Áhrifarík krabbameinsmeðferð losar árlega þúsundir krabbasjúklinga við sjúkdóminn en stundum snýr hann þó aftur.
Ein ástæðan er sú að eftir aðgerð verða alltaf einhverjar krabbafrumur eftir og þær geta valdið því að sjúkdómurinn blossi upp aftur.
Nú hafa vísindamenn hjá Kaliforníuháskóla í Los Angeles í BNA fundið nýja aðferð til að hreinsa slíkar frumur úr líkamanum.
Í rannsóknastofu skýtur plasmabyssan kaldri „plasmaeldingu“.
Aðferðin nýtir svokallaðan kaldan plasma, sem sagt jónað gas við stofuhita. Með köldum plasma má sótthreinsa yfirborð og hraða sáragræðslu og nú reynist plasminn líka gagnast í krabbameinsmeðferð.
Hingað til hefur þurft stór og flókin tæki til að framleiða kaldan plasma úr gasi á borð við argon og helíum undir þrýstingi.
Nú hafa vísindamennirnir þróað litla, handbæra plasmabyssu sem getur jónað loftið í kring og skotið frá sér plasma og þarf afar litla orku.
LESTU EINNIG
Með nýju plasmabyssunni er hægt að drepa litla krabbahnúta allt í kringum aðgerðarsvæðið. Auk þess að vinna á krabbanum örvar plasminn ónæmiskerfið og hindrar þannig að sjúkdómurinn taki sig upp.
Byssan hefur m.a. verið reynd á músum sem úr voru skorin æxli og svæðið síðan meðhöndluð með plasma. Kaldur plasmi lengdi líf músanna til muna og ekki greindust neinar aukaverkanir.