Náttúran

Sjúkraskrár afhjúpa miskunnarlaust líf risaeðlanna:

Steingervingar af risaeðlum sýna fjölmörg beinbrot, bitför og merki um sýkingar og krabbamein. Steingervingafræðingar nýta sér nú verkfæri læknavísinda til nákvæmra sjúkdómsgreininga sem sýna krankleikana og jafnvel banamein.

BIRT: 03/11/2024

Sue gamla er dauðþyrst. Það er eitthvað sem angrar kjaftinn og hálsinn hjá þessari risavöxnu grameðlu sem haltrar nú í átt að uppþornuðu vatnsbóli. Það virðist vera eins og eitthvað kjötstykki sé fast sem er of stórt til þess að kyngja.

 

Á sínum yngri árum átti Sue ekki við þess háttar vanda að glíma. Þá var risaeðla þessi stórkostlegt dæmi um voldugt rándýr með 13 metra af vöðvum frá trýni að enda halans. Nú er hún orðin um 30 ára gömul og gigtveik og hungrið hefur sorfið að skrokknum. 

 

Það má greinilega sjá hvernig beinin skaga fram undir húðinni og hvert einasta skref skepnunnar er afar sársaukafullt. Við þetta bætast nýjar þrautir í hálsinum sem eru að gera dýrið vitstola. 

 

Svona kunna síðustu stundir grameðlunnar Sue að hafa verið á stað einum í Suður-Dakota, þar sem risaeðlan dó fyrir um 65 milljón árum. Þetta er vitað í ljósi greininga á beinum dýrsins og tönnum.

Heiftarleg sýking í kjálka varð e.t.v. dauðadómur 30 ára gamallar grameðlu samkvæmt rannsóknum.

Sue er ein heilsteyptasta beinagrind risaeðlu og jafnframt elsta og stærsta grameðla sem nokkru sinni hefur fundist. 

 

Það er margoft búið að rannsaka beinin og skrifa lærðar greinar um þau. En með ný verkfæri úr heimi læknisfræðinnar geta vísindamenn nú gert nýjar uppgötvanir – ekki einungis um Sue heldur um fjölmargar aðrar risaeðlur. 

 

Bækluð eins og aldraður boxari

Nákvæmar tölvusneiðmyndir af Sue sýna t.d. hvernig risaeðlan var orðin bækluð á sínum síðustu árum, rétt eins og aldraður boxari sem berst við fjölmarga áverka frá bardögum sínum. 

Sue var sjúk frá toppi til táar

Rannsóknir sýna að þessi 30 ára gamla risaeðla þjáðist af kvillum í næstum öllum skrokknum.

Kjaftur fullur af sýkingum

Í aftanverðum kjaftinum hefur Sue verið með mikla sýkingu sem hefur smám saman brotið kjálkann niður. Sníkillinn Trichomonas kann að hafa verið sökudólgurinn.

Gigt og brotin rifbein

Annar armurinn sýnir merki um þvagsýrugigt sem myndast þegar þvagsýra safnast saman í liðunum. Þessu fylgir mikill sársauki. Auk þess var Sue með mörg gömul rifbeinsbrot og mikla áverka á herðablaði.

Verkir í afturfæti og hala

Leggurinn hefur þykknað mikið, líklega vegna sýkingar sem kann að hafa borist frá kokinu. Í halanum fundust merki um liðagigt.

Nýjustu niðurstöður hafa auk þess leitt af sér kenningu um hvernig dauða Sue bar að. Sé kenningin rétt var banamein T. rex jafn lítið og risaeðlan var stór. 

 

Sníklar stífluðu kokið

Meðal þeirra vísindamanna sem rannsaka steingervinga með gleraugum læknisfræðinnar er Kristin Brink sem er steingervingafræðingur og sérfræðingur í þróun beina og tanna við University of Manitoba í Kanada.

