Lifandi Saga

Raðmorðingi sigraði í sjónvarpsþætti

Rodney Alcala heillaði áhorfendur upp úr skónum þegar hann kom fram í stefnumótaþætti í sjónvarpi undir lok 8. áratugarins. Að baki brosi piparsveinsins og hressilegum athugasemdum hans leyndist skelfilegt leyndarmál: Maðurinn var raðmorðingi og hafði minnst fjögur morð á samviskunni þegar hann bar sigur úr býtum í sjónvarpsleiknum.

BIRT: 04/10/2024

„Velkomin í stefnumótaleikinn“, sagði þáttastjórnandinn Jim Lange þegar hann birtist á skjánum hinn 13. september 1978.

 

Þessi vinsæli sjónvarpsþáttur var ávallt með nokkurn veginn sama sniðinu og skömmu síðar hrópaði Jim þessi kunnuglegu orð:

 

„Nú er kominn tími til að kynna þessa þrjá eftirsóttu piparsveina. Hér koma þeir!“

 

Upptökuvélinni var nú beint að þremur mönnum sem sátu hver á sínum stól fyrir framan litríkan, rósóttan bakgrunn í tíðaranda áttunda áratugarins.

 

„Fyrsti piparsveinninn er eftirsóttur ljósmyndari sem hóf feril sinn þegar pabbi hans fann hann í myrkrakompunni 13 ára gamlan og fullframkallaðan“, sagði þáttastjórnandinn hress í bragði og hélt svo áfram:

 

„Þegar hann er ekki að taka myndir nýtur hann lífsins í fallhlífarstökki eða á mótorhjólinu sínu. Vinsamlegast bjóðið velkominn Rodney Alcala“.

Myndavélinni var nú beint að 35 ára gömlum manni í brúnum jakka og hvítri, fráhnepptri skyrtu. Þykkt brúnt hár liðaðist niður á herðarnar og myndaði fallegan ramma um útitekið andlitið. Maðurinn brosti út að eyrum og var greinilega með fallegar tennur.

 

Konan sem hafði það hlutverk að gera upp á milli mannanna þriggja birtist nú á skjánum. Cheryl Bradshaw var dökkhærð og lagleg í einkar flegnum kjól sem sýndi eiginlega allt sem hægt var að sýna. Hún byrjaði að yfirheyra mennina þrjá með nokkrum spurningum sem fólu í sér vænan skammt af daðri.

 

„Piparsveinn númer eitt: Ég ætla að hafa þig í kvöldmat. Hvað kallast rétturinn og hvernig lítur hann út?” spurði Cheryl í þessum létta tóni sem einkenndi sjónvarpsþáttinn.

 

„Ég kallast banani og er afar gómsætur á að líta“, svaraði Rodney, konunni til mikillar ánægju.

 

„Gætirðu verið eilítið nákvæmari?“, spurði hún. Maðurinn svaraði viðstöðulaust:

 

„Afhýddu mig“. Áhorfendur veinuðu af ánægju.

 

Þegar að lokum kom að því að Cheryl skyldi velja með hverjum hún vildi fara á stefnumót, velktist hún ekki í vafa:

 

„Mér finnst bananar gómsætir, svo ég kýs piparsvein nr. 1“, sagði hún.

 

Rodney Alcala steig fram á sviðið, kyssti stúlkuna á kinnina og tók um mittið á henni. Bæði virtust þau himinlifandi með útkomu kvöldsins. Þegar þátttakendurnir tveir yfirgáfu sviðið rann þó upp fyrir Cheryl að hún hefði ekki valið prinsinn á hvíta hestinum.

 

Rodney var afar ákafur, einkar sjálfumglaður og lofaði henni stefnumóti sem hún ætti „aldrei eftir að gleyma“. Í eyrum Cheryl hljómuðu orð hans meira sem hótun en nokkuð annað.

