Henry Ford varð að kyngja fordómafullum viðhorfum sínum til gyðinga. Gandhi felldi breska heimsveldið og Ólympíuleikarnir í Sovétríkjunum voru ekki nema svipur hjá sjón.
Komdu í tímaferðalag þar sem sniðganga hefur snúið valdamenn niður og breytt gangi sögunnar.
Írskur kapteinn veitti sniðgöngu nafn sitt
Írski kapteinninn Charles Boycott sem var kominn á eftirlaun, var árið 1873 ráðinn sem ráðsmaður af jarlinum Arn Erne á vestur Írlandi. Verkefni hans var að sjá um jarðeignir jarlsins og húsakost og hámarka arð af þeim.
Árið 1879 brást uppskeran hjá Írum. Hungursneyð vofði yfir og bágstaddir írskir bændur sem leigðu jarðir hjá jarlinum báðu hann örvæntingarfullir um að lækka leiguna. Jarlinn sá enga ástæðu til að verða við því og Boycott fékk þess í stað það verkefni að hrekja þá bændur af jörðunum sem gátu ekki greitt leiguna.
Meðlimir í Irish National Land League sem unnu að því að bæta hag bænda lögðust til atlögu. Og allt í einu neituðu verslanir að skipta við kapteininn Boycott sem gat heldur ekki fundið nægjanlegt vinnuafl fyrir komandi uppskeru. Það var þannig búið að „boycotta“ hann.
Á meðan athygli landsmanna beindist að Charles Boycott neyddist hann til að leigja vinnuafl frá öðrum stöðum í landinu. Verkafólkið varð að vinna undir vernd hermanna.
Ráðsmaðurinn Charles Boycott lagði óviljandi nafn sitt við sniðgöngu.
Teþjófnaður lagði heimsveldi
Ein frægasta – og hvað skilvirkasta – sniðganga sögunnar átti sér stað í Ameríku árið 1773. Hernaður gegn indíánum og Frökkum hafði tæmt ríkiskassann hjá breskum nýlenduherrum og breska þingið ákvað því að innleiða nýjan skatt í amerískum nýlendum – í fyrstu á allar gerðir pappírs en síðar bættist einnig við málning, gler, blý og síðast en ekki síst te í skattheimtuhópinn.
Skattlagningin varð til þess að nýlendubúar gerðu uppreisn og Bretar þurftu að draga í land. Hætt var við alla skatta nema á te. En nýlendubúar neituðu einnig að sætta sig við þessa ósvinnu. Þeir sniðgengu te frá hinu breska Austur-Indíafélagi og smygluðu þess í stað tei frá hollenskum kaupmönnum.
Sniðgangan náði hámarki með hinu víðfræga „teboði“ í Boston þann 16. desember 1773, þar sem nýlendubúar dulbjuggust sem Mohawk-indíánar og réðust um borð í fraktskipin Dartmouth, Eleanor og Beaver og tæmdu allan farm af tei út í höfnina – 342 kassar í allt. Aðgerð þessi var upphafið á ameríska sjálfsstæðisstríðinu.
Amerískir nýlendubúar vörpuðu bresku tei í sjóinn
Sniðganga endaði með kynþáttalöggjöf
Þegar hin 42 ára gamla Rosa Parks neitaði að standa upp úr sæti sínu fyrir annan farþega í Montgomery Alabama árið 1955 setti hún í gang afdrifaríka keðjuverkun. Rosa Parks var nefnilega blökkukona og samkvæmt lögum bar henni að standa upp fyrir hvítu fólki ef ekki væru laus sæti í strætisvagninum.
Vagnstjórinn varð ævareiður en Parks sat við sinn keik þar til hún var leidd burt af tveimur lögregluþjónum. Handtakan olli miklu uppnámi í samfélagi afró-ameríkana sem söfnuðust saman og lögðu til að strætisvagnafyrirtækið yrði sniðgengið. Aðgerðinni stjórnaði hinn ungi Martin Luther King og þúsundir stigu nú ekki fæti í vagna frá fyrirtækinu. Jafnvel þótt margir þyrftu að ganga marga kílómetra á degi hverjum.