 

Brink hefur grandskoðað þrívíðar myndir frá tölvusneiðmyndatökunni af tönnum Sue og hún telur að banameinið sé að finna í feiknarlegum kjafti dýrsins. Hún hefur ekki ennþá birt opinberlega kenningu sína í vísindatímariti en veitir Lifandi vísindum innsýn í vangaveltur sínar.

Sue, um 30 ára gömul grameðla frá S-Dakota, þar sem eðlan lifði fyrir 65 milljón árum. Holur eftir sýkingar fundust í kjálkanum.

Sue er með nánast heilt sett af tönnum þar sem 58 af 60 hafa varðveist. Sú lengsta er heilir 30,5 cm. En Brink uppgötvaði þrjár litlar tennur í efri kjálka sem voru að vaxa fram þegar Sue dó, því grameðlur skiptu út tönnum allt lífið.

 

En þessar þrjár eru afmyndaðar. Ein er mikið bogin og er með óslétt yfirborð eins og hún hafi verið undir miklu álagi. Hinar tvær hafa gróið saman. 

 

Sjúkdómur Sue finnst hjá fuglum

Brink gat strax útilokað galla í erfðaefni tannanna því ef sú hefði verið raunin væru fleiri tennur afmyndaðar. Þannig að eitthvað hefur hindrað eðlilegan vöxt tannanna.

 

Orsökin kann að vera sníkillinn Trichomonas sem er þekktastur fyrir að framkalla kynsjúkdóm í mönnum. En sníkillinn finnst einnig í goggi fugla og koki og Brink vissi að teymi bandarískra vísindamanna hafði áður sjúkdómsgreint Sue með Trichomonas. 

Holurnar stafa frá ígerðum eftir sýkingar vegna sníkilsins Trichomonas.  Vísindamenn báru holur í tönnum og kjálkum 61 risaeðlu saman við kjálka í ránfuglum sem bera nokkuð sambærilegar sýkingar (efri mynd). 15% þeirra pössuðu vel við bitför og 15% vel við þær holur sem Trichomonas veldur – þar með taldar holurnar í kjálka Sue (neðri mynd).

En hvernig gat sníkillinn valdið svona afmyndun þriggja tanna? Brink rannsakaði myndir af núlifandi fuglum sem Trichomonas hefur herjað á og komst að mögulegri skýringu. Fyrir utan að framkalla sýkingu sem brýtur niður beinvefinn í kjálkanum myndar sýkillinn þekjulag í kokinu og gula vaxkennda hnúða. Kvilli þessi kallast einmitt „gulir hnúðar“.

 

„Í lifandi fuglum getum við séð að slíkir gulir hnúðar geta orðið svo stórir að þeir stífla hálsinn, þannig að fuglinn getur hvorki gleypt fæðu eða drukkið og viðbúið að hann deyi úr sulti og þorsta. Það er mögulegt að hið sama eigi við um Sue,“ útskýrir Brink sem hyggst kanna hugmynd sína betur með því að safna tölvusneiðmyndum af lifandi dýrum með Trichomonas-sýkingu í munnholinu. 

 

„Ef við getum fundið dæmi um afmyndaðar tennur í lifandi dýrum sem stafar af sýkingu, mun það styrkja kenningu mína um að sníklar hafi á endanum drepið Sue“. 

Steingervingafræðingurinn Kirstin Brink heldur því fram að sýkingin í neðri kjálka Sue geti verið ástæðan fyrir dauða grameðlunnar.

Einn galli við þessa kenningu er að ekki var vitað hvort sníkill þessi var uppi á tímum risaeðlanna. En nýlega fundu brasilískir vísindamenn í fyrsta sinn steingerða sníkla í risaeðlubeini.

 

70 örsmáir steingervingar fundust inni í beini úr títaneðlu. Þær tilheyra annarri tegund risaeðla en Trichomonas-fundurinn sýnir að sníklar herjuðu einnig á risaeðlurnar. 

 

Vísindamenn rýna í beinin

Áður fyrr gátu sérfræðingar einungis lýst því sem þeir gátu séð með berum augum eða í gegnum smásjá, þá sjaldan sem þeir fengu leyfi til að saga bút af steingervingi.

