðjandi hættu.

 

Í hvert sinn sem einhver opnaði dyr vall kæfandi reykurinn inn. Á meðan að þessu stóð bræddu logarnir vararafstöðvar Piper Alpha og umbreyttu borpallinum í hjálparvana stálgrind.

 

Ballantyne stökk inn í káetu sína þar sem hann fann félaga sína, þá Ian Gillanders og Charlie MacLaughlin. Gillanders var vankaður því loftið í baðherberginu hafði fallið niður á hann.

 

Mennirnir þrír fundu veski sín og vegabréf en þegar Gillanders gerði sig líklegan til að pakka niður fötum stoppaði Ballantyne hann með þjósti:

 

„Nei Ian! Hættu þessu! Við skiljum allt eftir. Við þurfum að yfirgefa borpallinn!“

Þykkir björgunarbúningar eins og þessir áttu að koma í veg fyrir að áhöfn Piper Alpha frysi til bana í ísköldu sjónum við Norður-Skotland.

Allir fóru þeir í björgunarbúninga því jafnvel í júlí er hitastigið í Norðursjónum einungis 10 gráður og allir starfsmenn á Piper Alpha vissu að þeir gætu í besta falli lifað af veru í sjónum í eina klukkustund án flotgallans.

 

Reykurinn var nú farinn að þrengja sér inn í káetuna þannig að Ballantyne og félagar hans bleyttu handklæðin og settu fyrir vit sín áður en þeir hlupu út. Þremenningarnir vissu ekki hvert þeir ættu að halda þegar þeir voru komnir út á þilfar. En þeir lofuðu hvor öðrum að halda hópinn – nokkuð sem þeir gátu ekki staðið við.

 

Stækja af brunnum köplum

Þegar hvellurinn frá sprengingunni gall við var tæknimaðurinn Geoff Bollands uppi í stjórnstöðinni og kastaðist fimm metra í loft upp og skall á veggnum.

 

Stjórnstöðin var nálægt þeim stað þar sem gasið hafði safnast saman þannig að sprengingin eyðilagði möguleika Piper Alpha að berjast við eldsvoðana af eigin rammleik.

 

Bollands komst á fætur og fann þá fyrir nístandi sársauka í mjöðminni. Blóð rann úr djúpum skurði á þumalfingri hans meðan Bollands reyndi að ná áttum.

 

Tölvur og stjórnborð voru stórskemmd og fnykurinn af brenndum köplum barst út um allt.

Bráðnauðsynleg viðvörun var ekki lesin

Í stjórnstöðinni fær enginn munnleg skilaboð um að tæknimenn dagvaktar séu ekki búnir að gera við dælu A á Piper Alpha – og því megi alls ekki setja hana í gang. Þessi bráðnauðsynlega aðvörun er skráð í vinnuskýrslu sem er hent upp á borð í stjórnstöðina. En enginn les skýrsluna.

Leki veldur sprengingu

Hamfarirnar verða vegna galla í dælu A. Hún er sett í gang þegar dæla B slær út. En ventill á dælu A er ekki rétt skrúfaður á eins og verklagsreglur eiga að tryggja. Þess í stað hafa tæknimenn einungis notað skrúflykil. Gas lekur út og klukkan 21.45 kveikir neisti í því. Borpallurinn springur með ógurlegum látum.

Olíutankar springa

Sprengingin er svo öflug að hún rústar brunaveggjum. Veggirnir sem eru mörg tonn á þyngd, eiga að hindra bruna í að breiðast út en þeir þola ekki þrýstinginn. Þetta leiðir til þess að tveir stórir tankar með hráolíu springa einnig og eldurinn umlykur allan pallinn.

Gúmmímottur örlögum Piper Alpha

Fimm mínútum síðar veita enn ein mannleg mistök borpallinum náðarhöggið. Kafarar hafa lagt gúmmímottur yfir nokkrar grindur þannig að þegar sprenging verður til þess að olía lekur út nær hún að safnast saman í polli. Það kviknar í mottum og olíu sem brenna í sundur eina gasleiðslu. Enn ein risavaxin sprenging skekur Piper Alpha.

