Flestir vilja að aðrir sjái þá í jákvæðu ljósi . En hvað getum við gert til að svo megi verða?
Tveir þýskir sálfræðingar, Michael Dufner og Sascha Krause frá háskólanum í Leipzig, telja sig vita svarið.
Þeir rannsökuðu hvernig við vegum og metum aðra við fyrstu kynni. Á grundvelli þessara athugana hafa þeir fundið út hvað það er sem vekur jákvæðar tilfinningar.
Fylgdust með samtölum
Það áhugaverða er að við virðumst ekki taka sérstaklega eftir því hvernig áhrif við höfum á aðra við fyrstu kynni.
Það hefur eitthvað með það að gera að við lesum ekki rétt í hin sögðu og ósögðu orð í samtölunum.
Dufner og Krause tóku því ákvörðun að rannsaka 139 karla og konur, sem höfðu ekki hist áður Þau tóku þátt í röð persónulegra samtala sem hvert stóð yfir í fimm mínútur. Og vísindamennirnir fylgdust með..
Vísindamennirnir mátu viðbrögðin
Þátttakendur voru spurðir um þeirra upplifun af viðkomandi áður en samræðurnar hófust. Matið var byggt á myndum af viðkomandi og stuttri persónulegri kynningu. Að sama skapi þurftu þátttakendur, eftir viðtalið, að leggja mat á hvað þeim fannst um þann sem rætt var við.
Öll samtölin voru tekin upp á myndband sem fjórir óháðir eftirlitsmenn fylgdust með og greindu í kjölfarið. Eftirlitsmennirnir voru beðnir að fylgjast með tvenns konar hegðun. Önnur var hin stjórnsama, sjálfsörugga og örlítið hrokafulla framkoma. Hin hegðunin var kurteis, velviljuð, hlý og vinaleg.
Sýndu viðkomandi áhuga
Það er afgerandi munur á þessu tvennu. Einstaklingar sem eru sjálfmiðaðir og hafa tilhneigingu til að vera örlítið stjórnsamir og sjálfsöruggir í samræðum eiga auðveldara með að ná almennum vinsældum sem tengjast stöðu, virðingu eða aðdáun. Það hefur fyrst og fremst gildi fyrir þá sjálfa.
Einstaklingar sem sýna raunverulegan áhuga á manneskjunum sem þeir tala við vekja á hinn bóginn allt öðruvísi tilfinningar . Þetta kalla vísindamennirnir tveir „einstaka samkennd“ og leiðir í átt til náinnar vináttu, góðra vinnufélaga og hlýrra, rómantískra sambanda.
Samkennd er það sem skilur á milli eðlilegs einstaklings og siðblindingja. Hér má lesa sér til um einkenni þeirra sem eru færir um að finna fyrir samkennd og þeirra sem ekki eru það.
Vingjarnleg hegðun betri
Með hliðsjón á greiningum á rannsókninni eru skilaboð vísindamanna til þeirra sem vilja eiga í góðum samskiptum við aðra:
„Vertu eins vingjarnlegur og mögulegt er. Það getur vel verið að það að sýna sjálfstraust og yfirburði sé til góðs fyrir vinsældir, en ef markmiðið er að mynda náin tengsl og eiga í nánum samskiptum við aðra er mun betra að sýna hinum aðilanum áhuga og einbeita sér að viðkomandi,“ skrifa vísindamennirnir í tímaritið Psychological Science.