Inngangurinn að helvíti

Í miðri Karakum-eyðimörkinni, nærri þorpinu Darvaza í Túrkmenistan, er að finna logandi gíg sem sést úr margra kílómetra fjarlægð að nóttu til. Gígurinn er ríflega 60 metrar á breidd og 20 metra djúpur og þar hefur eldur logað látlaust svo áratugum skiptir. Í næsta nágrenni við gíginn er mjög sterk brennisteinslykt, en íbúar á staðnum kalla gíginn „innganginn að helvíti“.