Á jóladag 1913 komu bandarískir námuverkamenn og fjölskyldur þeirra saman í bænum Calumet í Michigan til að fagna hátíðinni. 400 karlar, konur og börn héldu veislu á fyrstu hæð samkomuhúss bæjarins þegar einhver hrópaði skyndilega: „Eldur!“
Nokkrir veislugestir fóru að öskra og á nokkrum sekúndum braust út skelfing. Allir hlupu í átt að eina útgangi veislusalarins – bröttum stiga – og nokkrum börnum og fullorðnum var ýtt um koll. Til að reyna að flýja sem hraðast tróðu þeir sem stóðu aftast sér yfir þá sem lágu í gólfinu.
Framan við stigann krömdust aðrir af þrýstingi aftan frá á meðan veislugestir á leið niður stigann skullu eða var ýtt þannig að þeir féllu.
Í raun var enginn eldur í samkomusalnum. Upphrópunin reyndist vera gabb. En þátttakendur í jólaboðinu komust of seint að því. Næstum fimmti hver þeirra dó – 73 fórust, þar af 59 börn. Og harmleikurinn í Calumet var hvorki í fyrsta né síðasta skiptið sem ofsahræðsla hefur kostað mannslíf.
Sagan hefur sýnt aftur og aftur hversu hættuleg ein sterkasta eðlishvöt mannsins getur verið. Í dag hvetja sérfræðingar til varkárni þegar fólk er að fara á tónleika, fótboltaleiki eða í ferðalag.
Jafnvel goðsagnapersónur panikeruðu
Þegar í fyrsta stóra bókmenntaverki sögunnar, súmersku Gilgamesh-frásögninni, er konungurinn gripinn skelfingu. Meira en 4.100 ára gamalt ljóð segir frá Gilgamesh konungi sem í ótta sínum við dauðann „reikar um í eyðimörkinni“.
Kóngurinn getur ekki hugsað af skynsemi því hann er haldinn ofsahræðslu. Slík líðan var ekkert nýtt í heiminum, hana má rekja allt aftur til steinaldarmannsins.
Þegar elstu forfeður okkar stóðu augliti til auglitis við hættu tók eðlishvöt völdin – til að auka líkurnar á að lifa af. Eðlishvötin slökkti á skynsemisheilanum, svo líkaminn gæti einbeitt sér að því að komast í burtu frá til dæmis ljóni. Blóðið rann frá heilanum og út í fætur og handleggi svo að viðkomandi gæti hlaupið hraðar.
Lófarnir urðu rakir af svita þannig að veiðimaðurinn gat betur gripið í trjágrein og sveiflað sér í skjól uppi í tré. Enn þann dag í dag bregðast menn við á sama hátt og blóð okkar þykknar meira að segja til að stöðva blæðingar fljótt.
Þó að sjálfvirk viðbrögð við ofsahræðslu hafi verið áhrifarík aðferð til að lifa af í gegnum tíðina, hefur eðlishvötin reynst óviðeigandi á síðustu öldum, sérstaklega vegna þess að fólk er í auknum mæli í stórum hópum.
Og þegar margir eru saman komnir á einum stað er hætta á að skelfingin breiðist út – eins og gerðist í samkomuhúsinu í Calumet árið 1913.
Skelfing virkjar forna eðlishvöt
Þegar ofsahræðsla grípur okkur föllum við aftur inn í viðbragðsmynstur frá steinöld. Lífshvötin verður svo allsráðandi að hvers kyns yfirsýn og tillitssemi við annað fólk hverfur.
Framheili aftengdur
Þegar bráður ótti kemur fram er skynsami hluti heilans, ennisblaðið, tekinn úr sambandi og hegðun okkar stjórnast eingöngu af lönguninni til að komast burt. Í stað hans tekur möndluheilinn, amygdala, við.
Eðlishvöt tekur völdin
Mandlan (amygdala) höndlar ótta og varnarviðbrögð. Hún er tengd heiladingli og nýrnahettum sem bæði seyta hormónum og geta þannig haft áhrif á ýmsa sjálfvirka líkamsstarfsemi (t.d. öndun og blóðrás).
Adrenalín flæðir
Amygdala veldur því að nýrnahetturnar seyta miklu magni af adrenalíni sem lætur hjartað slá hraðar og veldur því að blóðflæði út í handleggs- og fótavöðva eykst á meðan blóðflæði til heilans minnkar.
