Tækni
Lestími: 2 mínútur
Gervigreindartölvur geta nú leyst fyrir okkur æ fleiri verkefni og innan tíðar munum við einnig treysta þeim til að keyra bílana okkar.
Ætlunin er að nýta hæfni gervigreindartækninnar til að bæta við sig þekkingu til að gera gervigreindartölvur að betri og traustari bílstjórum en við erum sjálf og þessi þróun er komin vel áleiðis.
Þær geta nú þegar fylgt umferðarreglunum, virt hraðatakmarkanir og skynjað umhverfi bílsins.
Engu að síður telja vísindamenn hjá Microsoft að tölvurnar skorti enn nauðsynlegan eiginleika: Þær kunna ekki að hræðast.
En þetta eiga þær nú að læra.
Í tilraun var tölva látin fylgjast með þátttakendum sem sendir voru í bíltúr í ökuhermi.
Til að fylgjast með óttaviðbrögðum þátttakenda voru þeir látnir bera púlsmæla, enda gefur púlsinn ágæta mynd af óttaviðbrögðum okkar og aðferðin er einföld.
Gervigreindartölvan gat nú tengt einstök atvik í akstrinum við óttaviðbrögð þátttakenda, m.a. þegar þeir enduðu utan vegar í ökuherminum.
Sjálfsnámskerfi eru oft notuð í gervigreindarþróun en þá lærir tölvan af eigin reynslu.
Eftir ökuferðina var tölvan látin aka sömu leið og hún gætti sín og fór afar varlega þar sem hún hafði greint óttaviðbrögð þátttakanda í tilrauninni.
Gervigreindartölva í sjálfkeyrandi bíl verður varkárari eftir að hafa lært hvaða aðstæður koma mannshjartanu til að slá hraðar.
Slysatíðnin lækkaði
Vísindamennirnir báru nú þessa tölvu saman við aðra gervigreindartölvu sem ekki hafði kynnst ótta manna, heldur aðeins lært af eigin mistökum í akstrinum.
Í ljós kom að tölvan sem lært hafði á óttaviðbrögðin, var miklu fljótari að ná öryggi í akstri og þegar þær höfðu báðar náð á sama stig, hafði óttaviðbragðatölvan 25% færri óhöpp að baki.
Birt 21.08.2021
JENS MATTHIESEN