Bob Ballantyne stekkur til að bjarga lífi sínu

45 mínútum eftir fyrstu sprenginguna sér rafvirkinn Bob Ballantyne félaga sína í eldhafinu. Skömmu síðar kastar hann sér út í sjóinn úr sex metra hæð til að sleppa út úr þessu helvíti.

Bráðnauðsynleg viðvörun var ekki lesin

Í stjórnstöðinni fær enginn munnleg skilaboð um að tæknimenn dagvaktar séu ekki búnir að gera við dælu A á Piper Alpha – og því megi alls ekki setja hana í gang. Þessi bráðnauðsynlega aðvörun er skráð í vinnuskýrslu sem er hent upp á borð í stjórnstöðina. En enginn les skýrsluna.

Leki veldur sprengingu

Hamfarirnar verða vegna galla í dælu A. Hún er sett í gang þegar dæla B slær út. En ventill á dælu A er ekki rétt skrúfaður á eins og verklagsreglur eiga að tryggja. Þess í stað hafa tæknimenn einungis notað skrúflykil. Gas lekur út og klukkan 21.45 kveikir neisti í því. Borpallurinn springur með ógurlegum látum.

Olíutankar springa

Sprengingin er svo öflug að hún rústar brunaveggjum. Veggirnir sem eru mörg tonn á þyngd, eiga að hindra bruna í að breiðast út en þeir þola ekki þrýstinginn. Þetta leiðir til þess að tveir stórir tankar með hráolíu springa einnig og eldurinn umlykur allan pallinn.

Gúmmímottur ráða örlögum Piper Alpha

Fimm mínútum síðar veita enn ein mannleg mistök borpallinum náðarhöggið. Kafarar hafa lagt gúmmímottur yfir nokkrar grindur þannig að þegar sprenging verður til þess að olía lekur út nær hún að safnast saman í polli. Það kviknar í mottum og olíu sem brenna í sundur eina gasleiðslu. Enn ein risavaxin sprenging skekur Piper Alpha.

Bob Ballantyne stekkur til að bjarga lífi sínu

45 mínútum eftir fyrstu sprenginguna sér rafvirkinn Bob Ballantyne félaga sína í eldhafinu. Skömmu síðar kastar hann sér út í sjóinn úr sex metra hæð til að sleppa út úr þessu helvíti.

Þrátt fyrir að eldar væru víða á Piper Alpha kviknaði hvergi á úðakerfi borpallsins.

 

Bollands reyndi að ræsa neyðardælurnar en sprengingin hafði eyðilagt rafstöðvarnar. Nú skipti öllu máli fyrir hann og starfsfélaga hans í stjórnstöðinni að komast burt svo skjótt sem auðið var.

 

Björgunarbáta var að finna á mörgum stöðum á borpallinum en þegar Bollands kom út á þilfarið mætti honum ekkert nema svartur reykjarmökkur. Þeir urðu því að reyna að ná yfir á kjallarapallinn rétt yfir sjávarborði.

 

Einn félaga hans fann reipi sem þeir gátu klifrað niður. Þrátt fyrir verki í þumalfingrunum tókst Bollands að komast á pallinn.

 

Mennirnir voru aðeins íklæddir björgunarvestum þegar þeir köstuðu sér út úr stjórnstöðinni og út í Norðursjó, enda voru fyrstu björgunarbátarnir þegar að nálgast staðinn.

MV Sandhaven var eitt skipanna sem komu mönnum á Piper Alpha til bjargar. Skipið var síðar selt og endurskírt Grampian Venture.

Klukkan 22.18 voru Bollands og félagar hans dregnir upp úr sjónum. Þeir voru meðal þeirra heppnu. Einungis nokkrum mínútum síðar þróuðust aðstæður á Piper Alpha frá því að vera varasamar yfir í sannkallaðar hamfarir.

 

Eldkúla umlykur borpallinn

Tæknimaðurinn Bollands hafði varla stigið fæti á þilfar björgunarbátsins þegar ógurlegur hávaði heyrðist. Hráolía hafði runnið niður frá framleiðsluþilfarinu og safnast saman í stóran brennandi poll á svæðinu undir.