 

„Ég fékk strax sting í magann. Hann virkaði eins og mjög skuggalegur náungi. Ég afþakkaði boð hans. Mig langaði ekki að hitta hann aftur“, upplýsti hún mörgum árum síðar.

Öfugt við fórnarlömb Rodney Alcalas fékk kvenþátttakandinn í stefnumótaþættinum strax á tilfinninguna að það væri eitthvað hræðilega rangt við tilvonandi deitið sitt.

Ákvörðun Cheryl um að afþakka stefnumótið við Rodney bjargaði að öllum líkindum lífi hennar.

 

Þessi heillandi piparsveinn var nefnilega ekki draumur allra tengdamæðra, heldur raðmorðingi haldinn kvalalosta, með minnst fjögur morð á samviskunni þegar þarna var komið sögu.

 

Morðinginn úr stefnumótaþættinum lét aftur til skarar skríða níu mánuðum eftir að þátturinn var á dagskrá.

 

Óhugnanlegar fýsnir

Rodney James Alcala fæddist 23. ágúst 1943 í borginni San Antonio í Texas. Hann var næstyngstur fjögurra systkina.

 

Árið 1955 fluttist fjölskyldan búferlum til Los Angeles. Ekkert í fari drengsins virtist vera óeðlilegt. Hann fékk góðar einkunnir í skóla og bæði kennurum og skólafélögum líkaði vel við hann.

 

Þegar Rodney lauk menntaskóla með ágætiseinkunn skráði hann sig í herinn. Þá fór fyrst að bera á vandamálum. Þegar hann hafði lokið tveimur árum af herþjónustunni kom hann móður sinni á óvart þegar hann birtist heima hjá henni fyrirvaralaust. Pilturinn hafði strokið úr hernum.

(Alcala þjáist af) „alvarlegri andfélagslegri persónuleikaröskun“.

Geðlæknir á vegum hersins, 1963

Slíkt athæfi var refsivert og svo fór að lokum að móðurinni tókst að tala um fyrir Rodney og fá hann til að tilkynna sig á næstu herskráningarstofu. Þar rannsakaði geðlæknir hann en dró þá ályktun að Rodney þjáðist af „alvarlegri andfélagslegri persónuleikaröskun“.

 

Geðsjúkdómur þessi gerir að jafnaði vart við sig eftir 15 ára aldur og einkennist af hvatvísi, árásargirni, virðingarleysi gagnvart félagsþáttum, lygum og því að fara yfir mörk annarra.

 

Geðrannsóknir á Rodney leiddu síðar í ljós að hann væri „siðblindur kynferðislegur lostakvalari“ en um er að ræða sérlegan undirflokk raðmorðingja sem hafa unun af því að pynta fórnarlömb sín, samkvæmt skilgreiningum bandarísku alríkislögreglunnar, skortir samkennd, eru algerlega uppteknir af sjálfum sér og hafa óstjórnlega þörf fyrir að sýna vald sitt og að vera við stjórn“.

Rodney Alcalas lokkaði hina átta ára gömlu Tali Shapiro inn í bíl sinn.

Raðmorðingjar sem haldnir eru kvalalosta eru að öllu jöfnu einstaklega vel gefnir og Rodney Alcala var engin undantekning. Þegar hann var tekinn inn í herinn mældist greindarvísitala hans 140. Allir sem mælast umfram töluna 140 eru álitnir vera snillingar.

 

Á þessu stigi óraði engan fyrir illskunni sem leyndist innan um alla þessa greind. Unga skólastúlkan Tali Shapiro átti þó brátt eftir að komast að hinu sanna.

 

Fyrsta fórnarlambið var skólastúlka

Klukkan átta að morgni þess 25. september 1968 gekk átta ára gömul skólastelpa niður Sunset Boulevard í Los Angeles. Hún var á leið sinni í skóla í örfárra kílómetra fjarlægð þegar bifreið staðnæmdist við hlið hennar.

