Lifandi Saga

Fræðimenn hafa fundið óhugnanleg svör: Ráðgátan um bein hinna föllnu hermanna Waterloos

Beinin af allt að 20.000 föllnum hermönnum í bardaganum við Waterloo hurfu sporlaust. Almælt var að þau hefðu endað sem áburður á ökrum Breta. Nú hafa sagnfræðingar fundið sannanir fyrir því að sannleikurinn er öllu óhugnanlegri.

BIRT: 11/08/2024

Hvernig geta líkamsleifar allt að 20.000 fallinna hermanna horfið sporlaust?

 

Þessi spurning hefur lengi plagað fornleifafræðinga, sérstaklega eftir að þeir hafa grafið í meira en áratug í heimsins frægasta vígvelli: Waterloo í Belgíu. 

 

Þar var her Napóleons sem taldi um 72.000 Frakka endanlega sigraður árið 1815. Á næstu dögum voru hinir föllnu grafnir með miklum hraði á vígvellinum – langflestir í fjöldagrafir.

 

En þrátt fyrir að staðsetning grafanna sé vel skrásett hefur tveimur fornleifateymum einungis tekist að finna tvær beinagrindur og því vaknar spurningin: hvað hefur þá orðið um restina af beinum hermannanna? 

 

Nú telja tveir sagnfræðingar, Belginn Bernard Wilkin og Þjóðverjinn Robin Shäfer, að þeir hafi leyst ráðgátuna.

 

Samkvæmt þeim enduðu bein hinna föllnu hermanna í sykurverksmiðjum. Þar voru bein þeirra notuð til að sía sykursafann úr rófunum.

 

Yfirleitt notuðu verksmiðjur dýrabein á þessum tíma en á næstu áratugum eftir bardagann við Waterloo snarjókst þörfin á beinum og verðmæti þeirra margfaldaðist. 

 

„Beinin fóru frá því að vera nær einskis virði yfir í að verða afar verðmæt“, útskýrði Bernard Wilkin. 

 

Mikil leit eftir „hvíta gullinu“ fór nú í gang og þegar dýrabeinin voru uppurin var röðin komin að föllnum hermönnum við Waterloo. 

 

Wilkins og Shäfer hafa sýnt fram á öllu óhugnanlegri hluti í greinargerð sinni. Bein hinna föllnu í Waterloo voru hreint ekki þau einustu sem voru nýtt til að sæta kaffi, te og kökur. 

Eftir bardagann við Waterloo máluðu listamenn olíumyndir sem sýndu staðarbúa grafa upp lík hermanna – t.d. við herragarðinn La Haye Sainte.

Beinaáburður á breska akra

Ráðgátan um hinar horfnu beinagrindur við Waterloo fór eins og eldur í sinu um heim allan árið 2022 þegar breski prófessorinn Tony Pollard gaf út skýrslu um árangurslausar tilraunir við að finna grafir hermannanna.

 

Hann fór fyrir fornleifaverkefninu „Waterloo Uncovered“ og hafði Pollard frá árinu 2015 leitað eftir þremur fjöldagröfum sem sjónarvottar höfðu séð á vígvellinum eftir bardagann í júní 1815. 

 

Ein stök beinagrind hafði dúkkað upp árið 2012 og eina aðra fann teymi Pollards árið 2022. Tvær beinagrindur. Það var allt og sumt.

Árið 2022 fundu belgískir fornleifafræðingar í samvinnu við Pollard prófessor beinagrind af breskum hermanni við Waterloo.

Tony Pollard ályktaði því að gamla flökkusagan um að bein hermannanna hafi endað sem áburður á breskum ökrum væri trúlega sönn. 

 

Flökkusaga þessi kom fyrst fram árið 1822 í breska dagblaðinu The Times þar sem lesandi nokkur var ævareiður yfir því hvernig grafarró hinna látnu í Waterloo var raskað, þeir grafnir upp og rændir. 

 

„Svæðin í kringum Leipzig, Austerlitz og Waterloo, þar sem stærstu orrusturnar fóru fram fyrir 15 til 20 árum síðan hafa verið hreinsuð af öllum beinum frá bæði stríðshetjunni og hestinum sem hann reið“, mátti lesa í bréfinu sem var undirritað „Lifandi hermaður“. 

 

Bréfritari taldi sig vita að meira en ein milljón bushel, (eitt bushel samsvarar um 36 lítrum) af dýra- og mannabeinum hafi verið flutt út til breska hafnarbæjarins Hull. Þar voru þau síðan möluð og notuð til áburðar á akra. 