 

Yfirleitt hefði olían ekki átt að geta safnast saman því þilfarið samanstóð af stálgrindum en kafarateymi Piper Alpha hafði fyrr um daginn lagt gúmmímottur á stórt svæði til að auðveldara væri að fóta sig þar.

 

Klukkan 22.20 höfðu logarnir frá olíupollinum étið sig í gegnum stóra gasleiðslu. Sprengingin sem fylgdi í kjölfarið var svo öflug að það myndaðist sveppalagað ský yfir borpallinum.

 

„Hitinn frá sprengingunni var ægilegur, jafnvel þó við værum í 100 metra fjarlægð. Borpallurinn líktist einhverri óhugnanlegri senu úr hamfarakvikmynd“, sagði Bollands síðar.

Tveir aðrir pallar voru tengdir Piper Alpha og héldu þeir báðir áfram að dæla gasi yfir til brennandi risans. 30 tonn af gasi á sekúndu streymdu til Piper Alpha – þar til síðasta stóra sprengingin sleit tenginguna við leiðslurnar.

Það mátti jafnvel sjá logana úr 30 km fjarlægð frá björgunarbátum sem nálguðust slysstaðinn. Allar neyðaráætlanir um að lenda á þyrlupalli borpallsins og sækja eftirlifendur voru nú útilokaðar.

 

Um 100 manns á Piper Alpha höfðu annars – samkvæmt neyðaráætlun – leitað inn í vistarverur sem voru í 45 metra hæð rétt undir þyrlupallinum.

 

Nú þurfti að taka afdrifaríkar ákvarðanir: Bíða á staðnum eða voga sér út í eldhafið.

 

„Við erum þar sem okkur ber að vera. Þau senda þyrlur til okkar,“ var álit flestra sem héldu í vonina um björgun úr lofti. En vélsmiðurinn Jim MacDonald hrópaði:

 

„Það er eitthvað verulega mikið að á þessum borpalli. Við verðum að yfirgefa hann strax“.

 

MacDonald hafði unnið á Piper Alpha í tólf ár og þekkti borpallinn eins og lófann á sér. Með peysu sína bundna fyrir munn og nef yfirgaf hann matsalinn og hljóp í gegnum reykjarmökkinn fyrir utan.

 

Mörgum sinnum varð hann að skríða yfir lík. Hann var við það að missa meðvitund þegar hann kom auga á dyrnar inn í þvottahúsið. MacDonald flýtti sér þangað inn.

Eldhafið bræddi burðarstoðir Piper Alpha þannig að borpallurinn hallaðist mikið og stjórnstöðin hrapaði niður í sjóinn.

Við útganginn í gagnstæðum enda á þvottahúsinu risu logarnir upp eins og veggur en MacDonald safnaði í sig krafti og stökk í gegnum eldinn. Svo klifraði hann upp á handrið og lét sig vaða fram af því. Eftir 21 metra fall skall hann í hafið.

 

„Niðri í sjónum var allt grafkyrrt og svo skaust ég allt í einu upp á yfirborðið á ný“, sagði MacDonald síðar um þessa ótrúlegu björgun. Skömmu síðar kom björgunarbátur og tók hann um borð.

 

Farartæki hverfur í eldhafi

Bob Ballantyne og tveir herbergisfélagar hans voru ekki í nokkrum vafa um að neðsta þilfar borpallsins myndi auka líkur þeirra á að lifa þessar hremmingar af. En hvarvetna risu eldtungur upp og vörnuðu þeim vegar.

 

Rafvirkinn var í fylgd með um tíu öðrum þegar hann stoppaði skyndilega. Hann horfði uggandi á málmstoðir sem svignuðu í hitanum og minntu hann á bráðnandi klukkur Salvador Dalis

 

„Nei! Þetta gengur ekki!“ hrópaði hann til félaga sinna sem skildu ekkert í því af hverju hann hikaði svona.

LESTU EINNIG

Einn síns liðs hélt Ballantyne á austurhluta borpallsins þar sem hann fann kaðal og hann slakaði sér niður á kjallaraþilfarið.

 

Leiðin fram hjá framleiðslupallinum var óbærilega heit vegna þess hve eldurinn logaði glatt og Ballantyne varpaði þá fyrst öndinni léttar þegar hann náði niður á neðsta þilfarið, einungis sex metrum fyrir ofan sjávarborðið.

