Úlfar eru stærsta tegundin innan hundaættarinnar sem lifir villt.
Dýrin veiða bæði ein og sér, svo og í hópum og geta með því móti bæði lagt að velli kanínur og elgi, svo og margar dýrategundir þar á milli.
Fræðimenn frá háskólanum i Oxford hafa hins vegar jafnframt veitt því athygli að úlfar þessir gæða sér einnig á allt annarri fæðutegund í Eþíópíu.
Í rannsókn einni sem birtist í tímaritinu Ecology greina vísindamennirnir nefnilega frá því að þeir hafi séð úlfa leggja sér til munns hunangslög úr blómum.
Ef marka má vísindamennina er þetta í fyrsta sinn sem stórar kjötætur hafa sést gera þetta.
Þekkt meðal minni spendýra
Þó svo að við vitum sennilega flest að býflugur, skordýr og fuglar nærast á og bera blómasafa frá einu blómi til annars þá eru sannarlega einnig til ýmsar aðrar tegundir sem nærast á þessum sæta safa blómanna.
Raunar er þá um að ræða lítil spendýr í líkingu við nagdýr og pokadýr sem með þessu móti geta dreift og frjóvgað aðrar plöntur með frjókornadufti.
Þegar vísindamennirnir frá Oxford háskóla urðu vitni að því að úlfarnir sleiktu hávaxna, fjölæra skrautjurt sem á latínu nefnist Kniphofia foliosa, glöddust þeir meira en lítið.
Fræðimennirnir hafa síðan veitt því athygli að atferli þetta er algengt meðal þessara úlfa.
Sjáðu myndirnar
Abyssiníu-úlfurinn lifir í Eþíópíu í austanverðri Afríku. Þar hafa vísindamenn fylgst með úlfunum sleikja jurtina Kniphofia foliosa í áraraðir.


Abyssiníu-úlfurinn er í hópi afar fárra spendýra sem leggja sér til munns blómahunang.
Getur skipt sköpum fyrir vistkerfið
Auk þess að veita þessu atferli athygli hafa fræðimennirnir jafnframt komist að raun um að úlfarnir eru með heilmikið bómahunang á trýninu eftir að hafa sleikt blómin.
Hópurinn dró fyrir vikið þá ályktun að dýrin kynnu að hafa meiri áhrif á vistkerfið í Eþíópíu en áður var talið og jafnvel stuðlað að því að frjóvga aðrar jurtir.

Úlfategund þessi sem hefur verið kölluð Abyssiníu-úlfur á íslensku (einnig kallaður Eþíópíuúlfur), lifir í austanverðri Afríku. Vísindamenn hafa fylgst með dýrinu í þjóðgarðinum Bale Mountains.
Rannsóknir hafa sýnt vísindamönnunum að samspilið milli dýra og plantna í suðurhluta Eþíópíu er flóknara en áður talið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fræðimannanna.
Vísindamennirnir hafa að sama skapi öðlast meiri vitneskju um þessa tegund sem er sú hundategund sem er í hvað mestri útrýmingarhættu en talið er að einungis um 500 dýr séu eftir.