 

Í bílstjórasætinu sat Rodney Alcala, þá 25 ára að aldri. Andlitið var sakleysið uppmálað og hann brosti sínu blíðasta þegar hann spurði hvort hann gæti skutlað Tali í skólann.

 

„Mér er bannað að tala við ókunnuga“, svaraði stelpan þá.

 

„Ég er ekki ókunnugur. Ég þekki foreldra þína. Ég er með svo skemmtilega mynd sem mig langar að sýna þér“, sagði Rodney tælandi röddu.

„Ég held að maður nokkur hafi tælt stúlkubarn með sér inn í bíl“.

Vitni sem hringdi í lögregluna árið 1968.

Tali fylltist forvitni, hikaði í smástund en settist svo inn í bílinn hjá manninum. Fasteignasalinn Donald Haines var á leið í vinnuna og ók einnig eftir Sunset Boulevard. Þegar hann staðnæmdist á rauðu ljósi kom hann auga á litla skólastelpu á spjalli við mann í bílnum við hliðina á. Þau virtust ekki þekkjast.

 

Fasteignasalanum fannst eitthvað óeðlilegt við manninn og ákvað að elta bifreiðina. Nokkrum mínútum seinna var bílnum lagt á bílastæði við fjölbýlishús í grennd við hið þekkta „Hollywood Walk of Fame“.

 

Rodney Alcala leiddi stúlkubarnið inn í blokkina. Haines hljóp að næsta símaklefa og hringdi viðstöðulaust í lögregluna.

 

„Þú heldur sennilega að ég sé eitthvað klikkaður en ég varð vitni að atviki rétt í þessu sem kom mér óeðlilega fyrir sjónir. Ég held að maður einn hafi tælt stúlkubarn með sér inn í bíl og að hún sé komin inn í íbúð með honum.

 

Kannski hef ég rétt fyrir mér en kannski er þetta della. Getið þið komið og gengið úr skugga um hvort eitthvað er hæft í þessu, svo ég geti sofið rótt í nótt?“, spurði Haines.

„Þetta er lögreglan, ég vil fá að tala við þig“.

Lögregluþjóninn Chris Camacho

Lögreglan kom á staðinn innan örfárra mínútna og bankaði á hurðina að íbúðinni.

 

„Þetta er lögreglan. Opnaðu dyrnar! Ég vil fá að tala við þig“, hrópaði lögreglumaðurinn við dyrnar. Andartaki síðar birtist Rodney í glugga við hliðina á útihurðinni.

 

„Bíddu andartak, ég var að koma úr sturtu“, sagði maðurinn og hvarf úr glugganum.

 

Lögregluþjónninn veitti því eftirtekt að hár mannsins var þurrt. Gamalreyndum lögregluþjóninum fannst rödd mannsins einkennileg. Á meðan Camacho lögregluþjónn beið þess að dyrnar opnuðust heyrði hann daufar stunur innan úr íbúðinni. Hann tók upp skammbyssuna og sparkaði inn hurðinni.

 

Það fyrsta sem hann kom auga á inni í íbúðinni var ógrynnin öll af ljósmyndabúnaði, m.a. þrífótur. Alcala hafði tekist að flýja út um bakdyrnar.

 

Þegar lögregluþjónninn kom inn í eldhúsið lá við að hann kastaði upp. Litla stúlkan lá á gólfinu, allsnakin.

 

Handlóð hafði greinilega verið notað til að berja í sundur litlu höfuðkúpuna og hafði síðan verið lagt yfir háls barnsins til að koma í veg fyrir að hún gæti dregið andann. Fætur litlu stúlkunnar höfðu verið færðir í sundur og blóðpollurinn undir henni leiddi í ljós að henni hafði greinilega verið nauðgað hrottalega.

,,Rodney Alcala gæti ekki gert flugu mein”.