 

Þaðan sá hann herbergisfélaga sína sem höfðu náð að vesturstöpli Piper Alpha en þar beið björgunarbátur átekta.

 

Farartækið var einn af þessum litlu hraðskreiðu bátum frá björgunarskipinu MV Sandhaven sem ætíð var til reiðu á Piper-svæðinu – ef slys bæri að höndum. Í þessum litla björgunarbáti var Ian Letham stýrimaður og hafði hann á síðasta hálftímanum bjargað mörgum upp úr sjónum.

 

Alls voru níu örmagna menn frá Piper Alpha og sex manna áhöfn í bátnum sem flæktist nú allt í einu í kaðli við vesturstöpul borpallsins.

 

Letham gaf bensínið í botn og togaði í kaðlana til að reyna að losna en á sömu sekúndu og það tókst skall ægileg þrýstibylgja frá enn einni sprengingunni á bátnum.

Olíuborun á hafi hefur áður kostað líf

Slysið á Piper Alpha var ekki fyrsta sinnar tegundar. Olíuævintýrið á hafi úti hafði þegar krafist fjölmargra fórnarlamba.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Letham vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið enda þeyttist hann út yfir borðstokkinn.

 

Loftþrýstingurinn frá sprengingunni þrýsti bátnum hans undir sjávarborð og þegar báturinn dúkkaði aftur upp höfðu ellefu um borð farist.

 

Letham synti þarna örvæntingarfullur um í sjónum. Hann var í flotbúningi en sprengingin var svo ofsaleg að bæði búningurinn og hjálmur hans tóku að bráðna.

 

Glóandi oddhvössum málmhlutum frá Piper Alpha rigndi yfir hann þannig að Letham þurfti að synda sem hraðast til að komast í skjól undir borpallinum.

 

Ballantyne fær félagsskap

Sprengingin sem þrýsti björgunarbátnum niður í sjóinn stafaði af enn einni rofinni gasleiðslu. Í þetta sinn var sprengingin svo kröftug að eldsúlan reis heila 90 metra yfir Piper Alpha og brak úr pallinum skall í hafinu í 800 metra fjarlægð.

„Skíthælar. Snúið við og bjargið mér!“
Bob Ballantyne, þegar skip siglir burt.

Á næsta þilfari hafði rafvirkinn Ballantyne séð vini sína Charlie og Ian hverfa í loganum.

 

„Guði sé lof að ég náði ekki til þeirra“, hugsaði hann með sér en fékk þó engan tíma til að syrgja vini sína.

 

Hans eigið líf hékk á bláþræði því hitinn var óbærilegur og það gat kviknað hvenær sem var í stórum olíupollum á yfirborði hafsins og grillað hann neðan frá.

 

Sér til skelfingar uppgötvaði hann auk þess að björgunarbátar sigldu nú burt frá Piper Alpha – til þess að sleppa við ógurlegan hitann.

 

„Skíthælar. Snúið við og bjargið mér!“ hrópaði Ballantyne en enginn heyrði nú til hans.

 

Skyndilega kom hann auga á mann sem synti örvæntingarfullur í átt til hans. Ballantyne klifraði niður stiga að sjávarborðinu og dró manninn upp – það reyndist vera Letham stýrimaður.

 

Það er nokkur hughreysting í því að vera tveir saman á slíkri neyðarstund – allavega mun hvorugur okkar deyja aleinn, hugsaði Ballantyne.

Þeir hentu sér út í ískaldan Norðursjóinn.

Eldhafið fyrir ofan þá var ægilega heitt þar sem þeir svömluðu í sjónum. Þeir neyddust jafnframt til að halda fast í brennandi heitt handrið því borpallurinn hristist skelfilega.

 

Þrátt fyrir að þeir væru nálægt hvor öðrum yfirgnæfði hávaðinn frá brunanum allt samtal. Þess í stað urðu þeir að nota handapat til að hafa samskipti.

 

Ef þeir væru áfram á Piper Alpha myndu þeir brátt deyja. Þeir gáfu hvor öðrum merki um að stökkva í hafið þar sem brennandi olía beið þeirra.

