Skrifað af Orka og faratæki Tækni

Vatnaplanta skapar skipum nýtt yfirborð

Tækni Innan tíðar verður hægt að klæða stór skip þannig að núningsmótstaða verði minni og það getur aftur leitt til allt að 10% orkusparnaðar. Það eru vísindamenn m.a. hjá Rheinische Friedrich-Wilhelm-háskólanum í Bonn í Þýskalandi sem nú eygja þessa von eftir að hafa rannsakað vatnaburknann Salvinia molesta, sem hrindir vel frá sér vatni.

Vísindamennirnir ætluðu sér að afhjúpa leyndardóminn að baki þessum afar vatnshrindandi eiginleika. Blöð burknans eru þakin eins konar loftfilmu, sem veldur því að blöðin haldast þurr, jafnvel þótt þau séu undir vatnsborðinu í margar vikur. Vísindamennirnir komust að því að þessari þunnu loftfilmu er haldið fastri við blaðið með um 2 mm löngum hárum sem þekja yfirborðið. Hárin sitja þétt, fjögur saman, og lögunin minnir á þeytara. Hárin eru þakin vaxkristöllum sem hrinda frá sér vatni og gera hárunum kleift að halda loftfilmunni kyrri.

Í rafeindasmásjá sáu vísindamennirnir sér til undrunar að hárendarnir voru ekki vatnshrindandi eins og ætla hefði mátt, heldur „límdust“ þvert á móti við vatnsdropa sem dreginn var yfir þá. Hárin sjálf svignuðu uns þau slepptu vatnsdropanum skyndilega. Þegar vatnið límist þannig örlítið við, verður erfiðara fyrir loftið að komast burtu, segja vísindamennirnir. Þeir telja nú að blaðhár burknans geti orðið fyrirmynd að nýrri gerð yfirborðs sem mæti minni vatnsmótsstöðu, yfirborði með innilokaðri loftfilmu sem þoli mikið álag frá vatninu, sem myndast t.d. af fraktskipum á siglingu.

Subtitle:
Vatnshrindandi burkni sáir umhverfisvænum hugmyndum
Old ID:
1277
1096
(Visited 15 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.