Eftir áratuga rannsóknir á reikistjörnum sólkerfisins hafa stjörnufræðingar beint augum sínum að tunglunum sem gætu verið mun áhugaverðari. Og nokkrar góðar ástæður eru fyrir því.
Í fyrsta lagi er líklegast að þar finnist umhverfi sem getur hýst líf. Nokkur tungl í ytra sólkerfinu geyma höf af fljótandi vatni undir ísilögðu yfirborðinu, og sum þeirra virðast einnig geyma allar helstu byggingareiningar sem lífið þarfnast.
Í öðru lagi eru tunglin sögulegt skjalasafn sólkerfisins. Á plánetunum hafa t.a.m. árekstragígar verið þurrkaðir út af jarðfræðilegum öflum, en það hefur ekki gerst í sama mæli á tunglunum. Þar geta stjörnufræðingar því kannað betur hvernig aðstæður voru í frumbernsku sólkerfisins.
Einnig gætu sum tunglanna hafa myndast langt frá plánetum sínum eins og til dæmis tunglin í kringum Mars, Úranus og Neptúnus. Þau gætu hugsanlega hafa verið smástirni eða hlutir frá hinu fjarlæga Kuiperbelti sem reikistjörnurnar hafa fangað og geta því sýnt fram á dreifingu efna annars staðar í sólkerfinu.
Á næstu árum munu nokkrir geimkannanir rannsaka leyndarmál tunglanna. Sum verkefnanna eru þegar hafin en önnur eru á teikniborðinu. Fáðu yfirlit yfir tunglferðirnar hér – frá innsta til ysta hluta sólkerfisins.
Dularfull tungl Mars

Geimkanninn MMX lendir í stutta stund á Mars tunglinu Phobos og tekur sýni sem síðan eru flutt aftur til jarðar.
Japanskur leiðangur sækir sýni úr tungli Mars
Stjarnfræðingar hafa um áratuga skeið rætt um uppruna tunglanna Fóbos og Deimos. Annað hvort hafa þeir orðið til úr efni úr Mars sem þeyttist burt við ofsafenginn árekstur við loftstein eða þá að þeir eru sjálfir loftsteinar sem rauða plánetan hefur fangað í þyngdarsvið sitt.
Spurningunni verður svarað þegar vísindamenn greina þau sýni sem japanski geimkanninn MMX sækir til Fóbosar.
Heiti leiðangurs: Martian Moons eXploration, JAXA.
Áfangastaður: Fóbos og Deimos.
Staða: Undirbúningur gengur samkvæmt áætlun. Geimskot árið 2026 og lending ári síðar.
Vatnaheimar Júpíters

Þegar JUICE kanninn fer á sporbraut um Ganymedes mun það vera í fyrsta skipti sem geimfar fer á braut um framandi tungl.
Tveir geimkannar leita í leyndum höfum
Þrjú stærstu tungl Júpíters geta öll verið með haf af fljótandi vatni undir íshellum sínum. JUICE mun rannsaka höfin á öllum þremur tunglunum en einbeita sér að því stærsta, Ganýmedes. Europa Clipper einbeitir sér að Evrópu.
Báðir geimkannarnir eru þaktir mælitækjum sem geta ráðið í hvort grundvallarforsendur fyrir líf sé að finna, t.d. í formi steinefna og lífrænna efnasameinda.
Heiti leiðangra: JUICE, ESA og Europa Clipper, NASA.
Áfangastaður: Tungl Júpíters; Evrópa, Kallistó og Ganýmedes.
Staða: JUICE kemur 2031, Evrópa er lögð af stað.
Förunautur Satúrnusar

Dróni á að fljúga um í metanheimi
Rétt eins og jörðin hefur Títan landsvæði, úthöf, vötn og fljót ásamt veðrakerfi, skýjum og úrkomu. Engu að síður er allt öðruvísi á þessu ískalda tungli Satúrnusar. Hér er það nefnilega ekki vatn heldur etan eða metan sem flýtur þannig að hýsi tunglið líf er það í grunninn allt öðruvísi en það sem við þekkjum.
Þetta mun Dragonfly-kanninn rannsaka með því að fljúga um og greina sýni á mismunandi stöðum á Títan.
Heiti leiðangurs: Dragonfly, NASA.
Áfangastaður: Tungl Satúrnusar, Títan.
Staða: Undirbúningur gengur samkvæmt áætlun. Geimskot verður árið 2028 og lending árið 2034.
Ístungl Úranusar

Eitt af tunglum Úranusar, Míranda, er þekkt fyrir íslandslag með mjög miklum hæðarmun.
Leiðangur aflar þekkingar um önnur sólkerfi
Vísindamenn vita einungis lítið eitt um tungl Úranusar. Eini geimkanninn sem hefur flogið þar hjá var Voyager 2 árið 1986.
Ný ferð til Úranusar verður sérlega áhugaverð eftir að stjarnfræðingar hafa ráðið hvort þessi gerð af ísrisum sé algeng meðal fjarpláneta. Hafi tungl Úranusar góðar forsendur fyrir lífi gæti hið sama átt við önnur tungl í brautum um sambærilegar plánetur.
Heiti leiðangurs: Uranus Orbiter and Probe, NASA.
Áfangastaður: Stærstu tungl Úranusar; þ.á m. Míranda og Aríel.
Staða: Leiðangurinn er á teikniborðinu. Geimskot fyrst árið 2031.
Þjófstolið tungl Neptúnusar
Dökkir goshverir á suðurpól Tritons bera vitni um að ískalt tunglið hefur nægan innri hita til að halda vatni fljótandi.
Geimkanni leitar uppi goshveri á fangaðri dvergplánetu
Triton er líklega dvergpláneta frá Kuiper-beltinu sem Neptúnus hefur fangað með þyngdarafli sínu. Það gæti einnig útskýrt hvers vegna máninn er á braut öfuga leið um Neptúnus.
Dökkir goshverir skjótast út frá yfirborðinu þannig að leiðangur til Tríton mun m.a. rannsaka hvort að undir -235 gráðu köldu yfirborðinu af frosnu köfnunarefni leynist fljótandi haf úr vatni.
Heiti leiðangurs: Triton Ocean World Surveyor, NASA.
Áfangastaður: Neptúnusartunglið Tríton.
Staða: Leiðangurinn er á upphafsreit. Geimskot mögulega 2031 og koma 2047.
Ógrynni af vatni, næg orka og réttu frumefnin – tungl Júpíters, Evrópa, hefur allar forsendur til að geta hýst líf. Þess vegna heldur geimkanninn Europa Clipper af stað til að skýra eina helstu ráðgátu vísindanna: Erum við alein í alheimi?