Stjörnur myndast í þéttu skýi sameinda sem mynda ryk og gas. Skýið fellur á endanum saman fyrir eigin þyngd.
Stjarnan tekur að snúast um sjálfa sig og dregur að sér meira efni úr skýinu. Skýið sjálft verður skífulaga, snýst kringum stjörnuna og dregst inn á við.
Slíkar safnskífur hafa hingað til aðeins sést kringum stjörnur innan Vetrarbrautarinnar.
Nú hefur fjölþjóðlegur hópur stjarneðlisfræðinga uppgötvað sönnun fyrir tilvist slíkrar skífu í nágrannaþoku. Hópnum er stýrt frá Durhamháskóla í Bretlandi og uppgötvunin getur uppfrætt okkur betur um myndun sólkerfa. Þetta kemur fram í vísindatímaritinu Nature.
Geislar afhjúpa leynda skífu
Þessi nýfundna stjörnuskífa er í Stóra Magellanskýinu í ríflega 163.000 ljósára fjarlægð og það snýst um stjörnuna HH 1177 sem annars er umlukin miklu gasskýi.
Gegnum VLT-sjónaukann sem er í eigu European Southern Observatory, tókst vísindamönnunum fyrst að staðsetja kröftuga geislun frá stjörnu.
Slík geislun er algeng við stjörnumyndun og stjörnufræðingarnir gátu því giskað á að kringum þessa stjörnu hlyti líka að vera skífa.
Til að sannreyna þessa tilgátu notuðu þeir hinn risavaxna ALMA-útvarpsbylgjusjónauka í Chile en hann er gerður úr alls 66 útvarpsloftnetum sem saman mynda þennan sjónauka.

Stjörnufræðingar uppgötvuðu skífuna þegar þeir skoðuðu stjörnuna HH 1177 í þéttu gasskýi með Very Large Telescope sjónauka ESO (vinstri). Þar gátu þeir séð tvo geisla skjótast út frá stjörnunni (miðju), sem gæti þýtt leynda skífu. Þessi kenning var svo staðfest þegar þeir gátu loksins fylgst með skífunni (hægri) með Atacama Large Millimeter/submillimeter Array útvarpssjónauka í Chile
„Þegar ég sá í fyrsta sinn sannanir fyrir tilvist þessa snúningsfyrirbæris í ALMA-gögnunum, átti ég erfitt með að trúa því að við hefðum raunverulega fundið fyrstu safnskífuna utan Vetrarbrautarinnar,“ segir Anna McLeod hjá Durhamháskóla í fréttatilkynningu.
„Við vitum að safnskífur eru nauðsynlegar fyrir myndun sólkerfa í Vetrarbrautinni og hér sjáum við í fyrsta sinn beina sönnun þess að það gildir líka í öðrum stjörnuþokum.“
Almennt er erfitt að greina safnskífur við nýjar stjörnur, þar eð umhverfið hylur þær iðulega, ekki síst þegar við leitum þeirra í okkar eigin stjörnuþoku, segja vísindamennirnir.
„Það er tvímælalaust meira spennandi að finna safnskífu í nágrannastjörnuþoku en okkar eigin vegna þess að við álítum aðstæður þar líkari því sem gerðist snemma í sögu alheimsins,“ segir Megan Reiter hjá Riceháskóla, sem einnig tók þátt í verkefninu, í viðtali.
Ótrúlegur hiti og orka eru til staðar þegar ný stjarna fæðist. Við útskýrum ferlið hér í fjórum einföldum þrepum.
„Þetta er eins og að geta opnað glugga og séð hvernig stjörnur mynduðust fyrr í þróunarsögu alheimsins.“
Þegar slíkar stjörnur eru fullmyndaðar taka nefnilega að myndast plánetur, tungl og halastjörnur úr efni í safnskífunni og þannig verður til heilt sólkerfi.