Einn af kennurum Alcala, 1968

Lögregluþjónninn var í fyrstu sannfærður um að stúlkan væri látin en greindi þó daufan púls og hringdi á sjúkrabíl. Tali komst ekki til meðvitundar á sjúkrahúsinu fyrr en að tveimur dögum liðnum og þar átti hún eftir að dvelja í heilan mánuð áður en unnt var að útskrifa hana.

 

Engan grunaði að Alcala væri lostapyntari

Lögreglan átti auðvelt með að bera kennsl á sakamanninn. Skilríki hans frá Kaliforníuháskóla lágu á eldhúsborðinu en þar lagði Rodney stund á listnám í von um að geta orðið atvinnuljósmyndari.

 

Þegar lögreglumenn síðar meir yfirheyrðu nágranna mannsins var lýsingin ávallt sú sama: Snyrtilegur ungur maður sem samdi vel við alla. Einn af kennurum hans við háskólann sagði án þess að blikna: „Rodney Alcala gæti ekki gert flugu mein.“

 

Það átti reyndar eftir að verða meiri erfiðleikum háð að góma manninn sem hafði misþyrmt litlu stúlkunni en lögreglan hafði gert sér í hugarlund.

Alcala flýði þvert yfir BNA og kom sér fyrir í New York - í rúmlega 4000 km fjarlægð frá sínum fyrsta, óhugnalega glæp.

Alcala flýði nefnilega yfir á austurströnd Bandaríkjanna. Þar innritaðist hann í kvikmyndaháskólann í New York undir nafninu John Berger. Eftir þriggja ára árangurslausa leit að manninum ákvað alríkislögreglan að setja hann á lista yfir tíu mest eftirlýstu glæpamennina.

 

Örfáum mánuðum síðar báru tveir námsmenn við kvikmyndaskólann kennsl á manninn sem John Berger og létu yfirvöld vita. Lögreglan brást við ábendingunni og stór hópur lögreglumanna mætti á heimavist háskólans. Þar var Rodney Alcala svo loks handtekinn hinn 12. ágúst árið 1971.

 

Hann játaði sig sekan um misþyrmingu á barni og var hinn 19. maí árið 1972 dæmdur í það sem kallast óákveðna refsingarlengd, á bilinu eitt til tíu ár. Hugmyndin með þessari gerð refsingar var sú að unnt yrði að endurhæfa fangann með því að beita hann meðferð og mennta hann.

Eitt af fórnarlömbum Alcalas fannst á fáförnum vegi í grennd við Hollywood-skiltið í Kaliforníu.

Ef reynslulausnarnefndin mat sem svo að fanginn hefði læknast af geðkvilla sínum væri unnt að láta hann lausan innan þessa ákveðna refsiramma. Það var svo nákvæmlega það sem gerðist. Árið 1974 mat geðlæknir fangelsisins að ástand Alcalas hefði „batnað til muna“ og manninum var sleppt lausum í ágúst það ár.

 

Hryllingur við Hollywood-skiltið

Rodney Alcala hafði hins vegar ekki breyst vitundarögn. Einungis þremur mánuðum eftir að honum var sleppt hafði hann byrlað 15 ára stúlku eiturlyf gegn vilja hennar.

 

Hann hlaut fangelsisdóm á nýjan leik um jólin 1974 en var sleppt tveimur og hálfu ári síðar fyrir góða hegðun. Rodney var frjáls allra ferða sinna í júní árið 1977. Líkt og áður leið þó ekki á löngu áður en morðfýsnin leitaði upp á yfirborðið á nýjan leik.

Næsta fórnarlamb Alcalas var Jill Barcomb, aðeins 18 ára gömul.

Jill Barcomb var aðeins 18 ára að aldri þegar hún ákvað að yfirgefa heimili sitt í New York og freista gæfunnar í Hollywood ásamt nokkrum vinkonum.