 

Þeir hentu sér út í ískaldan sjóinn en öldur skildu þá að og þeir fjarlægðust hvor annan. Letham svamlaði í átt að tunnu sem hann greip í, á meðan Ballantyne var allt í einu staddur í stórum olíupolli.

 

Á fáeinum sekúndum var hann útataður í olíudrullu og fáeinum metrum til hægri við hann brann svipaður olíupollur á yfirborðinu. Ballantyne óttaðist að það myndi kvikna í þeim polli sem hann var staddur í ef pollarnir rynnu saman.

Björgunarþyrlur frá Aberdeen sem var í 190 km fjarlægð komu Piper Alpha til bjargar. Vegna eldsins urðu þeir að lenda á öðrum pöllum og bíða eftir björgunarskipum til að koma þeim sem komust lífs af um borð.

Til þess að bægja hugmyndum um dauðann frá sér tók Ballantyne að spá í hvort uppáhalds lið hans Clyde FC hefði unnið UEFA bikarinn í fótbolta. Hann hugsaði einnig um væntanlegt sumarfrí sem hann ætlaði í með eiginkonu sinni.

 

Eins og sannur Skoti hafði Ballantyne áhyggjur af því að fyrirframgreiðsla hans til ferðaskrifstofunnar myndi ónýtast ef hann dræpist þarna.

 

Borpallurinn hrynur saman

Meðan Letham og Ballantyne börðust fyrir lífi sínu í öldurótinu sprakk enn ein stór gasleiðsla á Piper Alpha í loft upp. Sprengingin klukkan 23.20 varð til þess að stórir hlutar af borpallinum hölluðust ískyggilega.

 

80 menn uppi á pallinum þurftu nú að berjast við 45 gráðu halla yfir Norðursjó. Örvænting greip um sig meðan eitraður reykjarmökkur barst inn um allar rifur og göt.

 

Eldhafið nálgaðist stöðugt og nokkrir menn flýttu sér upp á efsta þilfar Piper Alpha. Þar var hitinn þegar svo mikill að skósólar mannanna bráðnuðu áður en þeir köstuðu sér yfir handriðið og hröpuðu 45 metra niður í Norðursjó.

Eftirlifendur frá Piper Alpha fengu fyrst meðhöndlun á nágrannaborpalli áður en þeim var flogið inn á sjúkrahús í Aberdeen.

Sumir lifðu af fallið en aðrir drukknuðu skömmu síðar vegna brunasára og brotinna beina. Einungis tókst að bjarga fáeinum mönnum upp í björgunarbáta.

 

En stökkið úr þessari miklu hæð hafði reynst áhættunnar virði. Skömmu síðar rann allur matsalur Piper Alpha og vistarverur yfir kantinn og hrapaði í hafið. Allir sem voru enn staddir þar á fórust.

 

Eftir stóðu aumkunnarverðar leifar af borpallinum, brennandi og skældar.

 

Ballantyne gefst upp

Letham stýrimaður og rafvirkinn Ballantyne börðust ennþá í öldurótinu þegar klukkan nálgaðist miðnætti. En þá hafði rekið langt hvorn frá öðrum.

 

„Ég hugsaði bara um sjálfan mig. Ég synti í átt að skipi sem ég hafði komið auga á. Maður gat séð leitarljós björgunarbátsins líða yfir hafið. Þá voru nokkrir enn á lífi í sjónum“, minntist Lettham sem náði loksins að draga sig upp í björgunarbát eftir reipi.

„Ég get ekki meir. Nú sleppi ég taki á kaðlinum. Ég kæri mig kollóttan“.
Bob Ballantyne. staddur í olíupolli.

Ballantyne var næstum ósýnilegur í sjónum. Hár hans, andlit og flotbúningur var atað svartri olíu og það voru einungis augun sem lýstu upp í myrkrinu.

 

Eftir langa mæðu tókst honum loks að synda út úr olíupollinum og lengra í burt frá borpallinum. Skömmu fyrir miðnætti sást til hans af björgunarskipinu Lowland Cavalier sem kastaði björgunarneti til hans.

 

En kraftar Ballantynes voru á þrotum. Þrisvar sinnum reyndi hann árangurslaust að toga sig upp úr sjónum en í hvert sinn missti hann takið og féll aftur í sjóinn.

