Allt síðan rauði bletturinn á Júpíter sást fyrst árið 1664 hefur hann heillað stjörnufræðinga.
Bletturinn er 16.350 km í þvermál og þar með stærri um sig en jörðin. Í raun er þetta hringlaga stormur þar sem vindhraðinn fer allt upp í 680 km/klst.
Árið 1831 fóru stjörnufræðingar að teikna upp stærð blettsins og alla tíð síðan hefur hann farið minnkandi.
Þegar stærðin var fyrst mæld var þvermálið um 39.000 kílómetrar. Hann hefur því dregist saman um tvo þriðju á síðustu 200 árum.
Stjörnufræðingar hafa lengi undrast ástæðuna og þeir gætu nú hafa leyst þessa ráðgátu.
Gleypir minni storma
Árið 2021 komst hópur vísindamanna að því að bletturinn gleypi í sig aðra og smærri storma á Júpíter. Nú hefur hópur stjörnufræðinga hjá Yaleháskóla unnið áfram með þá kenningu.
Þeir gerðu þrívíddarhermi af stormsveipnum og notuðu til þess tölvulíkan sem kallast EPIC (Explicit Planetary Isentropic-Coordinate) og notað er til að rannsaka gufuhvolf á öðrum plánetum.
Við hermilíkanið bættu þeir nokkrum gerðum af háþrýstikerfum í lofthjúpi jarðar, svonefndum varmakúplum sem verða fyrir áhrifum af smærri veðurfyrirbrigðum og geta því enst lengi – ekki ósvipað og rauði bletturinn á Júpíter.

Á myndunum þremur sem teknar voru með Hubble-sjónaukanum, sést vel hve mikið bletturinn minnkaði frá 1995 til 2014.
Úr þessu urðu til tölvulíkön sem líktu eftir víxlverkunum milli rauða blettsins og smærri stormsveipa með mismikinn styrk og misjafnlega algenga.
Samhliða settu vísindamennirnir upp önnur líkön þar sem áhrifum smærri storma var sleppt og niðurstöðurnar voru að endingu bornar saman.
Þetta leiddi í ljós að minni stormar virtust færa rauða blettinum aukinn styrk og koma honum til að stækka.
„Með tölulegum hermilíkönum komumst við að raun um að með því að fóðra stóra, rauða blettinn á minni stormum, eins og vitað er að gerist á Júpíter, gátum við haft stjórn á stærð hans,“ útskýrir Galeb Keaveney hjá Yale-háskóla í fréttatilkynningu.
Ástæða þess að bletturinn hefur minnkað síðustu 200 árin gæti þannig skýrst af því að á þessum tíma hafi smærri stormsveipir verið fátíðari og rauði bletturinn þannig fengið minna fóður til að vaxa.
Vísindamennirnir gera sér nú vonir um að með framhaldsrannsóknum takist þeim að finna skýringu á því hvernig þessi rauði blettur á Júpíter myndaðist í upphafi.
Rannsóknarniðurstöðurnar hafa verið birtar í tímaritinu Icarus.