Yfirsýn hverfur
Hættuástandið þýðir að sjónsviðið dregst saman í rörsýn og heyrnin verður veikari vegna þess að líkaminn einbeitir sér að lífsnauðsynlegum aðgerðum.
Tillitssemi við aðra hverfur
Amygdala virkjar einnig svitakirtla í lófum, þannig að þeir ná betra gripi. Á meðan missir hinn skelfdi einstaklingur alla samkennd – það er aðeins hann eða hún sem skiptir máli. Öllum öðrum er ýtt til hliðar
Skelfing virkjar forna eðlishvöt
Þegar ofsahræðsla grípur okkur föllum við aftur inn í viðbragðsmynstur frá steinöld. Lífshvötin verður svo allsráðandi að hvers kyns yfirsýn og tillitssemi við annað fólk hverfur.
Framheili aftengdur
Þegar bráður ótti kemur fram er skynsami hluti heilans, ennisblaðið, tekinn úr sambandi og hegðun okkar stjórnast eingöngu af lönguninni til að komast burt. Í stað hans tekur möndluheilinn, amygdala, við.
Eðlishvöt tekur völdin
Mandlan (amygdala) höndlar ótta og varnarviðbrögð. Hún er tengd heiladingli og nýrnahettum sem bæði seyta hormónum og geta þannig haft áhrif á ýmsa sjálfvirka líkamsstarfsemi (t.d. öndun og blóðrás).
Adrenalín flæðir
Amygdala veldur því að nýrnahetturnar seyta miklu magni af adrenalíni sem lætur hjartað slá hraðar og veldur því að blóðflæði út í handleggs- og fótavöðva eykst á meðan blóðflæði til heilans minnkar.
Yfirsýn hverfur
Hættuástandið þýðir að sjónsviðið dregst saman í rörsýn og heyrnin verður veikari vegna þess að líkaminn einbeitir sér að lífsnauðsynlegum aðgerðum.
Tillitssemi við aðra hverfur
Amygdala virkjar einnig svitakirtla í lófum, þannig að þeir ná betra gripi. Á meðan missir hinn skelfdi einstaklingur alla samkennd – það er aðeins hann eða hún sem skiptir máli. Öllum öðrum er ýtt til hliðar.
Rannsóknir á heilanum hafa sýnt að líðan annarra í kring um okkur hefur bein áhrif á okkar líðan, þannig að ef við sjáum ótta og ofsahræðslu í öðru andliti þá virkjast sá hluti heilans sem vekur ótta.
„En það á reyndar ekki bara við um andlitið. Það getur verið allt frá handleggjum til fóta. Sérhver lítil hreyfing sem einhver gerir getur valdið því að ótti eða skelfing breiðist út,“ segir Michael Schreckenberg, prófessor við háskólann í Duisburg-Essen.
Í mörg ár hefur þýski prófessorinn rannsakað viðbragðsmynstur í miklum mannfjölda. Hann telur að 10-15 prósent af fólki skelfist auðveldlega þegar það skynjar aðsteðjandi hættu. 70-80 prósent verða fyrir miklum áhrifum og fyllast skelfingu en hinir geta haldið ró sinni nánast sama hvað á gengur.
Því miður sýnir sagan að það þarf ekki nema örfáa örvæntingarfulla einstaklinga til að stór hópur af hrifnæmu fólki fylgi í kjölfarið og þá getur jafnvel léttvægt atvik þróast út í hörmungaratburð. Eitt versta dæmið kemur frá seinni heimsstyrjöldinni.
Panik í loftvarnabyrgi drepur
Í heimsstyrjöldinni urðu íbúar London góðir í að halda ró sinni þrátt fyrir tíðar loftárásir Þjóðverja. Þegar viðvörunarsírenurnar hljómuðu fóru flestir rólegir niður í loftvarnabyrgin. Þannig hófst líka kvöldið 3. mars 1943 þegar sírenurnar hljómuðu yfir East End í London.
En þegar loftvarnarflugskeyti var skyndilega skotið fyrir mistök braust út skelfing.
Óvænt hljóðið frá eldflauginni olli því að hundruð manns tróðust áfram til að komast sem skjótast í öruggt skjól niður í Bethnal Green neðanjarðarlestarstöðinni. Móðir með ungabarn var næstum því komin niður stigann þegar hún hrasaði. Að ofan tróðust ofsahræddir íbúar áfram og nú féllu fleiri og fleiri ofan á ungu móðurina.