 

Á síðustu árum hefur ný tækni gert þeim kleift að rannsaka steingervinga með meiri nákvæmni, t.d. með tölvusneiðmyndatækjum sem þeir fá að nota á sjúkrahúsum. Annar möguleiki felst í svonefndri míkró-sneiðmyndatöku sem veitir mun betri upplausn.

Hægt er að sjá muninn á sýkingu og krabbameini með sneiðmyndatöku.

Þar með er mögulegt að rýna inn í beinin og rannsaka byggingu þeirra og samsetningu tanna og beina án þess að skemma steingervingana. Krabbamein, sýkingar og beinbrot skilja eftir einkennandi merki sem vísindamennirnir geta leitað eftir.

 

Nýjar rrannsóknir á beinum grameðlunnar Sue hafa einmitt verið gerðar með þessum tölvusneiðmyndatökum á sjúkrahúsi. Vísindamenn við náttúrusögusafnið í Berlín unnu með sérfræðingum við háskólasjúkrahúsið Charité í Berlín að slíkri rannsókn.

 

Markmiðið var að útkljá hvort krabbamein eða sýking væri orsök samgróinna hryggjarliða og þykkildis í lærlegg. Aðrir möguleikar höfðu verið útilokaðir í fyrri rannsóknum.

 

Tölvusneiðmyndin sýndi ójafna þykkingu á yfirborði beinsins sem er einkennandi fyrir sýkingu. Og beinið var ekki afmyndað eins og oft er raunin eftir krabbamein.

 

Annar leggur Sue hefur þykknað mikið og er helmingi breiðari en hann ætti að vera. Tölvusneiðmynd (fyrir neðan) sýnir hvernig sýking hefur líklega herjað á útliminn.

En áður en sjúkdómsgreining var sett fram tengdu sérfræðingarnir fyrstir manna tölvusneiðmyndirnar við líkindaútreikninga sem byggðu á ættartré nánustu núlifandi ættingja risaeðlanna, þ.e.a.s. skriðdýra og fugla.

 

Vopnaðir þessari vísindalegu þekkingu skráðu þeir upplýsingar um sýkingar og krabbamein inn í ættartréð fyrir báða dýraflokkana. Greining þeirra sýndi að 3,1% fuglanna og 1,8% skriðdýranna voru með krabbamein.

 

Eins kom í ljós að 32% fugla og 53,9% skriðdýra voru með sýkingu í beinum. Við bættist að ummerki um krabbamein hafa aldrei fundist í beinum grameðla. Líkur benda því til að það hafi verið sýking sem hrjáði Sue.

 

Risaeðlur voru sýklasprengjur

Sue hefur því verið með sýkingu í beinum, liðagigt í hala og sýkingu í fæti. Sýkingin í fætinum kann að hafa borist þangað frá örverum í kjaftinum, þar sem krónísk sýking gæti hafa byrjað annars staðar í skrokknum en dreifst um með blóðrásinni.

LESTU EINNIG

Atferli og lifnaðarhættir ráneðlunnar hafa veitt sýklum bestu aðstæður til að dreifa sér. Ótal bitför í andlitsbeinum grameðla benda til að þær hafi barist innbyrðis hvort heldur var um bráð, maka eða yfirráðasvæði.

 

Tíðir bardagar hafa jafnan sýkingar í för með sér og ekki bætir úr skák að sjálfar voru ráneðlur löðrandi í bakteríum. Þær átu ekki aðeins ferskt kjöt, heldur voru einnig miklar hræætur – og hikuðu ekki við að éta eigin tegundarfélaga. Ráneðlurnar voru því sem gangandi bakteríusprengjur.

 

Vísindamenn við University of Tennessee í BNA hafa rannsakað leifar af „átveislu“ þar sem var að finna meira en 2.000 bein sem voru af bæði plöntuætum og ráneðlunni Allosaurus sem var uppi á Júra-tímabilinu.