 

Þegar Jill kom til Los Angeles í október árið 1977 var hún spennt að vita hvaða framtíð biði hennar á vesturströndinni. Draumurinn um að slá í gegn í kvikmyndaborginni átti hins vegar eftir að breytast í martröð sem hún átti aldrei eftir að sleppa frá.

 

Hinn 10. nóvember fundu lögreglumenn í hefðbundinni eftirlitsferð lík hennar inni í runna við götuna Franklin Canyon Drive sem hlykkjast upp brekkuna í átt að stóra, þekkta Hollywood-skiltinu.

 

Höfuðkúpa stúlkunnar hafði verið mölvuð með stóru grjóti og á öðru brjósti hennar var djúpt bitfar og minnstu munaði að geirvartan hefði verið bitin af stúlkunni. Lögreglumennirnir sem komu að stúlkunni höfðu aldrei séð jafnmikinn hrylling á glæpavettvangi áður.

Hin 27 ára Georgia Wixted var myrt með þungu höfuðhöggi. Þar á eftir kæfði Alcala hina 31 árs Charlotte Lamb.

DNA-sýni voru óþekkt á þessum tíma en hefðu þau hins vegar verið til, hefðu þau strax komið upp um Alcala.

 

Aðeins mánuði síðar hafði Alcala slökkt blóðþorsta sinn á nýjan leik og hinn 16. desember 1977 fann lögreglan lík hinnar 27 ára gömlu Georgíu Wixted í íbúð hennar í Malibu.

 

Hálfu ári seinna lét raðmorðinginn aftur til skarar skríða þegar hann myrti 32 ára konu að nafni Charlotte Lamb. Illa leikið lík hennar fannst í þvottahúsi fjölbýlishúss sem konan bjó í í bænum El Segundo, einum 25 km suðvestur af Los Angeles.

 

Lögreglan lagði nótt við nýtan dag í leit að morðingjanum sem hafði svo marga glæpi á samviskunni og meðan á öllu þessu stóð birtist Rodney Alcala í sjónvarpsþættinum „Stefnumótaleikur“. Drambið sem hafði komið raðmorðingjanum ógurlega inn í sjónvarpsstofur landsmanna átti jafnframt eftir að verða honum að falli.

 

Gamall sjónvarpsþáttur sannfærði lögregluna

Sumarið 1979 lágu tvær 12 ára gamlar stúlkur, Bridget Wilter og Robin Samsoe, í sólbaði á Huntington-ströndinni í suðurhluta Kaliforníu. Á einhverju stigi birtist þar útitekinn ungur maður með tagl í hárinu og myndavél í höndunum.

Alcala narraði fórnarlömbin með því að segjast ætla að taka af þeim myndir fyrir viðurkennda ljósmyndakeppni.

Hann kvaðst vera að taka myndir fyrir ljósmyndasamkeppni. Þeim virtist hann vera sakleysislegur og leyfðu honum að taka myndir þar sem þær léku sér á ströndinni.

 

Stúlkurnar óraði ekki fyrir að um væri að ræða einn mest eftirlýsta raðmorðingjann í Kaliforníu sem aðeins fáeinum vikum áður hafði myrt fimmta fórnarlamb sitt, hina 21 árs gömlu Jill Parenteau sem hann hafði misþyrmt og myrt í íbúð hennar í bænum Burbank, norðaustur af Los Angeles.

 

Þegar myndatökunni var lokið héldu stúlkurnar tvær hvor til síns heima. Robin Samsoe stökk upp á hjólið sitt og hjólaði í átt að bænum en þar átti hún að mæta í ballett innan skamms. Hún komst hins vegar aldrei á leiðarenda. Þegar kvölda tók tilkynntu foreldrarnir um hvarf hennar.

Eyrnalokkar hinnar 12 ára Robin Samsoes hjálpuðu til við að góma ,,The Dating Game Killer".