 

„Ég get ekki meir. Nú sleppi ég taki á kaðlinum. Ég kæri mig kollóttan“, hugsaði Ballantyne.

 

Sem betur fer sáu björgunarmenn um borð að þeir urðu að grípa til annarra úrræða.

 

Þeir hrópuðu til Ballantyne að hann skyldi bara flækja sig inn í netið og þeir skyldu síðan toga hann upp. Skömmu síðar valt Ballantyne yfir borðstokkinn en hann fann undir eins að eitthvað bjátaði á.

 

„Ég hef enga tilfinningu frá mitti og niður. Það er eitthvað verulega mikið að!“ hrópaði hann örvæntingarfullur.

Bresk rannsóknarnefnd gagnrýndi harðlega aðstæður á Piper Alpha en engu að síður voru hvorki starfsmenn né eigendur dæmdir.

Enginn var dæmdur fyrir mistökin

Þrátt fyrir að 167 hafi dáið og búnaður fyrir tugi milljarða króna eyðilagst var enginn dæmdur fyrir andvaraleysi eftir Piper Alpha-hamfarirnar.

 

Skortur á sönnunargögnum leiddi til þess að eigandi Piper Alpha, bandaríska fyrirtækið Occidental Petroleum, var aldrei dæmt fyrir skort á öryggi um borð í borpallinum. Fyrirtækið slapp með að borga bætur sem námu hundruðum milljóna króna til ættingja fórnarlambanna.

 

Hins vegar leiddi harmleikurinn til þess að öryggi var aukið í gjörvöllum olíuiðnaðinum. Breska ríkisstjórnin kom á stofn rannsóknarnefnd undir forystu skoska dómarans William Cullen. Nefndin kom með 106 ábendingar um bætt öryggi sem allur olíuiðnaðurinn tók upp.

 

Breytingarnar innifólu m.a. val á öryggisvörðum meðal starfsmanna. Iðnaðinum var skylt að mennta þá og einnig var leyft að samstarfsmennirnir sjálfir gætu tekið frumkvæði að því að rannsaka mögulegan skort á öryggi.

Til allrar lukku gátu björgunarmenn róað Skotann með því að tilfinningaleysið stafaði ekki af slysi, heldur hafði flotbúningnum ekki verið lokað nægjanlega vel.

 

Ískaldur sjórinn hafði safnast saman í neðanverðum flotgallanum og gert hann tilfinningalausan. Þegar hann hitnaði á ný gat Skotinn gengið á ný.

 

Ballantyne, Bollands og Letham voru meðal þeirra einungis 61 sem lifðu af hamfarirnar á Piper Alpha. 165 félagar þeirra fórust á þessu örlagaríka sumarkvöldi árið 1988.

 

Langflestir létust úr reykeitrun og af brunasárum, aðrir drukknuðu. Tveir björgunarmenn um borð í björgunarbáti Lethams dóu einnig en Ballantyne var næsta morgun flogið inn til strandar.

 

Þyrlan hringaði nokkrum sinnum sviðnar leifarnar af Piper Alpha áður en hún tók stefnuna í átt að Aberdeen.

 

Ballantyne fannst óskiljanlegt hversu lítið var eftir af borpallinum og hve margir félagar hans hefðu glatað lífinu.

Lestu meira um Piper Alpha-harmleikinn

Stephen McGinty: Fire in the Night – The Piper Alpha Disaster, Pan, 2018

 

Ed Punchard: Piper Alpha: A Survivor’s Story, Virgin Books, 1989.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing

© PA Images/Imageselect,© Berry Bingel/Shutterstock/Ritzau Scanpix,© Shutterstock,© The National Archives Images,© Public domain,PA Images/Imageselect & Shutterstock,© Alan Jamieson,© Press Association,© Anthony Noble,© PA Images/Imageselect,

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Vinsælast

1

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

2

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

3

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

4

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

5

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

6

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

Lifandi Saga

Bretar knúðu fram frjálsa verslun með fallbyssum

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Skógarhöggsmenn hafa yfirtekið svæði ættflokksins sem skapar ýmsar hættur fyrir hann.

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is