 

Á þessum tíma höfðu bein vissulega verið notuð sem áburður í langan tíma en það var fyrst á síðari hluta 18. aldar sem vísindamenn uppgötvuðu að það væri einkum kalsíumfosfat-innihald beinanna sem gerði þau jafn góð til áburðar og raun bar vitni.

 

Það voru síðan einkum Bretar sem tóku að flytja dýrabein inn í miklu magni til að bera á akra sína. 

Skammt frá beinagrind breska hermannsins fundu fornleifafræðingar árið 2022 beinagrindur þriggja hesta. Alls er talið að allt að 10.000 hross hafi týnt lífi í Waterloo.

Engu að síður vakti lesendabréfið frá 1822 athygli því eitt var að nota sláturúrgang til áburðar en allt annað að ræna grafir hermanna. Fyrir þessu fundust þó engar sannanir og málið gleymdist skjótt.

 

Tony Pollard taldi því að „nýting á manna- og dýraleifum til áburðar megi teljast trúverðug skýring“ á hinum horfnu fjöldagröfum við Waterloo. 

 

Tveir ungir sagnfræðingar, þeir Bernard Wilkin og Robert Schäfer, lásu með miklum áhuga skýrslu Pollards og ákváðu síðan að grafast nánar fyrir í málinu.

 

Kannski var aðrar skýringar að finna á hvarfi beinananna. 

Bændur og þorpsbúar sem og aðkomnir ferðamenn rændu hina látnu í Waterloo áður en þeir voru grafnir.

Túristar rændu og rupluðu í Waterloo

Orrustan í Waterloo var síðasti bardagi Napóleons en hann markaði einnig upphafið á nýrri gerð ferðamennsku: Vígvallatúrisma.

 

Púðurreyknum hafði varla létt eftir bardagann í Waterloo í júní 1815, þegar fyrstu túristarnir voru mættir á staðinn.

 

„Enginn, sem ekki hefur séð það með eigin augum, getur ímyndað sér hversu hræðilegt það var að sjá hina látnu, særðu og deyjandi“, skrifaði breski kaupmaðurinn Thomas Ker sem heimsótti Waterloo daginn eftir bardagann.

 

Eftir þetta streymdu ferðamenn til vígvallarins í leit að minjagripum. Meðal þeirra var rithöfundurinn Charlotte Eaton sem fékk taugaáfall:

 

„Meðan ég fór aðeins afsíðis frá félögum mínum og út á kornakurinn í leit að minjagripum sá ég mannshönd sem var nánast orðin að beinagrind og lá hálfgrafin á jörðinni, rétt eins og hún væri að teygja sig upp úr gröfinni“.

 

Samkvæmt belgíska sagnfræðingnum Bernard Wilkin rændu bæði sveitamenn og túristar hina dauðu og hirtu klæði þeirra og persónulega muni. Einnig seldu þorpsbúar ferðamönnum sem streymdu að, höfuðkúpur fallinna hermanna.

 

Jafnvel hestarnir sluppu ekki undan samkvæmt einum ferðalangi: „Allir dauðu hestarnir lágu á bakinu með fæturna upp í loft en þannig voru þeir lagðir til svo auðvelt væri að hirða af þeim skeifurnar!“

Sagan er falin í jarðvegi Waterloo

Þrátt fyrir líkránin við Waterloo er enn þar að finna margvíslega muni eins og beltissylgjur.

Óvæntir fundir á héraðsskjalasafni

Bernard Wilkin og Robin Schäfer búa yfir mikilli þekkingu á Napóleonsstríðunum en hafa auk þess annað forskot á aðra fræðimenn. Wilkin starfar við belgíska þjóðskjalasafnið í Liége og það tekur hann aðeins klukkustund að aka til Waterloo.

 

„Breskir og franskir sagnfræðingar gera jafnan veigamikil mistök. Þeir skoða sjaldan heimildir frá staðnum heldur lesa aðallega skrif eftir aðra Frakka og Breta“, útskýrir Bernard Wilkin meðan hann sýnir útsendara Lifandi sögu skjalasafnið sem telur einhverja 25.000 hillumetra.

Bernand Wilkin hefur grafið í þjóðskjalasafni Belga í leitinni að látnum hermönnum í Waterloo.

Wilkin og Schäfer fóru fyrst í gegnum frönsk dagblöð frá 19. öld þar sem þeir – rétt eins og í breskum dagblöðum – fundu greinar þar sem kvartað var undan því að bein hermanna við Waterloo höfðu mögulega endað sem áburður.

