Eðlisfræðingar leita ennþá að hreinu ekkerti

Leitin að hinu algjöra tómarúmi, þar sem ekkert efni er að finna og engin orka eða kraftar ráða ríkjum, hefur staðið í brátt þrjú þúsund ár. Heimspekingar og eðlisfræðingar hafa á þessari vegferð leitast við að laða fram algjört tómarúm bæði í reynd og í kenningum – en það virðist vera eins og náttúran stríði gegn þeim. Engu er líkara en að um leið og það virðist birtast hjá fræðimönnum fyllist það upp af nýjum uppgötvunum og betri skilningi.

Ekkert – fyrirfinnst ekki

Rannsóknir á neindinni hafa löngum verið drifkraftur í skilningsleit okkar á tilverunni. Vísindi nútímans greina frá því að lofttæmi sé í raun eitt ólgandi orkuhaf draugalegra öreinda, sem rétt kíkja við í sviphendingu.