Þessi sniðganga kom illa niður á fyrirtækinu enda voru þrír af hverjum fjórum viðskiptavinum þess blökkumenn. Þann 13. nóvember 1956 tók hæstiréttur BNA ákæruna fyrir og komst að þeirri niðurstöðu að slík mismunun vegna kynþáttar bryti gegn stjórnarskránni og sniðgöngunni lauk um mánuði eftir það. Á þeim tíma var strætisvagnafyrirtækið á barmi gjaldþrots.
Blökkukonan Rosa Parks var handtekin þegar hún neitaði að yfirgefa sæti sitt í strætisvagni fyrir hvíta einstaklinga.
Henry Ford þurfti að éta eigin orð
„Stríð er gyðingum að kenna, ránum þeirra á landsvísu í dáðlausum flokkum …“. Þetta hljómar eins og eitthvað sem gæti hafa verið sagt í Þýskalandi nasista en það var hinn víðfrægi bílaframleiðandi Henry Ford sem mælti svo árið 1919.
Andúð á gyðingum var afar útbreidd í BNA eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og Ford fór framarlega í flokki við að fordæma alþjóðlegt samfélag gyðinga; meðal annars sagði þessi yfirlýsti friðarsinni og auðjöfur gyðinga í bönkum leynt og ljóst hagnast á því að draga stríðið á langinn.
Árið 1918 keypti hann sér eigið tímarit, the Dearborn Independent, þar sem leigupennar hans birtu langar raðir af greinum um „samsæri gyðinga“ en þessum greinum var ekki jafn vel tekið alls staðar. Sífellt fleiri frjálslyndir mótmæltu þessari orðræðu ásamt samfélagi gyðinga í BNA.
Að lokum urðu þessi greinaskrif til þess að bílar Fords voru sniðgengnir á landsvísu og árið 1927 neyddist hann til að leggja niður tímaritið og biðjast afsökunar.
Í langri greinaröð níddist Ford á gyðingum.
Gandhi neitar að kaupa breskt salt
Árið 1930 komst Stóra-Bretland enn og aftur í ógöngur vegna óvinsællar skattlagningar – og enn á ný varð það til þess að ein stærsta nýlenda Breta öðlaðist sjálfstæði.
Árið 1882 bönnuðu Bretar Indverjum að framleiða salt. Þeir áttu að kaupa þetta lífsnauðsynlega steinefni hjá breskum nýlenduherrum. Mannréttindaforkólfurinn Mahatma Gandhi ákvað því að sniðganga einokun Breta á salti og boðaði til „satyagraha“ – borgaralegrar óhlýðni.
Hann og 78 fylgismenn hófu tæplega 400 kílómetra langa göngu til saltvinnslu í strandbænum Dandi. Á þessari 24 daga löngu göngu bættust þúsundir manna í gönguna og þegar Gandhi kom til Dandi (þar sem hann vann sjálfur handfylli af salti) voru fregnir um gönguna og kröfur Indverja um sjálfstæði á forsíðum blaða um heim allan.
Það sem byrjaði sem sniðganga á salti breyttist í allsherjar sniðgöngu á breskum vörum í gjörvöllu Indlandi. Tilraunir Breta til að berja þessa friðsamlegu uppreisn niður með ofbeldi tókust ekki og tök nýlenduherranna á Indlandi linuðust allt þar til Indland varð sjálfstætt árið 1947.
Gandhi var í fararbroddi tæplega 400 kílómetra langrar göngu til sjávar – og þess salts sem Indverjar máttu ekki vinna úr sjónum.
Sniðganga átti að kæfa Ísrael
Sú sniðganga sem staðið hefur hvað lengst yfir hófst árið 1945. Skotmarkið var væntanlegt þjóðríki, Ísrael. Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk var ljóst að mörg hundruð þúsund gyðingar á flótta vildu eignast eigið land í þáverandi Palestínu sem öll nærliggjandi lönd mótmæltu hástöfum.