 

„En þegar ég rannsakaði belgískar heimildir úr héraðinu fann ég ekkert um uppgröft eða beinaáburð upp úr 1820“, segir Wilkin.

 

Það var nefnilega á þessu tímabili sem alþjóðleg dagblöð komu með frásagnir um uppgröft á beinum hermanna í Waterloo. Wilkin gat heldur ekki fundið neitt í skjalasafni héraðsins þar sem orrustan átti sér stað.

 

Hafi átt sér stað meiriháttar uppgröftur á vígvellinum á þriðja áratugnum telur Wilkins óhugsandi að ekki sé minnst á það í einu einasta skjali í skjalasafninu.

 

Hins vegar fann Wilkin sér til mikillar furðu fjölmargar fréttir um uppgröft á þessum sama vígvelli einum áratug síðar.

 

„Nú fékk ég allt í einu aðra mynd af aðstæðum. En sú mynd passar ekki við áburðarframleiðslu heldur miklu fremur um notkun beina við sykurframleiðslu“, útskýrir sagnfræðingurinn.

 

Það var einmitt upp úr 1830 sem neysla Evrópubúa á sykri unnum úr rófum margfaldaðist. Og það má teljast kaldhæðnislegt að það er Napóleón sjálfur sem er ábyrgur fyrir því.

„Hér er ávöxturinn af meginlandsbanni þínu, ó, þú mikli Napóleon!“
Lesendabréf frá árinu 1838 eftir að skógar við Waterloo voru ruddir til að hefja sykurrófurækt.

Viðskiptabann gat af sér nýjan iðnað

Árið 1806 hóf Napóleon svonefnt meginlandsbann sem fólst í viðskiptastríði við Breta. Hernaðaráætlun hans gekk út á að leggja hald á sérhvert skip sem hafði lagt upp í breskum höfnum.

 

Þar sem Bretar hindruðu siglingar Frakka á sama tíma var mikill skortur á sykri frá vesturindísku sykurreyrsökrunum.

 

En skömmu áður en þetta gerðist hafði þýska efnafræðingnum Franz Achard tekist að kynbæta rófur þar til þær innihéldu meira en þrisvar sinnum meira magn af sykri en venjulegar rófur. Fyrsta verksmiðjan til að nýta sér þessar nýju sykurrófur var tilbúin árið 1806 og innan nokkurra ára gat að líta meira en 200 sykurverksmiðjur víðsvegar í Þýskalandi.

 

Þaðan breiddist hugmyndin út til Frakklands þar sem Napóleon fyrirskipaði árið 1811 að mikil landsvæði skildu lögðu undir ræktun á sykurrófum. Á næstu áratugum risu upp sykurverksmiðjur hvarvetna í Evrópu en við þetta lækkaði verðið á þessu dýra sætuefni.

 

Samkvæmt Bernard Wilkin var byggð sykurverksmiðja við Waterloo árið 1834. Þar sem áður hafði verið ræktað hveiti og rúgur breiddust nú sykurrófuakrarnir út um allt.

 

Á sama tíma opnuðu tvær sykurverksmiðjur á svæðinu, þar á meðal Þjóðlega sykurverksmiðjan sem lét ryðja 700 hektara af skóglendi fyrir byggingarsvæðið undir verksmiðjuna sjálfa og tilheyrandi rófuakra.

Eftir 1830 voru sykurverksmiðjur reistar nærri Waterloo. Þar var að finna mikla rófuakra – og ógrynni af beinum. Á málverkinu má sjá hinn fræga haug Waterloos. Hann var hlaðinn til minningar um orrustuna miklu árið 1826.

Þegar ferðalangur nokkur kom á svæðið árið 1838 og sá hvernig skóglendið hafði verið fjarlægt fyrir sykurrófur skrifaði hann glaðhlakkandi í dagblað á svæðinu:

 

„Hér er ávöxturinn af meginlandsbanni þínu, ó þú mikli Napóleon!“

 

En það voru ekki einungis trén við Waterloo sem urðu fórnarlömb þessa sykuræðis sem gekk yfir Evrópu. Til þess að framleiða hvítan sykur þurfti að sía sykursafann úr rófunum gaumgæfilega.

 

Það hafði verið gert um áraraðir með viðarkolum en árið 1811 hafði franskur efnafræðingur uppgötvað að beinakol voru mun skilvirkari og ekki leið á löngu þar til allar verksmiðjur í Evrópu sóttust eftir koluðum beinum.