 

Ríflega fjórðungur beinanna voru með greinileg bitför og skurðáverka sem kunna að vera vegna árása annarra skolleðla.

 

LESTU EINNIG

Í slíkum átökum hafa bakteríur og aðrar örverur auðveldlega borist frá dauðum dýrum til lifandi. Og bakteríur eiga greiða leið inn í skrokk þeirra í gegnum sár og kjaft í slíkum bardaga.

 

Merki um sýkingar má oft sjá á fótum ráneðla sem þær notuðu til að halda bráðinni fastri og veitt henni svöðusár með hvössum klónum.

 

Ung skolleðla frá Wyoming sem nefnd hefur verið „Big Al“, er gott dæmi um þetta. Rétt eins og Sue var Big Al með ótal meiðsl, en verst hefur verið heiftarleg sýking í kló á öðrum fætinum. Og rétt eins og Sue hefur þetta mein háð Big Al verulega við veiðar.

 

Það að báðar ráneðlurnar hafi náð jafn háum aldri og raun ber vitni telja sérfræðingar vísbendingu um að mögulega hafi þessi rándýr lifað í flokkum og notið vissrar verndar. 

 

Flokkurinn aðstoðaði e.t.v. veikum og meiddum dýrum.

Vitað er að sumar plöntuætur lifðu í flokkum en það er álitamál hvort það hafi átt við um ráneðlurnar.

 

Virtur kanadískur prófessor í steingervingalíffræði telur að sumar tegundir grameðla hafi haldið hópinn saman. Þetta byggir hann á fundi þar sem 26 alberteðlur – ráneðlur sem voru skyldar T. rex en nokkru minni.

 

Dauðu dýrin voru á öllum aldri og létu lífið á sama tíma, kannski í miklu flóði eða skógareldum. Hafi Sue og Big Al lifað í hópum, gætu þau hafa lifað svo lengi vegna þess að þau hafa fengið að éta leifar af bráð tegundarfélaga sinna.

 

Veiðar voru erfiðar heilsunni

Fyrir utan sníklana og sýkingar í beinum var fjölmargt annað sem hrjáði Sue, m.a. meiðsl á herðablaði, merki um vöðvaslit í armi og þrjú brotin rifbein. Sérfræðingar telja þessa áverka mögulega vera eftir ofsafenginn bardaga við stóra bráð.

 

Yfirleitt leita rándýr eftir ungum eða veikburða dýrum en fyrir kemur að þau ráðast á dýr sem veita mikla mótspyrnu. Og ráneðlur réðust einnig á hyrndar risaeðlur sem vógu mörg tonn og voru með hvöss og mikil horn sér til varnar. Eins börðust sumar ráneðlur innbyrðis.

 

Sue með allar sínar sýkingar, beinbrot og aðra kvilla er fyrirtaks fulltrúi stóru ráneðlanna. Það sýnir enn ein rannsóknin sem steingervingafræðingurinn Andrew B. Heckert við Appalachian State Univeristy í BNA vinnur nú að.

 

Ásamt nemendum sínum safnar hann saman gögnum úr vísindagreinum í gagnagrunn um meiðsl og sjúkdóma hjá risaeðlum.

 

Ofsafengið og árásargjarnt líf ráneðla.

Ráneðlur og hyrndar risaeðlur eins og t.d. þríhyrnur reyndust vera með flest líkamsmeiðsli eftir margvíslega baráttu í lífinu.

 

„Bein ráneðlanna endurspegla ofsafengið og árásargjarnt líf,“ segir Heckert.

 

„Nánast allar stóru ráneðlurnar eru með margvísleg meiðsl. Og ef maður hugsar til þess hvað við finnum í raun fáa steingervinga miðað við þann fjölda risaeðla sem hafa lifað og þess að beinagrindurnar eru sjaldnast heilar, hljótum við að ætla að meiðsl þeirra hafi verið mun fleiri.“

 

Þetta á þó ekki við um allra stærstu risaeðlurnar, graseðlurnar. 