Lögreglukonan Marilyn Droz yfirheyrði vinkonu Robin, Bridget Wilter sem lýsti ljósmyndaranum á ströndinni. Marilyn teiknaði mynd af meintum sakamanni og birtist hún í staðarblöðunum. Tvær símhringingar lesenda vöktu sérlegan áhuga lögreglunnar.

 

Lögregluþjónn sem hafði verið skilorðsfulltrúi Rodneys þegar hann fyrst fékk reynslulausn árið 1974 hringdi og sagði að teikningin líktist fyrrum skjólstæðingi sínum. Sömu sögu hafði Donald Haines að segja, bílstjórinn sem hafði kallað til lögreglu þegar Alcala réðst á litlu skólastúlkuna, Tali Shapiro.

 

Rodney Alcala var nú aftur eftirlýstur af lögreglunni, án þess þó að nokkur væri viss um að hann ætti sök á hvarfi Robin Samsoe. Þetta átti þó eftir að breytast þegar lögregluþjónninn Art Droz horfði fyrir algera tilviljun á endursýningu þáttarins „Stefnumótaleikur“ sem Alcala kom fyrir í.

 

Art Droz var kvæntur lögreglukonunni og teiknaranum Marilyn Droz og sat nú og virti fyrir sér manninn með djöfullega brosið sem konan hans hafði teiknað mynd af með hliðsjón af lýsingu vinkonunnar.

Árið 1997 handók lögreglan hinn 54 ára Rodney Alcala.

Droz-hjónin velktust ekki í nokkrum vafa: Alcala hlaut að hafa rænt hinni 12 ára gömlu Robin Samsoe.

 

Gulleyrnalokkar leiddu til dauðarefsingar

Lögreglan handtók Alcala hinn 24. júlí heima hjá móður hans í austurhluta Los Angeles. Skömmu áður hafði lögreglan fundið líkið af Robin Samsoe í skurði í grennd við Huntington-ströndina.

 

Þegar lögregluþjónarnir gerðu húsleit hjá móðurinni fundu þeir m.a. kvittun sem sýndi að Alcala hafði tekið á leigu geymsluhúsnæði í borginni Seattle. Þeir gerðu síðan húsleit í því húsnæði örfáum dögum síðar. Húsleitin tók þrjár klukkustundir því geymslan var sneisafull af dóti.

 

Þegar lögreglan hafði lokið leitinni voru þeir með sönnunargagn í höndunum sem nægði til að sakfella raðmorðingjann, nefnilega gulleyrnalokka sem Robin Samsoe hafði fengið að láni hjá móður sinni og verið með þann dag sem hún fór á ströndina.

„Stefnumótamorðinginn“ lét til skarar skríða í mörgum fylkjum

Meðan á 11 ára löngum glæpaferlinum stóð flutti Alcala oftsinnis til að komast hjá handtöku. Hann gat ekki sleppt því að misþyrma eða drepa, sama hvar hann faldi sig.

Kalifornía

Stefnumótamorðinginn

Nafn: Rodney James Alcala

Fæddur: 23. ágúst 1943

Glæpir: Á árunum milli 1968 og 1979 rændi hann, nauðgaði og myrti í það minnsta 11 stúlkum og konum. Hann er grunaður um að hafa framið eitt hundrað morð til viðbótar, auk þess að hafa framið kynferðisbrot.

Fylki: Washington

Fórnarlamb: Joyce Gaunt

Hvaða ár: 1978

Morð: Þann 17. febrúar 1978 fann lögreglan lík hinnar 17 ára gömlu Joyce Gaunt í hverfinu Seward Park í Seattle. Hún hafði verið kyrkt og henni nauðgað. Alcala hafði skömmu áður tekið á leigu geymslu í Seattle. Lögreglan tók aldrei neinn fastan.

Fylki: Washington

Fórnarlamb: Antoinette Wittaker

Hvaða ár: 1977

Morð: Antoinette Wittaker sem var 13 ára gömul, hvarf frá fósturfjölskyldu sinni með sér eldri manni þann 9. júlí 1977. Viku síðar fann lögreglan lík hennar í dimmu sundi í borginni Lake City. Hún hafði verið stungin til bana með hníf.