 

Þar sem mikil eftirspurn var þegar til staðar til að nýta beinin sem áburð á akra margfaldaðist verð þeirra.

 

„Þetta var dapurlegt tilfelli að þessi samkeppni skyldi eiga sér stað á sama tíma“, útskýrir Bernard Wilkin.

 

Þar með voru bein skyndilega orðin eitt eftirsóttasta hráefni Evrópu. En bein var að finna í gríðarlegu magni undir vígvellinum við Waterloo. 

Nýr iðnaður þurfti mörg tonn af beinum

Á fyrstu áratugum 19. aldar komu Evrópubúar á laggirnar hundruðum verksmiðja til að vinna rófusykur. Til þess að hægt væri að hreinsa safann frá sykurrófunum þurfti mikið magn af beinum en þau þurfti að brenna til kola svo að þau yrðu nothæf.

1. þrep: Beinin eru mulin

Beinasafnarar á svæðinu grófu upp bein og söfnuðu saman í tunnur. Til að fylla tunnurnar brutu þau beinin í smærri stykki. Þess vegna var ógjörningur að sjá hvort þar væri að finna mannabein innan um.

2. þrep: Maskína molar beinin

Beinabrotin voru keypt af beinakolaframleiðendum og sykurverksmiðjum með eigin búnað. Þar voru beinin moluð smærra í gufuvél þar til þau voru á stærð við lítil óregluleg korn.

3. þrep: Beinaleifarnar kolaðar

Beinakornunum var nú mokað inn í stóran ofn og bökuð við um 700 oC. Miklu skipti að hefta að súrefni bærist í eldinn. Afraksturinn voru beinakol með mun betri eiginleika heldur en venjuleg viðarkol.

4. þrep: Beinakolin síuð og aflituð

Þessi koluðu beinakorn voru afar heppileg til að draga í sig óhreinindi úr vökvum. Þess vegna voru beinakolin notuð til að sía sykurríkan rófusafann þannig að útkoman varð tandurhrein og fín.

Leitin að hvíta gullinu við Waterloo

Talið er að milli 10.000 og 20.000 hermenn hafi fallið í bardaganum við Waterloo árið 1815 þegar um 72.000 manna her Napóleons barðist við um 115.000 breska, prússneska og hollenska hermenn.

 

Í blóðbaði þessu drápust um 10.000 hestar og samkvæmt Bernard Wilkin voru það bein hestanna sem safnarar sóttust einkum eftir. 

 

„Greitt var eftir þyngd og því voru beinagrindur af mönnum ekkert mjög eftirsóknarverðar. Bein hesta voru mun verðmætari“. 

 

Það voru jafnan fátæklingar sem söfnuðu beinum og seldu þau síðan ýmist til beinakolagerðarmanna eða beint til sykurverksmiðja sem höfðu yfir búnaði að ráða til að framleiða beinakol.

 

En samkvæmt rannsóknum Wilkins og Schäfers í skjalasöfnunum enduðu beinin ekki alltaf einungis í belgískum verksmiðjum. Þau voru einnig flutt út til franskra sykurverksmiðja. 

 

„Árið 1832 flutti Belgía ekki eitt einasta kíló af beinum til Frakklands. Árið 1834 var talan 350 tonn sem átti síðar eftir að margfaldast“, segir Wilkin og vísar í útflutningsskjöl einungis tveimur árum síðar sem sýna 3.000 tonna útflutning. 

Beinaútflutningur Belga margfaldaðist

Magn belgískra beina sem var flutt til franskra sykurverksmiðja margfaldaðist uppúr 1830.

 

Útflutningur í tonnum til Frakklands

 

  • 1832-1833: 0

 

  • 1834: 350

 

  • 1835: 2.000

 

  • 1836: 3.000

Skjölin greina hins vegar ekkert frá því hver uppruni beinanna hafi verið né hvort einvörðungu hafi verið um dýrabein að ræða.

 

„Það var enginn sem spurði um uppruna beinanna. Öllum stóð algerlega á sama“, bendir Wilkin á. 

 

Samkvæmt sagnfræðingnum passa skýrslurnar hins vegar ágætlega við fréttir frá Waterloo. Í einni opinberri skýrslu frá 1834 er í fyrsta sinn gefið til kynna að óþekktir aðilar hafi ólöglega verið að grafa á þessum gamla vígvelli. 

 

Ári síðar fengu yfirvöld tilkynningu um að enn væri verið að grafa í fjöldagröfunum. Það varð til þess að borgarstjóri Braine-l’Alleuds sendi frá sér viðvörun. 

