Hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, er nú talið að á heimsvísu þjáist á bilinu 10 til 25% fullorðinna af tinnitus eða látlausum hljóðum í eyrum og að ekki sé að finna neina lækningu.
En nú hafa vísindamenn hjá Harvardháskóla athugað nánar hvað kynni að liggja að baki tinnitus og það leiddi þá á slóð heyrnarskerðingar sem ekki uppgötvast með hefðbundnu heyrnarprófi.
Heilavirkni eykst
Rannsóknin leiddi í ljós samhengi milli samfellds eyrnasuðs og glataðra taugatrefja í heyrnartauginni ásamt aukinni heilavirkni.
Vísindamennirnir segja þetta falla ágætlega að þeirri viðteknu skoðun að heilavirkni aukist þegar fólk missir heyrn og að þetta gæti skýrt samfellt suð eða tón í eyra.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá þeim.
Tinnitus-sónninn stafar þá af skemmd í heyrnartauginni en það er hún sem ber boðin frá eyranu til heilans. Þessi sköddun finnst hins vegar ekki við venjulegt heyrnarpróf.
Dulið heyrnatap
Þegar fólk hefur skerta heyrn og fær heyrnartæki getur það líka dregið úr eyrnasóninum. Slík hjálpartæki fær fólk hins vegar ekki þegar það þjáist „einungis“ af tinnitus.
Þegar eyrnasuð hefur verið viðvarandi í meira en þrjá mánuði er það, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, krónískt.
Staðan er þó ekki vonlaus. Það er aðeins takmarkað af trefjum sem glatast og dýratilraunir hafa sýnt að unnt er endurskapa taugatrefjar.
„Ef við náum því að endurgera taugatrefjar í mönnum, getur það ef til vill endurnýjað upplýsingar í heila og þar með dregið úr þeirri ofvirkni sem skapar tinnitus,“ segir Stéphane Maison, prófessor við læknadeild Harvardháskóla og einn vísindamannanna.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Scientific Reports.