Til þess að kæfa þessa ungu þjóð í fæðingu ákváðu meðlimaþjóðir Arabíska bandalagsins (Egyptaland, Írak, Jórdanía, Líbanon, Sádi Arabía og Sýrland) að sniðganga öll vensl við Ísrael. Einkum allt það sem varðaði viðskipti við Ísrael. Önnur arabísk lönd voru hvött til þess að fara að dæmi þeirra.
Þegar Ísrael var stofnað sem sjálfstæð þjóð árið 1948 bættist við sniðganga á fyrirtækjum sem ekki voru ísraelsk en stunduðu viðskipti við þjóðina – og jafnvel fyrirtæki sem skiptu við fyrirtæki sem skiptu við þjóðina.
Egyptaland hætti fyrst arabískra landa sniðgöngunni árið 1980 og síðan hafa öll önnur arabísk lönd – fyrir utan Sýrland – í raun hætt sniðgöngu.
Frá árinu 1945 hefur Ísrael verið vinsælt skotmark sniðgöngu, einkum arabískra landa.
Heimurinn droppaði Nestlé
Á árunum 1977 til 1984 var svissneski matvörurisinn Nestlé skotmark sniðgöngu um heim allan.
Nestlé hafði um áraraðir markaðssett þurrmjólk sína, einkum í þriðjaheimslöndum á mjög ágengan máta; m.a. fengu nýbakaðar mæður sýnishorn af þurrmjólk með sér heim eftir fæðinguna og í sumum tilvikum voru læknar grunaðir um að hafa mælt með þurrmjólkinni fyrir greiðslu.
Samtök til hjálpar börnum í BNA bentu á að þetta væri ekki einungis siðlaust heldur einnig skaðlegt fyrir heilbrigði barnanna. Mjólkurgjöf móður er ævinlega betri kostur heldur en tilbúnar vörur, sögðu samtökin. Og mæðurnar höfðu hreint ekki ævinlega aðgang að hreinu vatni sem þurrmjólkin er blönduð í. Eins gátu þær sjaldnast lesið leiðbeiningarnar.
Þegar þetta fréttist stóðu bandarísk samtök fyrir sniðgöngu sem breiddist brátt út um heim allan. Sniðgangan endaði árið 1984 þegar Nestlé neyddist til að fylgja nýrri markaðssetningu sem var ákvörðuð af stofnunum innan Sameinuðu þjóðanna.
Nestlé fékk að kenna á því þegar í ljós kom að matvælarisinn nýtti vafasamar aðferðir til að selja þurrmjólk í löndum þriðja heims.
65 þjóðir sniðgengu ÓL
Árið 1979 réðust sovéskar hersveitir inn í Afganistan. Ári síðar voru Ólympíuleikarnir haldnir í Moskvu. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, Jimmy Carter, fordæmdi innrásina og hvatti aðrar þjóðir til að sniðganga Ólympíuleikana, ef Sovétríkin myndu ekki draga herafla sinn úr Afganistan fyrir þann 23. febrúar 1980.
Það gerðist ekki og BNA ásamt 64 öðrum þjóðum sniðgengu þessa alþjóðlegu leika. Á Norðurlöndum fylgdi Noregur dæmi BNA meðan að Danmörk, Svíþjóð og Finnland og Ísland voru meðal þess 81 lands sem tók þátt.
Þrettán af þátttökuþjóðum sýndu þó samúð sína með Afganistan með því að taka þátt undir Ólympíufánanum en ekki eigin fána. Aðrar þjóðir tóku ekki þátt í opnunarhátíðinni eða þá einungis með einni konu eða manni – fánaberanum.
Meira en 60 lönd voru ekki til staðar á opnunarhátíðinni á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980.
Lestu meira
David Feldman: Boycotts Past and Present: From the American Revolution to the Campaign to Boycott Israel, Palgrave Macmillan, 2019