 

„Jarðeigendur og umsjónarmenn landareigna sem liggja við vígvöllinn mega alls ekki svívirða eða leyfa öðrum að svívirða grafir á landareignum sínum“, hljóðuðu skilaboðin frá borgarstjóranum sem undirstrikaði jafnframt að refsing við slíku gæti varðað eins árs fangelsi.

 

Að mati Wilkin sýna þessi skrif borgarstjórans að þeir sem stóðu að uppgreftri beinanna hafi líkast til verið fátækir bændur úr sveitinni sem vafalítið hafa vitað gjörla hvar grafirnar var að finna. Enginn var þó nokkru sinni handtekinn, jafnvel þó að grafarránið hafi haldið ótrautt áfram. 

„Og beinagrindurnar sem voru muldar og þeim breytt í beinakol, voru notaðar til að hreinsa rófusykur í Belgíu og norðanverðu Frakklandi“.
Franski læknirinn dr. Caffe.

Lýsingar sjónarvotta 

Um árið 1840 heimsótti jarðfræðingurinn Karl von Leonard vígvöll Waterloos og uppgötvaði sér til mikillar furðu að þar var fullt af fólki að vinna við að grafa í vígvöllinn. Þar sá jarðfræðingurinn líka hauga af hesta- og mannabeinum. 

 

„Viðskiptamenn frá Brussel höfðu verslað með Waterloo-bein um nokkurt skeið“, skrifaði jarðfræðingurinn en hann fékk að heyra frá íbúum þar að þarna væri einungis um hestabein að ræða sem þeir seldu. 

 

„Meðan hann sveiflaði skóflunni sinni, lofsöng einn verkamannanna hins vegar bein frá hinum keisaralegu vörðum og sagði þau vera sérlega verðmæt þar sem þau, fullvissaði hann mig, voru jafn þung og hestabein“, sagði Leonard argur.

 

„Þetta er ótrúlegt. Menn geta ekkert skáldað svona nokkuð“, sagði Bernard Wilkin eftir að hafa lesið frásögn jarðfræðingsins upphátt. 

 

18 árum síðar skrifaði franski læknirinn dr. Caffe sem sjálfur hafði misst bróður sinn í bardaganum við Waterloo hvernig hann hefði einnig á sínum tíma séð uppgröft á svæðinu. 

 

„Og beinagrindurnar sem voru muldar og þeim breytt í beinakol, voru notaðar til að hreinsa rófusykur í Belgíu og norðanverðu Frakklandi“, var haft eftir lækninum í einu fagtímariti. 

 

Wilkin áætlar að grafarránin á beinum Waterloos hafi haldið áfram í 10 til 15 ár áður en þau lögðust af.

 

„Á þeim tímapunkti hefur líklega verið búið að tæma allar fjöldagrafirnar“.

„Burtséð frá þessu augljósa gyðingahatri þá er ótrúlegt að lesa þetta. Því þetta passar fullkomlega við uppgötvanir okkar“.
Bernard Wilkinum um bréf þýsks hermanns árið 1942.

En minningar um svo óhugnanlega starfsemi lifðu áfram meðal íbúa þar í nágrenninu. Þegar Wilkin og Schäfer unnu að rannsókn sinni komust þeir yfir bréf sem þýskur hermaður hafði sent heim þegar Þjóðverjar hersátu Belgíu árið 1942. 

 

Þar ritaði hermaðurinn að hann hefði heimsótt Waterloo þar sem bóndi á staðnum sýndi honum rússneskar hermannagrafir sem yfirvöld í Prússlandi höfðu á sínum tíma ráðið bændur til að verja. 

 

„Fátæklingarnir og þó einkum gyðingar frá Brussell, grófu nefnilega beinin af frönskum og breskum hermönnum upp og seldu þau í sykurverksmiðjurnar“, skrifaði hermaðurinn. 

 

„Burtséð frá þessu augljósa gyðingahatri þá er ótrúlegt að lesa þetta. Því þetta passar fullkomlega við uppgötvanir okkar,“ útskýrði Wilkin. 

Svokallaðar „Waterloo-tennur“ voru afar eftirsóttar á 19. öld. En ekki er þó öruggt að allar hafi þær komið frá Waterloo.

Tennur hinna föllnu lifa áfram

Eftir bardagann við Waterloo fengu sjálfskipaðir tannlæknar í Evrópu nóg að gera. Vígvöllurinn skildi nefnilega eftir sig eftirsótta vöru. Ungar og hvítar tennur sem margir voru tilbúnir að borga stórfé fyrir.

