Kringum ítölsku eyjuna Ponza í Miðjarðarhafi lifir smávaxin ormategund. Ormurinn lætur lítið yfir sér, búkurinn er gagnsær en á höfðinu eru tvö risastór, rauð augu.
Nú hefur hópur vísindamanna hjá háskólunum í Lundi og Kaupmannahöfn rannsakað þennan orm og komist að því hvers vegna augun eru svona stór.
Augun eru um tuttuguföld þyngd höfuðsins. Sjón ormsins er því margfalt betri en annarra skyldra tegunda. Sjónina notar hann til að greina smæstu atriði á hafsbotni og fylgjast með hreyfingum.
„Þetta er afar áhugavert, því þessi hæfni er yfirleitt einskorðuð við okkur hryggdýrin, reyndar ásamt liðdýrum og kolkröbbum,“ segir Anders Garm hjá Kaupmannahafnarháskóla í fréttatilkynningu.
„Þetta er í fyrsta sinn sem svo þróuð og nákvæm sjón hefur verið staðfest utan þessara hópa. […] Sjón ormsins er ámóta góð og hjá músum og rottum, jafnvel þótt þetta sé tiltölulega einföld lífvera með sáralítinn heila.“

Þessi litli sjávarormur er með augu sem til samans eru 20 sinnum þyngri en afgangurinn af höfðinu.
Helsta ástæðan fyrir undrun vísindamannanna er sú að svo góð sjón ætti að vera háð góðri birtu en ormurinn er þvert á móti á ferli á nóttunni.
Búkurinn er þar á ofan gagnsær en augun fara hins vegar ekki fram hjá ránfiskum sem eru stærri vexti. Vísindamennirnir telja þess vegna að kostirnir við góða sjón hljóti að vega þyngra en gallinn við svo áberandi augu.
Sér hugsanlega útfjólublátt ljós
Vísindamennirnir aðhyllast þá kenningu að þessi augu greini annars konar ljós en t.d. mannsaugu, nánar tiltekið útfjólublátt ljós. Sé það rétt getur ormurinn greint svokölluð lífræn ljósboð.
Til viðbótar álíta vísindamennirnir að ormurinn sjálfur sé sjálflýsandi og noti ljósið til boðskipta við aðra orma af sömu tegund.
Hefðbundið sýnilegt ljós, t.d. blátt eða grænt myndi laða að sér ránfiska en útfjólublátt ljós gerir orminn ósýnilegan öllum nema öðrum af sömu tegund.
Háþróuð augu
Nánari rannsóknir þarf nú til að undirbyggja kenninguna og reynist hún rétt, getur það skorið úr gömlum þrætum um þróunina.
Sem sé hvort augu hafi aðeins þróast einu sinni í þróunarsögu dýranna eða hvort það hafi þvert á móti gerst oftar.
Augu ormsins teljast vera háþróuð en sú þróun hefur aðeins tekið milljónir ára sem er afar stuttur tími á jarðsögulegan mælikvarða. Það bendir til að augun hafi þróast óháð augum annarra tegunda.
Í samvinnu við Suðurdanska háskólann eru vísindamennirnir nú að athuga hvort uppgötvunin geti nýst í tækni framtíðarinnar.
Heili ormsins er nefnilega fremur einfaldur að gerð en engu að síður fær um að vinna úr upplýsingum frá augunum.
Þetta segir Anders Garm til vitnis um að þessi smái heili hafi þróað úrvinnsluaðgerðir sem gætu komið að notum á tæknisviðinu.
Niðurstöður vísindamannanna birtist í vísindatímaritinu Current Biology.