Hópur bandarískra háskólanema hefur ekki bara leyst skólaverkefni.
Þeir leystu það með því að smíða geimeldflaug svo vel að þeir eiga nú nokkur heimsmet.
Í lok október skutu þeir Aftershock II eldflauginni út í geim frá stað í Black Rock eyðimörkinni í Nevada fylki í Bandaríkjunum.
Eldflaugin var afrakstur teymis nemenda sem vann saman að því að smíða heimatilbúna eldflaug sem væri nægjanlega aflmikil til að ferðast út úr lofthjúpi jarðar.
Aftershock II kláraði sig af því á aðeins 85 sekúndum.
Öðrum 92 sekúndum síðar náði eldflaugin hæsta punkti, þar sem nefið skildi sig frá restinni af flauginni og fallhlíf tryggði örugga heimkomu til jarðar.
Hápunkturinn var í rúmlega 143 km hæð yfir sjávarmáli. Það er mesta hæð sem eldflaug sem ekki er byggð og rekin af stjórnvöldum eða viðskiptafyrirtæki hefur nokkurn tíma náð, að því er segir í fréttatilkynningu frá háskólanum í Suður-Kaliforníu.

Nýju heimsmethafarnir eru teymi grunnnema við háskólannn í Suður-Kaliforníu sem smíðaði eldflaugina sem skólaverkefni.
Hraðar og hærra en nokkru sinni fyrr
Í jómfrúarferð sinni náði Aftershock II hámarkshraða upp á um 5.800 km/klst. sem er örlítið meiri hraði en fyrri heimsmethafi náði – heimasmíðuð eldflaug sem heitir GoFast sem var skotið á loft árið 2004 af hópi sem kallast Civilian Space Exploration Team.
Þetta 20 ára gamla heimsmet hefur nú verið slegið af Aftershock II, ásamt metum fyrir hámarkshæð og hversu hratt farið komst þangað.
Fjögurra metra há eldflaugin sem vó 150 kg, rauf hljóðmúrinn aðeins tveimur sekúndum eftir að henni var skotið á loft og náði hámarkshraða eftir 19 sekúndur.

Heimagerð eldflaug hefur slegið að minnsta kosti þrjú met í geimflugi áhugamanna.
Einn hinna ungu heimsmethafa, vélaverkfræðineminn Ryan Kraemer, segir í fréttatilkynningunni að mikið af velgengni Aftershock II megi rekja til endurbættra efna sem nemendur hafa notað.
Þeir höfðu meðal annars málað eldflaugina með hitaþolinni málningu og notað títan í ugga hennar, þar sem fyrri gerðir notuðu venjuleg koltrefjaefni.
Endurbæturnar „virkuðu fullkomlega,“ að sögn Kraemer og „gerði flauginni kleift að snúa aftur að mestu óskemmdri“.