 

Á 19. öld jókst sykurneysla Evrópubúa stórlega og það sama á við um tannskemmdir. Á þessum tíma var ekki mögulegt að gera við holur í tönnunum, þannig að flestar skemmdar tennur þurfti að draga út.

 

Ein lausn á þessum tannskorti var að kaupa falskar tennur, t.d. úr fílabeini. Ennþá betri lausn fólst í að láta smíða falskar tennur úr mannatönnum en það var hreint ekki auðvelt að komast yfir þær.

 

Eftir bardagann við Waterloo árið 1815 mynduðust því einstök tækifæri fyrir framtakssama menn. Þarna var að finna stóran vígvöll fullan af ungum tönnum sem þurfti bara að draga úr kjálkunum.

 

Árið 1817 var skrifað í bresku tímariti hvernig einn tannlæknir hefði keypt „mörg þúsund tennur sem voru dregnar úr kjálkum ungra hetja sem féllu við Waterloo“.

 

Þessar tennur voru síðan nefndar „Waterloo-tennur“ – þrátt fyrir að fræðimenn séu alls óvissir um að allar hafi þær komið frá þessum bardaga.

 

Það var líka að finna nóg af öðrum vígvöllum þar sem ræna mátti tönnum og við þetta má síðan bæta ótal kirkjugörðum.

Beinagrindur á háalofti 

Rannsóknir Wilkins og Schäfers sem nýverið hafa verið opinberaðar hafa í meira en einum skilningi fengið beinagrindurnar til að velta út úr belgískum skápum.

 

Þegar Wilkin hélt fyrirlestur í nóvember 2022 í Waterloo um uppgötvanir sínar voru margir íbúar héraðsins mættir á staðinn. Þeir urðu fyrir nokkru áfalli. 

 

„Sumir þeirra urðu mjög árásargjarnir. Þeir kærðu sig ekkert um að forfeður þeirra væru sagðir grafarræningjar“, útskýrir Wilkin sem telur samt ekki að maður eigi að dæma fólkið fyrir að hafa nýtt sér þennan möguleika á þessum tímum. 

 

Samkvæmt honum er það rökrétt þegar horft er til þess hversu erfitt fólk átti uppdráttar eftir 20 ára hernað. 

 

„Ég held að flestir hafi gert þetta vegna örvæntingar. Þeir voru ekkert að hugsa um hvort beinin hafi í raun tilheyrt einhverjum ættingja eða þess háttar. Þeir hugsuðu einungis um peningana“, bendir hann á. 

 

Í fyrirlestrinum árið 2022 dró eldri maður Bernard Wilkin afsíðis og sagði honum frá því að uppi á háalofti hans væri að finna prússnesk bein frá Waterloo. 

 

Sagnfræðingurinn brosir: „Ég varð að sjálfsögðu allur ein eyru“. 

 

Þegar hann heimsótti gamla manninn nokkru síðar fékk hann afhentar tvær höfuðkúpur og hrúgu af beinum. Þetta hafði verið grafið upp á níunda áratug síðustu aldar af tveimur kunningjum gamla mannsins sem ákváðu að gefa honum beinin.

Uppi á háalofti hjá öldruðum manni fann Bernard Wilkin tvær höfuðkúpur og stök bein frá minnst fimm hermönnum sem voru drepnir við Waterloo árið 1815.

En nú vildi maðurinn losna við þau svo hægt væri að rannsaka þau vísindalega. Wilkin leitaði því til réttarmeinafræðings og í ljós kom að beinin reyndust vera frá minnst fimm hermönnum. 

 

„Við létum bæði rannsaka aldur beinanna sem og þeirra muna sem fundust á sama tíma og í ljós kom að aldur þeirra passaði við Napóleonsstríðin“, segir Wilkin. 

 

Nokkru síðar hafði maður sem hafði leitað með málmleitartæki á vígvellinum við Waterloo undanfarin 20 ár samband við Wilkin. Hann hafði á einhverjum tíma fundið hluta úr beinagrindum og taldi að eigendur þeirra hefðu orðið fyrir fallbyssukúlu. 

 

Samkvæmt Wilkin var hér um að ræða fimm eða sex einstaklinga. Fyrir utan tvær beinagrindur sem þegar var búið að finna hafði Wilkin nú tekist að finna tíu beinagrindur frá orrustunni við Waterloo. 

 

„En ég er viss um að það verður hægt að finna fleiri einstaklingsgrafir en ekki stóru fjöldagrafirnar. Þær eru fyrir löngu horfnar“, telur Wilkin. 

