5 minnisverð tíðindi frá tækniárinu 2021

Elon Musk, rafbílar og metaheimur: Hér eru merkustu atburðir, persónur og framþróun sem munu sitja í minninu úr heimi tækninnar árið 2021.

LESTÍMI: 9 MÍNÚTUR

 

Árinu 2021 er nú alveg að ljúka. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár á tæknisviðinu – kannski það viðburðaríkasta lengi.

 

Hér eru fimm atriði sem verða okkur minnisstæð frá árinu 2021.

 

1. Elon Musk

 

Við byrjum á toppnum: Elon Musk

Árið 2021 hefur svo sannarlega verið eftirminnilegt fyrir þennan fimmtuga athafnamann, sama hvernig á er litið.

 

Þúsundir fyrirsagna eiga rætur í starfsemi hans og það eru varla margir eftir í hinum vestræna heimi sem ekki vita lengur hver maðurinn er.

 

Árið var rétt að hefjast þegar stofnandi Tesla og SpaceX varð auðugasti maður heims, þegar hann tók þann titil af Jeff Bezos um skamma hríð.

 

En hlutabréf í Tesla hafa hækkað um 40% á árinu og Musk hefur nú staðfastlega tekið sér stöðu sem sá ríkasti. Auðævi hans eru metin á 300 milljarða dollara. Það er hærri upphæð en nokkru sinni fyrr hefur verið í eigu nokkurs einstaklings.

 

En það sem fyrst og fremst skapar Elon Musk sérstöðu eru þó áhrif hans. Með orðum sínum og verkum getur hann á örskömmum tíma komið milljónum manna til að breyta atferli sínu.

 

Lestu einnig:

Þegar Musk tilkynnti fyrr á árinu að Tesla hefði keypt Bitcoin fyrir 1,5 milljarða dollara og að innan tíðar yrði hægt að kaupa sér Teslu fyrir Bitcoin, hækkaði verðgildi rafmyntarinnar um 20% á einum sólarhring.

 

Twitterfærslur Musks hafa líka ýtt undir merkileg stökk rafmyntarinnar Dogecoin sem er minna þekkt.

 

Notendum skilaboðaþjónustunnar Signa fjölgaði líka svo um munaði eftir að Musk skrifaði „use Signal“. Og þegar hann kom fram sem gestur á nýja hljóðmiðlinum Clubhouse fjölgaði notendum sömuleiðis nánast eins og sprenging hefði orðið.

 

Auk vinnu sinnar sem forstjóri Tesla (og tómstundaiðjunnar sem áhrifavaldur á Twitter) er Elon Musk líka í forsvari fyrir geimferðafyrirtæki sitt, SpaceX, netgervihnattafyrirtækið Starlink og gervigreindarfyrirtækið Neuralink. Hvert á sinn hátt vinna öll þessi fyrirtæki með byltingarkennda tækni.

 

Það verður sem sagt ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að Elon Musk stendur núna á efsta toppi tæknibylgjunnar. Samtímis þarf þó að muna að bjartsýnistímasetningar hans ganga alls ekki alltaf eftir.

 

2. Rafbílar

Model 3 varð fyrsti rafbíllinn sem náði því að verða mesti seldi bíll í Evrópu. Það gerðist í september 2021.

 

Við höldum okkur á einu þeirra sviða þar sem Elon Musk hefur gríðarleg áhrif.

 

Rafbílar eru trúlega þær tækniframfarir sem náð hafa mestum vinsældum bæði almennings og mestri viðskiptaveltu á árinu 2021.

 

Nánast allir bílaframleiðendur hafa á þessu ári sett hreinræktaða rafbíla á markað og neytendur taka þeim opnum örmum.

 

Í allri Norður-Evrópu eru sett ný sölumet og að sjálfsögðu eru stærstu metin slegin í rafbílalandinu Noregi.

 

Síðustu fjóra mánuði hafa rafbílar verið meira en 70% allra seldra bíla í Noregi. Í september var hlutfallið 77,5%.

 

Og í sama mánuði varð rafbíll (Tesla Model 3) í fyrsta sinn mest seldi bíll Evrópu.

 

Loftslagsvitundin er ekki eina ástæða þess að fólk skiptir yfir í rafbíl, heldur hafa margir rafbílar farið fram úr bensín- og dísilbílum í tækni.

 

Auk sneggra viðbragðs eru rafbílar auðveldari í akstri, þar eð aldrei þarf að skipta um gír. Einn fótur dugar líka í mörgum rafbílum þar eð bíllinn hemlar sjálfkrafa þegar fóturinn er tekinn af inngjöfinni – eins fótstigsakstur kallast þetta eða „one pedal drive“.

 

Til viðbótar er unnt að bæta nýjum eiginleikum við rafbílinn með hugbúnaðaruppfærslum og mörgu í bílnum er hægt að stjórna gegnum app.

 

Á árinu 2021 hafa rafbílarnir nánast orðið að tískufyrirbrigði, nokkuð sem hinir allra bjartsýnustu hefðu tæpast getað ímyndað sér fyrir bara tveimur til þremur árum.

 

3. Rafmyntir

Bitcoin hefur á árinu 2021 orðið ein af 10 verðmætustu fjárfestingum heims.

 

Rafmynt er líka fyrirbrigði sem hefur skapað gríðarmargar fyrirsagnir á árinu 2021.

 

Gengi margra vinsælustu rafmyntanna hefur farið með himinskautum síðasta árið og heildarverðmæti Bitcoin í umferð fór á árinu yfir 1.000 milljarða dollara.