Fylki: New York

Fórnarlömb: Cornelia Crilley og Ellen Jane Hover

Hvaða ár: 1971 og 1977

Morð: Árið 1968 flýði Rodney Alcala til New York og lét breyta nafni sínu. Þremur árum síðar fann lögregla lík Cornelíu Crilley í íbúð hennar á Manhattan. Hún hafði verið kyrkt með sokkabuxum og á líkamanum mátti víða sjá bitmerki. Á árinu 1977 fundust bein úr Ellen Hover í blómabeði fyrir framan safn eitt. Rodney viðurkenndi síðar meir að hann hefði myrt þær báðar.

Fylki: Wyoming

Fórnarlamb: Christine Thornton

Hvaða ár: 1977

Morð: Christine Thornton, 28 ára, hvarf sumarið 1977. Jarðneskar leifar hennar fundust ekki fyrr en fimm árum seinna í litlu þorpi í Wyoming. Konan var komin sex mánuði á leið þegar hún lést. Lögreglan fann síðar meir mynd af Christine í fórum Rodneys en hann var aftur á móti ekki dæmdur fyrir morðið á henni sökum ónógra sönnunargagna.

Fylki: Kalifornía

Fórnarlömb: Sjö á aldrinum 8 til 31 árs

Hvaða ár: 1968-1979

Morð: Alcala framdi fyrsta alvarlega glæpinn í Kaliforníu þegar hann nauðgaði og misþyrmdi Tali Shapiro sem aðeins var átta ára gömul. Monique Hoyt, 15 ára, var einnig slegin í rot og henni nauðgað en hún lifði árásina af. Auk þess misþyrmdi hann og myrti minnst fimm aðrar konur en lögreglan óttast að fórnarlömb hans hafi í raun verið langtum fleiri.

Tæpu ári eftir handtökuna var Rodney Alcala svo dæmdur til dauða fyrir morðið á Robin Samsoe og honum komið fyrir á dauðagangi hins alræmda San Quentin-fangelsis. Á þessu stigi óraði yfirvöld ekki fyrir að morðinginn hefði fleiri morð á samviskunni.

 

Lögreglan áttaði sig ekki á óseðjandi þörf mannsins fyrir að myrða fyrr en skömmu eftir aldamótin 2000 þegar farið var að greina erfðaefni sem fundist höfðu á fórnarlömbum gamalla morðmála. Farið var að nota DNA-erfðaefni í stað fingrafara sem stuðst hafði verið við um allan heim í áraraðir til að koma upp um sakamenn.

 

Að endingu tókst lögreglunni að færa sönnur á að Alcala hefði verið í náinni snertingu við ekki færri en fimm morðfórnarlömb á árunum upp úr 1970. Þessar nýju upplýsingar leiddu til nýs sakamáls gegn Alcala. „Stefnumótamorðinginn“, líkt og fréttamenn höfðu nefnt hann, stóð fast á sakleysi sínu en kviðdómurinn dæmdi hann engu að síður sekan. Annar dauðadómur bættist þar með við þann sem hann hafði hlotið 30 árum áður.

„Rodney Alcala er einn af alverstu raðmorðingjunum  Bandaríkjanna“.

Rannsóknarlögreglumaður sem rannsakaði mál Alcala

Rannsóknarlögreglumaðurinn Cliff Shepard starfaði að mörgum þeirra sakamála sem Alcala að endingu var dæmdur fyrir, þökk sé DNA-sýnum. Cliff Shepard velktist ekki í vafa um mikilvægi rannsóknarinnar:

 

„Rodney Alcala er einn af alverstu raðmorðingjunum sem uppi hafa verið í Bandaríkjunum. Sú staðreynd að hann hefur verið á bak við lás og slá frá árinu 1979 hefur alveg örugglega bjargað mörgum mannslífum“.