 

En Waterloo er ekki eini vígvöllurinn þar sem menn hafa farið rænandi og ruplandi í leit að beinum og öðrum verðmætum. 

Stríð Napóleons skildu eftir aragrúa beina

Allt að tvær milljónir hermanna og borgara misstu lífið milli áranna 1792 og 1815 þegar fyrstu evrópsku konungsríkin reyndu að brjóta Napóleon og franska lýðveldið á bak aftur. Þannig er vígvelli að finna hvarvetna í Evrópu – allir fullir af beinum sem áburðar- og sykurframleiðendur sóttust eftir.

Evrópa árið 1812

Rauðbrúnt: Franska keisararíkið

 

Gult: Lönd undir valdi Frakka

 

Grænt: Lönd í bandalagi við Frakka

 

Brúnt: Sjálfstæð lönd

 

Sprengjur: Miklar orrustur í Napóleonsstríðunum

 

2. desember 1805: Orrustan við Austerlitz

Fjöldi látinna: 9.000 – 15.000

Andstæðingar: Austurríki og Rússland

Hér vann Napóleón einn sinn stærsta og fræknasta sigur yfir tveimur keisurum.

*Uppgefnar tölur eru harla óvissar og grundvallast á fjölmörgum sagnfræðilegum útreikningum.

5.-6. júlí 1809: Orrustan við Wagram

Fjöldi látinna: 18.000 – 50.000
Andstæðingur: Austurríki

 

Hér sigraði Napóleon her Austurríkismanna sem taldi um 158.000 manns.

7. september 1812: Orrustan við Borodino

Fjöldi látinna: 25.000 – 50.000

Andstæðingur: Rússland

 

Blóðugasta orrustan í mislukkuðum herleiðangri Napóleons inn í Rússland

16.-19. október 1813: Orrustan við Leipzig

Fjöldi látinna: 50.000 – 100.000
Andstæðingar: Prússland, Austurríki, Rússland, Svíþjóð

 

Í bardaganum var her Napóleons sigraður af herafla sem taldi um 320.000 hermenn andstæðinganna.

18. júní 1815: Orrustan við Waterloo

Fjöldi látinna: 10.000 – 20.000*
Andstæðingar: Stóra Bretland, Prússland.


Síðasta orrusta Napóleons sem endaði í blóðugum ósigri

Stríð Napóleons skildu eftir aragrúa beina

Allt að tvær milljónir hermanna og borgara misstu lífið milli áranna 1792 og 1815 þegar fyrstu evrópsku konungsríkin reyndu að brjóta Napóleon og franska lýðveldið á bak aftur. Þannig er vígvelli að finna hvarvetna í Evrópu – allir fullir af beinum sem áburðar- og sykurframleiðendur sóttust eftir.

Evrópa árið 1812

Rauðbrúnt: Franska keisararíkið

 

Gult: Lönd undir valdi Frakka

Grænt: Lönd í bandalagi við Frakka

 

Brúnt: Sjálfstæð lönd

 

Sprengjur: Miklar orrustur í Napóleonsstríðunum

 

2. desember 1805: Orrustan við Austerlitz

Fjöldi látinna: 9.000 – 15.000

Andstæðingar: Austurríki og Rússland

 

Hér vann Napóleón einn sinn stærsta og fræknasta sigur yfir tveimur keisurum.

 

*Uppgefnar tölur eru harla óvissar og grundvallast á fjölmörgum sagnfræðilegum útreikningum.

5.-6. júlí 1809: Orrustan við Wagram

Fjöldi látinna: 18.000 – 50.000
Andstæðingur: Austurríki

 

Hér sigraði Napóleon her Austurríkismanna sem taldi um 158.000 manns.

 

Árið 1813 geistust meira en 500.000 hermenn í bardaga í Leipzig. Orrusta þessi var ein sú mesta í Napóleonsstríðunum.

7. september 1812: Orrustan við Borodino

Fjöldi látinna: 25.000 – 50.000

Andstæðingur: Rússland

 

Blóðugasta orrustan í mislukkuðum herleiðangri Napóleons inn í Rússland

16.-19. október 1813: Orrustan við Leipzig

Fjöldi látinna: 50.000 – 100.000
Andstæðingar: Prússland, Austurríki, Rússland, Svíþjóð

 

Í bardaganum var her Napóleons sigraður af herafla sem taldi um 320.000 hermenn andstæðinganna.

