Árið 2019 birtu vísindamenn fyrstu myndina af svartholi. Eða, réttara sagt, þeir birtu mynd af lýsandi skífunni í kringum svarthol, þar sem ekkert ljós sleppur frá miðju risans.
Svartholið heitir M87* og er í um 53 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu.
Rannsóknarteymi með stjörnufræðingum frá m.a. Harvard háskóla hefur nú endurskoðað M87* og gert óvænta uppgötvun.
Þeir hafa greint risastóran gammablossa frá hinum gráðuga risa, af stærðargráðu sem erfitt er að átta sig á.
Fylgst var með blossanum með svokölluðum Event Horizon Telescope með aðstoð 25 sjónauka á jörðu niðri.
Vísindamennirnir fengu líka viðbótarhjálp frá m.a. geimsjónaukunum Fermi og Hubble.
Strókar margfalt stærri en svartholið
Á þremur dögum í apríl árið 2018 sáu stjörnufræðingar risastóran blossa frá M87* sem sendi frá sér ljóseindir sem voru mörgum milljörðum sinnum orkumeiri en sýnilegt ljós.
Nánar tiltekið sáu þeir gammablossa í formi stróka frá risasvartholinu, sem er 6,5 milljarða sinnum massameiri en sólin.
Þegar efni fellur í átt að svartholi myndast hringiðu- eða snúningsskífa búin til úr ryki og gasi.

Hin nýja rannsókn á M87* er byggð á gögnum 25 sjónauka og stjörnuathugunarstöðva. Hér eru mismunandi útgáfur af risasvartholinu sem sýndar eru með mismunandi sjónaukum.
Snúningsskífan (aðsópskringlan) hitnar vegna núnings og þyngdarafls og gefur frá sér öfluga rafsegulgeislun í formi röntgengeisla.
Ofurþung svarthol eru einnig umkringd sterkum segulsviðum, sem flytja efni frá snúningsskvífunni til póla svartholsins.
Agnirnar ná nánast hraða ljóshraða og þeytast út í formi háorkugeisla ásamt rafsegulgeislun í formi gammageisla.
Eins og amaba miðað við hval
Það sem var merkilegt við blossann frá M87* var stærð stróksins sem var tugþúsundfalt breiðari en svartholið sjálft.
Stærðarmunur svo marktækur að rannsakendur bera sjálfir muninn saman við stærð lítillar einfruma amöbu samanborið við stærstu steypireyði sem vitað er um.
Stjörnueðlisfræðingar skilja enn ekki alveg hvað eykur hraða agnanna nálægt svartholinu eða í stróknum.
Árið 2019 fengum við að sjá fyrstu myndina af svartholi. Nú ætla vísindamenn að nota risavaxið net sjónauka til að taka upp myndskeið af hinu ofurþunga svartholi í miðju Vetrarbrautarinnar. Það kann að afhjúpa hvað gerist þegar reynt er á ýtrustu þolmörk kenninga okkar um alheim.
Gögn og mynd vísindamannana eru samt þau ítarlegustu af gammablossa hingað til og vonast stjörnufræðingarnir til þess að nýju niðurstöðurnar gagnist okkur til að skilja þessi gríðaröflugu fyrirbæri.
Í þessari nýju rannsókn gátu vísindamennirnir m.a. sýnt frá á að verulegar breytingar urðu á sjóndeildarfleti svartholsins við blossann og telja þeir að breytingarnar kunni að tengjast strókunum.
Niðurstöðurnar birtust í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.