Án þess að þú gerir þér grein fyrir því framkvæmir auga þitt röð af hröðum og mjög nákvæmum hreyfingum á millisekúndum – til dæmis þegar þú ert að lesa eða í svokölluðum REM svefni.
Hreyfingarnar eru kallaðar saccades og eru röð snöggra rykkja sem verða þegar færa þarf augun frá einum stað til annars á sekúndubroti.
Þessar örhreyfingar eru krefjandi fyrir heilann og vísindamenn telja að litlar breytingar á hraða og nákvæmni geti verið merki um byrjandi Alzheimer.
Nú hefur hópur vísindamanna frá École de Technologie Supérieure í Kanada og Dartmouth College í Bandaríkjunum fundið aðferð til að nema þessar örsmáu breytingar og þar með kannski líka fyrstu merki hins alvarlega sjúkdóms.
Eyrnahljóðnemar nema hreyfingar augans
Í nýrri tilraun munu vísindamennirnir nota ofurnæma hljóðnema sem eru settir í eyrað til að hlusta á augnhreyfingar.
Þessir sérhæfðu hljóðnemar geta skráð lífeðlisfræðileg merki frá líkamanum.
Augnhreyfingar, þar á meðal saccades, framkalla örlítinn titring í hljóðhimnunni. Fæstir heyra þær vegna þess að líkaminn og heilinn geta ekki skilið þær frá öðrum.
En það er til fólk með sjaldgæfa röskun sem kallast semicircular dehiscence syndrome (SCDS) sem getur í raun og veru heyrt hreyfingu augasteinanna.
Í tilrauninni munu rannsakendur setja ofurnæma hljóðnemana í eyru 35 einstaklinga með Alzheimer eða væga vitsmunalega skerðingu og í samanburðarhóp 35 heilbrigðra einstaklinga.
Þessir tveir ólíku hópar munu gera það mögulegt að bera saman niðurstöðurnar og komast þannig að því hvort hægt sé að nota skráðan mismun til að greina Alzheimer fyrr og fylgjast með því hvernig röskunin þróast.
Ónákvæmar rannsóknaraðferðir hafa villt um fyrir rannsakendum Alzheimers í 15 ár. Nú söðla þeir um til að finna raunverulega orsök sjúkdómsins. Lestu meira í greininni hér:
Falsaðar og villandi rannsóknaniðurstöður hafa seinkað þróun lyfja gegn Alzheimer um 15 ár. Fölsku niðurstöðurnar bentu á eitt stakt prótín sem sökudólginn. Nú kemur í ljós að þetta prótín er miklu frekar til gagns!
„Núverandi rannsóknir beinast að langtímaeftirliti með Alzheimer en markmið okkar er að geta tekist á við aðra sjúkdóma og geta greint á milli þeirra út frá einkennum sem við getum greint með merkjunum í eyranu,“ útskýrir einn af rannsakendunum, rafeindatæknifræðingurinn Arian Shamei frá École de Technologie Supérieure í fréttatilkynningu.
Hingað til hefur rannsóknarhópurinn aðeins kynnt frumvinnu sína á ráðstefnu og rannsóknin hefur því ekki farið í gegnum ritrýni sem er hluti af gæðatryggingu vísindarita.