18. júní 1815: Orrustan við Waterloo

Fjöldi látinna: 10.000 – 20.000*
Andstæðingar: Stóra Bretland, Prússland.


Síðasta orrusta Napóleons sem endaði í blóðugum ósigri

Vígvellir grafnir upp hvarvetna

Samkvæmt rannsóknum Wilkins og Schäfer bendir allt til að leitin eftir beinum til áburðar og fyrir sykurverksmiðjur hafi einnig átt sér stað á fjölmörgum öðrum vígvöllum í Evrópu. 

 

Sagnfræðingarnir áætla að Napóleonsstríðin hafi kostað Evrópubúa um tvær milljónir látinna og bein þeirra voru mikils virði. Í þýskri dagblaðsgrein frá árinu 1821 skrifar blaðamaður um það hvernig fjöldagröf með frönskum hermönnum frá umsátrinu um Hamborg á árunum 1813 og 1814 var tæmd. 

 

„Árla morguns gat að líta beinasafnara í hundruða tali – með skóflur, haka og stóra sekki – sem flýttu sér út úr þorpunum og út á akrana þar sem Frakkarnir lágu. Og engin bönn yfirvalda gátu stöðvað þetta hryllilega starf þeirra“, sagði blaðamaðurinn og greindi frá því að bein allt að 15.000 fallinna Frakka hafi þannig endað sem áburður í Englandi. 

 

Samkvæmt Bernard Wilkin hélt þetta grafarrán áfram næstu áratugi. Árið 1834 má þannig lesa í tímariti á þýsku eyjunni Rügen hvernig bresk skip hafi „komið með tvö til þrjú hundruð tunnur fullar af beinum franskra hermanna og hesta sem fórust í undanhaldi La Grande Armée frá Rússlandi og flutt til Englands“. 

„Waterloo var því ekkert einangrað tilfelli. Allir gerðu þetta, alls staðar“.
Bernard Wilkin um ránið á beinum við Waterloo.

Við rannsóknir sínar hafa Wilkin og Schäfer einnig unnið með fornleifafræðingi sem stóð fyrir uppgreftri nærri Frankurt am Main þar sem þúsundir franskra hermanna létust í Napóleonsstríðunum. 

 

„Og hún fann tómar fjöldagrafir – og þið megið geta upp á því hvað var verið að rækta við hliðina á þeim. Sykurrófur!“ segir Wilkin. 

 

„Waterloo var þannig ekkert einangrað tilfelli. Allir gerðu þetta alls staðar“, bendir sagnfræðingurinn á og í símanum tekur Robin Schäfer undir þetta álit kollega síns. 

 

„Menn leituðu að beinum á nánast öllum vígvöllum Napóleonsstríðanna“, segir Schäfer. 

 

Samkvæmt þýska sagnfræðingnum sýna rannsóknir hans og Wilkins jafnframt að vígvellir síðari tíma hafi einnig verið grafnir upp í sama endamiði. 

 

Heimildir frá því upp úr 1860 greina þannig frá því að bein úr Krímstríðinu (1853-1856) hafi verið flutt til Englands og árið 1881 afhjúpaði dagblað eitt að fundist hefðu beinagrindur úr stríði Rússa og Tyrkja (1877-1878) í skipsfarmi við höfnina í Hull. 

 

Schäfer og Wilkin hafa sannanir fyrir því að jafnvel í fyrri heimsstyrjöldinni hafi grafir verið svívirtar með sama hætti að stríði loknu. Um þessar mundir eru sagnfræðingarnir að skrifa bók um uppgötvanir sínar.

 

Að lokum vill Bernard Wilkin koma því á framfæri við áhyggjufulla lesendur: Beinakol eru ekki lengur notuð í evrópskum sykuriðnaði. 

Lestu meira um Waterloo 

Bernard Wilkin & Robin Schäfer: Bones of Contention, State Archives of Belgium, 2024

 

Bernard Cornwell: Waterloo, Lindhardt og Ringhof, 2015

 

HÖFUNDUR: Niels-Peter Granzow Busch

© akg-images/Ritzau Scanpix,© Album/Ritzau Scanpix,© VINCENT ROCHER/AWAP,© Chris van Houts,© National Army Museum/Bridgeman Images,© Niels-Peter Granzow Busch/HISTORIE,© Edwin Toovey/KBR/Wikipedia,© Victoria Gallery & Museum, University of Liverpool/Bridgeman Images,© Bernard Wilkin, Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Vísindamenn finna sjálfsmorðshnapp krabbans

Alheimurinn

Ný gerð geimhylkis snýr lendingu alveg á haus

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is