„Á einni mínútu voru u.þ.b. 300 manns troðnir niður, liggjandi hver ofan á öðrum, fastir og bjargarlausir,“ segir í fréttatilkynningu frá breska varnarmálaráðuneytinu. 173 ýmist köfnuðu eða krömdust til bana.

Í bröttum stiganum að Bethnal Green neðanjarðarlestarstöðinni dóu 173 Bretar árið 1943.
Ofsahræðsla olli einnig harmleik í Eþíópíu. Þann 5. júní 2000 söfnuðust rúmlega 2.000 börn saman í hringleikahúsi í höfuðborginni Addis Ababa til að minnast sprengjuárásar á skóla tveimur árum áður. Allt í einu féllu stór högl af himni. Mörg barnanna voru gripin ofsahræðslu og hlupu af stað til að reyna að komast í burtu.
„Þegar börnin hlupu í skjól, tróðu þau hvert á öðru,“ sagði talskona ríkisstjórnarinnar eftir slysið.
Enginn dó í haglélinu þennan dag. Á hinn bóginn kostaði flótti þeirra ofsahræddu 14 börn lífið en 53 slösuðust.
Flóttinn er hættulegastur
Harmleikirnir í Calumet, London og Addis Ababa sýna hættuna sem stafar af því að hinir ofsahræddu verða ófærir um að hugsa skynsamlega – þeir einblína á eina leið út. Þessi ofuráhersla á að komast burt yfirskyggir allt tillit til annarra.
„Fólk bregst ekki við sem heild heldur hver fyrir sig – allir reyna að bjarga eigin skinni,“ útskýrðu félagsfræðingarnir Robert E. Park og Ernest W. Burgess strax árið 1921 þegar fyrirbærið ofsahræðsla (panik) var fyrst skilgreint.
Þetta hegðunarmynstur þekkja margir sem hafa lifað svona hörmungaratburð af. Þegar farþegar um borð í ferjunni Estonia börðust fyrir lífi sínu aðfaranótt 28. september 1994 klifruðu þeir hver yfir annan og skildu hina slösuðu eftir.
Þetta er það sem danskur eftirlifandi, Morten Boje Hviid skrifaði í bók sinni um slysið, „Jeg ville overleve“ (Ég vildi komast af) (1998):
„Ég valdi að horfa bara fram á við. Ég var með rörsýn og leit ekki til hliðar. Því þar gæti ég séð það sem ég vildi ekki sjá. Fólk sem þurfti á hjálp minni að halda. Börn til dæmis“.
Alþjóðleg rannsókn frá 2016 sýndi að streita eykur tilhneigingu fólks til að troðast áfram og ýta við öðru fólki, sérstaklega þegar flöskuhálsar verða á flóttaleiðinni. Jafnframt sýnir rannsóknin að einstaklingar eru líklegri til að fylgja á hæla hóps í streituvaldandi aðstæðum. Þegar margir fara í eina átt fylgja aðrir sjálfkrafa á eftir – eðlishvöt sem sýndi sig um borð í Estonia þegar meira og meira vatn flæddi inn í ferjuna.
„Ég man að við leituðum öll upp á við eins og hjarðdýr sem hreyfðust í sömu átt. Kannski fór ég bara með straumnum þegar hlutir og fólk flaug í gegnum loftið, þegar skipið rykktist til og hallaði æ meira,“ skrifar Morten Boje Hviid.

Hamfaramyndir eins og „A Night to Remember“ um Titanic frá 1958 sýna verstu martröð mannsins: Ofsahræðslu og flótta
Í neyðartilvikum eru læmingjaáhrifin hættuleg vegna þess að samþjappaður fjöldi fólks skelfist auðveldlega og fyllist innilokunarkennd sem ýtir undir ofsahræðslu. Auk þess er það oft hið þrönga rými sem kostar mannslíf, segir Michael Schreckenberg.
„Það er undir miklum þrýstingi – það er að segja þegar fólk er að ýta við hvert öðru vegna þess að það er þjappað saman – sem ástandið getur orðið banvænt. Fólk verður hrætt og treðst áfram í von um að komast hraðar í burtu. Þrýstingurinn frá 50 manns er eitt tonn – þrýstingur sem líkaminn þolir ekki“, útskýrir þýski prófessorinn.