 

„Það kann að benda til þess að feiknarleg stærð þeirra hafi varið þær gegn ráneðlunum. Hins vegar finnum við oft merki um gigt sem helst í hendur við stærð þeirra og aldur,“ segir Heckert.

LESTU EINNIG

Rétt eins og aðrir steingervingafræðingar er hann heillaður af þeirri innsýn í líf dýranna sem verkfæri læknisfræðinnar veita – bæði til að öðlast betri þekkingu á sjúkdómum þeirra og nákvæmari vitneskju um atferli þeirra og lifnaðarhætti.

 

Gigt ágerðist með aldrinum

Rannsóknir á beinum Sue greina frá miskunnarlausu lífi sem versnaði aðeins með auknum aldri. Eins og að sníklar, sýkingar og beinbrot hafi ekki verið nóg, fékk Sue enn einn kvilla til að glíma við þegar árin færðust yfir.

 

Merki um þvagsýrugigt hafa fundist í einum útlimi skepnunnar. Kristallar úr þvagsýru safnast þá fyrir í liðum sem veldur miklum sársauka. Slík gigt plagar bæði menn og dýr sem borða mikið rautt kjöt. Í hala Sue mátti síðan greina merki um liðagigt.

 

Í nátttúrunni náðu fá dýr háum aldri og því má áætla að grameðlan Sue hafi lifað farsælu lífi með sín 30 ár – þrátt fyrir allt mótlætið.

 

Núna má sjá yngri útgáfu af Sue í Field Museum í Chicago. 

Nýjar rannsóknir breyta útliti Sue

Nýjustu rannsóknir á beinagrind Sue liggja til grundvallar því að útlit grameðlunnar hefur breyst. Sumir drættir byggja þó á getgátum.

Nýjar varir og krókódílaaugu

Ólíkt fyrri líkönum hefur Sue fengið varir sem geta lokað kjaftinum og hulið tennurnar. Lögun augnanna tekur mið af augum krókódíla.

Þykkari og þyngri skrokkur

Sue hefur gildnað nokkuð, enda komin með aukasett af rifbeinum sem styðja við kviðinn. Þyngd T. rex er nú áætluð níu til tíu tonn í stað sex tonna áður. Nýja líkanið hefur því fengið gælunafnið „Fleshy“.

Hreistruð húð og tígrarendur

Enn er deilt um hvort fullvaxin grameðla hafi verið fiðruð eða með hreistur. Líkansmiðirnir völdu hreistrið. Litarendurnar taka mið af tígrisdýrum og öðrum rándýrum.

Árið 2020 kynnti safnið nýtt og nákvæmara líkan af grameðlunni. Þarna er hún í öllum sínum mikilfengleika og í útstillingunni má einnig sjá hana í fullri stærð að leggja bráð að velli.

 

Þá hefur Sue verið betur á sig komin og ekki plöguð af þeim kvillum sem síðar komu í veg fyrir að ráneðlan gæti nærst.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ANTJE GERD POULSEN

Shutterstock,© Field Museum Chicago/Shutterstock,© Chris Glen/MIT,© Ewan D. S. Wolff et al./PLoS ONE,© Christopher McGarrity,© C. A. Hamm et al./Nature,© Damir G. Martin,© PLoS ONE/Field Museum Chicago/Field Museum Chicago/Shutterstock,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

Lifandi Saga

Uppreisn Castros velti einræðisherranum úr sessi

Lifandi Saga

Ástæðan fyrir falli Tróju

Alheimurinn

Dálítill fróðleikur um eitt helsta afrek mannsandans 

Náttúran

Hér eru aðeins leyfð kvendýr og afkvæmi þeirra: Kvennasambýli hafsins

Náttúran

Hvernig myndast haglél?

Maðurinn

Hvað er stífkrampi?

Alheimurinn

Af hverju eru plánetur og sólir alltaf kúlulaga?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is