Stjörnuþokan okkar, Vetrarbrautin, er svo stór að við getum í rauninni tæpast skilið það.
Sólin er aðeins ein af hundruðum milljarða og til viðbótar eru þar sjálfsagt margir milljarðar reikistjarna.
Við vitum hins vegar ekki hvernig Vetrarbrautin myndaðist fyrir svo sem 13 milljörðum ára.
Hópur vísindamanna hjá stjörnufræðideild Max Planck-stofnunarinnar gæti þó hafa nálgast svar við þeirri spurningu.
Með gögnum frá Gaia-geimsjónaukanum hefur þeim tekist að benda á eins konar brot úr stjörnuþokum sem gætu hafa lagt grunn að þeirri risavöxnu spíralþoku sem Vetrarbrautin er nú.
Ótrúlegt að hafa fundið þær
Stjörnufræðingarnir telja að þær tvær frumþokur sem tekist hefur að greina, hafi runnið saman fyrir 12-13 milljörðum ára.
„Það merkilega er að við skulum geta greint þessar ævagömlu grundvallareiningar,“ útskýrir leiðtogi hópsins, Khyati Malhan hjá Max-Planck-stofnuninni í tölvupósti til mediet ilf.com.
,,Vetrarbrautin hefur breyst svo gríðarlega síðan þessar stjörnur mynduðust og við áttum þess vegna ekki von á að við gætum greint þær frá öðrum sem sérstakan hóp – en áður óséð gögn frá geimsjónaukanum gera það mögulegt,“ segir stjörnufræðingurinn.
Teikning af Vetrarbrautinni og tveimur frumþokum sem hún gæti hafa gleypt í frumbernsku. Stjörnur í Shiva stjörnuþokunni eru litaðar grænar og stjörnur í Shakti eru litaðar bleikar.
Þessum tveimur frumstjörnuþokum hafa stjörnufræðingarnir gefið heitin „Shakti“ og Shiva“ og þeir líkja uppgötvuninni við það að fornleifafræðingar hefðu grafið upp rústir gamalla þorpa sem síðar áttu eftir að renna saman og mynda stórborg.
Með Gaia-sjónaukanum hefur ESA þegar tekist að kortleggja sex milljón stjörnur en það er þáttur í því verkefni að skapa þrívíddarkort af Vetrarbrautinni með nákvæmustu mælingum sem fram að þessu hafa verið gerðar á þeim milljörðum stjarna sem mynda Vetrarbrautina.
Það er á grundvelli þess hluta verkefnisins sem þegar er í höfn sem stjörnufræðingarnir byggja uppgötvun sína.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Astrophysical Journal.