Það var einmitt þrýstingurinn frá skelfingu lostnum mannfjölda sem átti sök á harmleik í E2 næturklúbbnum í Chicago á febrúarkvöldi árið 2003. Skvetta úr piparúða skapaði ringulreið á dansgólfinu og þegar tillitslaus diskógestur hrópaði „Bin Laden!“ hófst troðningur í átt að útgangi næturklúbbsins. Ungt fólk féll og var troðið í gólfið.
„Ég fann fólk á gólfinu grípa um fæturna á mér og hrópa: „Gerðu það, hjálpaðu mér upp!“ En ég gat ekki hreyft mig,“ sagði diskógesturinn Amishoov Blackwell eftir atburðinn. 21 var troðinn til bana.
Vandamálið fer vaxandi
Fjöldi hörmungaratburða þar sem fólk deyr á flótta hefur aukist jafnt og þétt undanfarin 50 ár. Í seinni tíð safnast mikill fjöldi fólks oftar saman á tiltölulega litlu svæði en fyrir 100 árum. Þess vegna er líka nauðsynlegt að vera meðvitaður um hvernig koma má í veg fyrir svona hamfarir, bendir þýski sérfræðingurinn á.
Að sögn Schreckenberg væri best ef tónleikasalir, knattspyrnuvellir og farþegaskip væru hönnuð þannig að þau komi í veg fyrir að mikill fjöldi fólks hlaupi í sömu átt og klessist saman.
Öryggisráðstafanirnar kosta hins vegar aukalega og ekki er alltaf hægt að útbúa gamlar byggingar sem verið er að endurbæta með ákjósanlegum fjölda útganga og stórum opnum svæðum sem annars myndi bæta úr vandanum. Þess vegna mælir Schreckenberg líka með ódýru bragði sem getur bjargað mannslífum:
Ekki læsa neyðarútgöngum daglega – gefið almenningi, gestum og starfsmönnum tækifæri til að kynnast þeim með því að nota þá. Ef einstaklingur í hættuástandi þarf að leita að flóttaleiðum og neyðarútgöngum eykst hættan á að ofsahræðsla grípi um sig.
Ef neyðarútgangarnir eru líka dimmir og óhreinir snúa margir við vegna þess að viðhaldsskortur gefur til kynna hættu. Ómeðvitað flýja hinir örvæntingarfullu í átt að ljósinu.

Að sjá einhvern einkennisklæddan hefur róandi áhrif á flesta
Einkennisbúningar skapa öryggi
Hægt er að koma í veg fyrir panik. Bara sú staðreynd að heilinn hefur íhugað fyrirfram að hætta gæti skapast er mikilvægt skref til að forðast panik. En það eru þrjár einfaldar brellur í viðbót sem þú getur notað:
Finndu neyðarútganginn
Tveir af hverjum þremur munu leita í átt að innganginum sem þeir fóru inn um – venjulega aðalinnganginum. Ef skelfing brýst út er hættan á troðningi því mest þar. Finndu næsta neyðarútgang þegar þú kemur til dæmis í tónleikasal. Að vita hvar hann er eykur líkurnar á að halda ró sinni.
Leitaðu að einkennisbúningi
Rannsóknir sýna að einkennisbúningar skapa öryggistilfinningu. Ef þú ert nálægt einkennisklæddum starfsmanni minnkar hættan á að ofsahræðsla brjótist út. Ef ekki er einkennisklæddur einstaklingur á staðnum getur hjálpað að finna starfsmann sem þekkir húsið og getur því hjálpað til við að skapa ró.
Öndun er róandi
Í neyðartilvikum fer líkaminn í viðbragðsstöðu. Öndun verður hröð og grunn og hjartsláttur eykst. Andaðu djúpt inn um nefið svo maginn stækkar – þetta slakar á líkamanum.
Upplýsingar um hátalarakerfi geta einnig komið í veg fyrir skelfingu, leggur Schreckenberg áherslu á sem telur einnig að hvert og eitt okkar geti gert mikið til að vernda okkur:
„Forðastu bara að vera í miklum mannfjölda. Ef þú ert þar hefurðu þegar gert mistök. Á svæðum þar sem margt fólk treðst saman, deyr fólk. Á svæðum með færra fólki gerist sjaldan neitt“.