Kínverski keisarinn Qin Shi Huang (259- 210 f.Kr.) hefur hvílt í ríflega 2.000 ár í gröf sinni í grennd við borgina Xi’an en gröfina er að finna um 1.100 km suðvestur af Peking.
Ef marka má sagnfræðinginn Sima Qian (145- 86 f.Kr.) er gröfin hluti af neðanjarðargrafhýsi sem hefur að geyma ógrynni gersema. Loftin í grafhýsinu eru sögð hafa verið skreytt með eðalsteinum en á gólfunum er að finna manngerðar ár úr óþrjótandi kvikasilfri.
Þrátt fyrir að nú eigi að vera unnt að grafa upp dýrgripina og öðlast þannig nýja vitneskju, eru fornleifafræðingarnir samt hikandi. Sagnfræðingurinn Sima Qian lýsir nefnilega lífshættulegum gildrum sem beinast að hverjum þeim sem raskar grafarhelginni.
Að sjálfsögðu er óvíst hvort sagnfræðingurinn hefur haft lög að mæla því enginn hefur lagt í að opna keisaragröf þessa frá því að hún var innsigluð árið 210 f.Kr.
Enginn þorir að opna gröf keisarans
Qin Shi Huang hefur verið kallaður fyrsti keisari Kína en hann sameinaði gjörvallt ríkið fyrstur allra. Þjóðhöfðinginn lét útbúa gríðarstórt grafhýsi fyrir jarðneskar leifar sínar.
„Reistar voru hallir og turnar fyrir 100 embættismenn og gröfin var fyllt af sjaldséðum gersemum og stórkostlegum dýrgripum. Kvikasilfur var notað til að líkja eftir Yangtze-fljótinu, svo og Gulafljóti, segir Sima Qian í sagnfræðiriti sínu.
„Iðnaðarmönnum var fyrirskipað að útbúa lásboga og örvar sem skyldu notuð til að skjóta á hverja þá sem kæmu inn í gröfina“, ritaði Sima Qian, öðrum til aðvörunar.

Hinir þekktu leirstyttustríðsmenn mynda brot af grafhýsi keisarans. Grafhýsið sjálft hefur ekki enn verið grafið upp.
Heill her leirstyttuhermanna var grafinn í grennd við gröf keisarans en bændur á svæðinu fundu brot úr leirstyttunum árið 1974 sem leiddi til þess að gríðarstórt grafhýsi Qin Shi Huangs fannst.
Mælingar í jörðu hafa reyndar leitt í ljós að svæðið umhverfis gröfina er miklu meira mengað af kvikasilfri en áður áætlað.
Qin Shi Huangdi var mjög farsæll leiðtogi. Aðeins 13 ára gamall varð hann konungur í ríkinu Qin og eftir fjölda landvinninga varð hann keisari yfir nánast öllu því svæði sem í dag er Kína.
Ef kvikasilfur er í raun að finna þarna er hugsanlegt að lýsing Sima Qians á vopnunum eigi við rök að styðjast. Og hafi vopnin verið unnin úr málmi eru þau sennilega enn nothæf. Víðtækur uppgröftur gæti leyst úr læðingi jarðskriðu sem stofnað gæti fornleifafræðingunum, svo og gersemunum, í hættu. Qin Shi Huang fær því að hvíla í friði enn um sinn.
Qin Shi Huang lagði ríka áherslu á að enginn mætti raska grafarró hans. Ráðstafanir hans halda enn grafarræningjum og fornleifafræðingum frá gröfinni.