Árið 2010 yfirheyrði Alcala sjálfan sig með einkennilega afbakaðri röddu í enn einu morðmálinu.

Alcala varði sjálfan sig fyrir rétti

Ný DNA-sönnunargögn urðu þess valdandi að yfirvöldum tókst að ákæra Rodney Alcala fyrir fleiri morð. Raðmorðinginn tók ákvörðun um að verja sig sjálfur við réttarhöldin. Það voru mikil mistök.

 

Árið 2010 var Alcala látinn sæta ábyrgð fyrir morð á fjórum fullorðnum konum, hartnær 30 árum eftir að hann framdi glæpina. Andstætt við það sem átti sér stað á 8. áratugnum gat lögreglan nú sannað að Alcala hefði verið í snertingu við fórnarlömbin skömmu fyrir andlát þeirra.

 

Líkt og Ted Bundy og aðrir raðmorðingjar sem þjáðust af mikilmennskubrjálæði, tók Alcala þá ákvörðun að verja sig sjálfur í þetta sinn. Þegar ríkissaksóknarinn hafði lagt fram ný sönnunargögn var komið að Alcala. Í fimm tíma langri, einkar einkennilegri yfirheyrslu yfirheyrði „verjandinn Alcala“ „sakborninginn Alcala“ frammi fyrir agndofa kviðdómnum.

 

Alcala bar m.a. upp eftirfarandi spurningu:

„Jæja, hr. Alcala, getur þú sagt mér hvar þú varst staddur hinn 20. júní?“ (þegar Robin Samsoe hvarf, ritstj.).

 

Spurningunum svaraði hann með löngum einræðum. Þessi undarlega aðferð hafði ekki jákvæð áhrif á kviðdóminn sem dæmdi hann sekan. Eða eins og saksóknarinn Matt Murphy lýsti því eftir á:

 

„Lykilinn að góðri vörn er að reyna sífellt að átta sig á hvað vekur furðu kviðdómenda og hvað þeir vilja fá útskýrt nánar. Einstaklingar með persónuleikaröskun búa ekki yfir samkennd og eru fyrir vikið ófærir um að setja sig í spor annarra, tilfinningar þeirra og hugsanir. Fyrir bragðið stóð Rodney Alcala sig afleitlega í hlutverki verjandans“.

Alcala lést af náttúrulegum orsökum í fangelsinu sínu í Kaliforníu árið 2021. Hann varð 77 ára gamall.

 

Þremur árum áður birti lögreglan 109 ljósmyndir af konum sem „stefnumótamorðinginn“ hafði ljósmyndað.

 

Yfirvöld binda vonir við að aðstandendum kvennanna takist að bera kennsl á þær og segja til um hvort þeirra hafi hugsanlega verið saknað frá því á 8. áratugnum.

Lesefni um „Stefnumótamorðingjann“:

S. Sands: The Dating Game Killer: The True Story of a TV Dating Show, a Violent Sociopath, and a Series of Brutal Murders, St. Martin’s True Crime, 2011

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN

Screendump fra The Dating Game, Soqui/Getty Images, © Shutterstock, Express/Stringer/Getty Images, © Charles Lanteigne, © San Quentin State Prison, California Department of Corrections and Rehabilitation, © Allen J. Schaben/Getty Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

Lifandi Saga

Uppreisn Castros velti einræðisherranum úr sessi

Lifandi Saga

Ástæðan fyrir falli Tróju

Alheimurinn

Dálítill fróðleikur um eitt helsta afrek mannsandans 

Náttúran

Hér eru aðeins leyfð kvendýr og afkvæmi þeirra: Kvennasambýli hafsins

Náttúran

Hvernig myndast haglél?

Maðurinn

Hvað er stífkrampi?

Alheimurinn

Af hverju eru plánetur og sólir alltaf kúlulaga?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is