Einmitt núna er frábært tækifæri til að sjá innstu og minnstu reikistjörnu sólkerfisins, Merkúr. Þvermál hennar er einungis 4.878 kílómetrar – rúmlega þriðjungur af þvermáli Jarðar og sambærilegt við breidd meginlands Bandaríkjanna.
Vegna smæðar sinnar og nálægðar við sólina er yfirleitt erfitt að fylgjast með Merkúr. Oftast er hún annaðhvort hulin bak við sólina eða staðsett fyrir framan hana, þar sem hún hverfur í skærri birtunni.
Besti tíminn til að sjá Merkúr er því þegar hún er sem lengst frá sólinni frá sjónarhóli Jarðar og það á sér stað þrisvar til fjórum sinnum á ári – t.d. núna.
Vegna nándar sinnar við sólina sést Merkúr annað hvort skömmu fyrir sólarupprás eða rétt eftir sólarlag, eftir því hvoru megin við sólina plánetan er stödd.

Merkúr sannaði sveigju tímarúmsins
Lengi vel reyndu stjörnufræðingar að skýra braut Merkúrs með tilvist óþekktrar reikistjörnu. En svo kom afstæðiskenning Einsteins til sögunnar.
Braut Merkúrs víkur um um það bil 43 bogasekúndur á hverri öld. Afstæðiskenning Einsteins skýrir þetta með því að massi sólarinnar sveigir tímarúmið í kringum sig, sem veldur því að braut Merkúrs breytist.
SVONA FINNURÐU MERKÚR

HVAR OG HVENÆR?
Merkúr sést best 9. mars en verður einnig sýnileg næstu daga á undan og eftir. Hún birtist skömmu eftir sólarlag og er sýnileg í um klukkustund áður en hún hverfur bak við sjóndeildarhringinn.
Horftu til vesturs strax eftir sólsetur. Fyrst munt þú sjá hina skærljómandi Venus, en um 10 gráður neðar og aðeins til vinstri má greina Merkúr.
HVERNIG?
Merkúr er auðvelt að greina með berum augum. Ef þú notar handsjónauka geturðu einnig séð að hún gengur í gegnum fasa líkt og tunglið. Eins og er birtist hún sem hálfmáni.