Skrifað af Orka og faratæki Tækni Uppfinningar

Kjarkmikill flugmaður kom Frökkum á óvart

Brasilíumaðurinn Alberto Santos-Dumont (1873-1932) var í hópi helstu frumkvöðla flugsins. Strax á barnsaldri hreifst hann af hvers kyns tækni og dáði bók Jules Verne, Umhverfis jörðina á 80 dögum. Flugdraumurinn heltók Alberto litla þegar hann horfði upp í himininn heima í Brasilíu.
„Ég lá í forsælunni á veröndinni og horfði upp í brasilíska himininn þar sem fuglarnir fljúga svo hátt og svífa af svo miklum þokka á breiðum vængjum, og þar sem skýin stíga léttilega upp á hreinni dagsbirtunni, þannig að það er ekki hægt annað en að fyllast þrá eftir slíku rými og frelsi,“ skrifaði hann síðar á sjálfsævisögu sinni.

Á árunum 1892-1910 bjó Alberto Santos-Dumont í París og þar byggði hann og flaug margvíslegum stýranlegum loftbelgjum og loftskipum. Hann varð fyrstur til að sýna fram á að unnt væri að hafa góða stjórn á slíkum farartækjum og 1901 vann hann til verðlauna fyrir að fljúga umhverfis Eiffelturninn í loftbelg. Það afrek ávann honum heimsfrægð. En loftbelgir og loftskip dugðu ekki þessum uppfinningasama Brasilíumanni og 1906 smíðaði hann flugvél sem hann flaug 61 metra þann 23. október. Það var í fyrsta sinn í Evrópu sem tæki, þyngra en loft, hóf sig til flugs og þetta varð fyrsta opinberlega viðurkennda vélflugið í Evrópu. Fyrir framan stóran hóp undrandi áhorfenda, sýndi Santos-Dumont að flugvél gæti tekið sig á loft, flogið og lent fyrir eigin vélarafli. Skömmu síðar, þann 12. nóvember 1906, hélt hann sömu flugvél á lofti í 21,5 sekúndur, lagði að baki 220 metra og setti þar með heimsmet.

Síðasta smíði þessa frumkvöðuls var Demoiselle-einþekjan, léttvigtarflugvél með aðeins eitt vængjasett, öfugt við tvíþekjurnar sem áður höfðu verið í fararbroddi. En 1910 fékk þessi mikli hugmyndasmiður heilasigg og sneri heim til Brasilíu fáum árum síðar. Þar lést hann 1932, alvarlega sjúkur og að öllum líkindum fyrir eigin hendi.

Subtitle:
Old ID:
1234
1052
(Visited 12 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.