 

Bitcoin telst nú meðal 10 verðmætustu eigna – á þeim lista hafa áður verið fyrirtæki á borð við Apple og Microsoft ásamt eðalmálmum, svo sem gulli og silfri.

 

Þróunin á árinu 2021 hefur leitt í ljós að rafmyntir njóta æ meiri viðurkenningar, jafnt hjá gamalgrónum fyrirtækjum, fjárfestum, greiðsluþjónustufyrirtækjum og venjulegu fólki.

 

Þótt rafmyntir séu enn sem komið er aðallega fjárfesting, hafa þær á árinu líka verið mikið notaðar til að kaupa rafræn listaverk.

 

Bjartsýnilegustu tilraunina með Bitcoin er að finna í El Salvador sem á árinu varð fyrsta ríki í heimi til að viðurkenna Bitcoin sem gjaldgenga mynt, við hlið dollars. Vegna þess hve mikið gengi rafmyntarinnar sveiflast verður þetta þó að teljast afar áhættusöm tilraun.

 

Rafmyntir eiga þó enn við mikinn vanda að etja vegna þess hve mikill koltvísýringur er losaður við að viðhalda þessum myntum með „námugreftri“ í gagnaverum.

 

Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að rafmynt og sá „blockchain“-grunnur sem hún hvílir á náði ákveðnum hátindi árið 2021. Þessa tækni telja margir verða hryggjarstykkið í því fyrirbrigði sem kallað hefur verið „web3“ – sem sagt þriðja kynslóð alnetsins.

 

4. Metaheimurinn

Bæði Mark Zuckerberg og Bill Gates álíta að innan fárra ára verði flestir fjarfundir haldnir í hálfsýndarveruleika.

 

Flestir þekktu til Elons Musk, rafbíla og rafmynta áður en árið 2021 gekk í garð en ekki margir höfðu heyrt getið um metaheiminn.

 

Metaheimur er framtíðarsýn um það hvernig alnetið breytist innan tíðar úr fyrirbrigði sem við einfaldlega skoðum á skjánum í sýndarheim sem við stígum inn í með hjálp sýndarveruleikagleraugna.

 

Í sem stystu máli er hér átt við þrívíðan sýndarheim á netinu og sum af stærstu tæknifyrirtækjunum veðja nú stórum fjárhæðum á að þetta verði að veruleika.

 

Ötulasti talsmaður metaheimsins er sennilega Mark Zuckerberg. Hann lýsti því yfir á árinu að hann trúi því af fullri alvöru að metaheimurinn verði framtíðin í fyrirtæki sínu. Reyndar er Zuckerberg svo trúaður á þetta að hann hefur þegar breytt nafni fyrirtækisins að baki Facebook í Meta.

 

Microsoft er meðal ýmissa annarra tæknifyrirtækja sem einnig hafa tilkynnt um mikla möguleika sýndarveruleikanetsins. Nú síðast lét stofnandi fyrirtækisins, Bill Gates, hafa eftir sér að hann álíti að flestir fjarfundir verði haldnir í sýndarveruleika innan 2-3 ára.

 

Wall Street-blaðakonan Joanna Stern prófaði metaheiminn í 24 tíma. Mat hennar má sjá hér.

 

Enn vantar að vísu dálítið tæknilegt skref til að metaheimurinn geti hlotið almenna útbreiðslu.

 

Traustar heimildir segja þó að Apple muni kynna fyrstu sýnargleraugu sín árið 2022. Mark Zuckerberg hefur líka tilkynnt að fyrirtæki hans muni í árslok 2022 kynna höfuðtól með tækni næstu kynslóðar.

 

Hvort þetta nær almannahylli eigum við eftir að sjá. En það var alla vega á árinu 2021 sem hugmyndin um metaheiminn fékk fyrir alvöru byr undir vængina.

 

5. Ferðaþjónusta í geimnum

Jeff Bezos og bróðir hans skemmta sér í þyngdarleysi.

 

Og að lokum skulum við líta á geimferðaþjónustu.

 

2021 var nefnilega árið þegar fyrst var farið með almenna borgara út fyrir mörk þyngdaraflsins.

 

Fyrsti geimferðalangurinn varð Richard Branson, stofnandi Virgin-fyrirtækisins sem skotið var á loft með eldflaug síns eigin fyrirtækis, Virgin Galactic.

 

Fáum dögum síðar var komið að stofnanda Amazon, Jeff Bezos, að upplifa nokkrar mínútur í þyngdareysi áður en geimfarið sneri aftur til jarðar.

 

Bezos nýtti til þess New Shepard-eldflaug geimfyrirtækis síns, Blue Origin.

 

Blue Origin stóð líka fyrir einni athyglisverðustu geimferð ársins.

 

William Shatner, vel þekktur fyrir hlutverk sitt sem Kirk kapteinn í sjónvarpsþáttaröðinni Star Trek, varð í október elsti maðurinn sem farið hefur út í geiminn, 90 ára að aldri.

 

William Shatner varð elstur þeirra sem farið hafa út í geiminn, níræður að aldri.

 

Það má auðvitað með fullum rétti spyrja sig hvort það sé forsvaranlegt á tímum mikillar loftslagsvár, að skjóta heilli eldflaug út í geiminn til þess eins að flytja þangað fjóra einstaklinga, aðeins þeim til persónulegrar ánægju.

 

En með tækniframfarirnar í huga, verður þessi geimtúrismi alveg örugglega meðal þess sem okkur verður minnisstætt frá árinu 2021.

 

 

Birt: 21.12.2021

 

 

NICOLAI FRANCK

 

 

Lestu einnig:

(Visited 650 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR