Hvers vegna misstu mennirnir feld sinn?

Maðurinn er eini meðlimur í ættbálki okkar, prímötum, sem ekki er þakinn feldi. Þannig hefur þessu þó ekki ætíð verið háttað. Sem dæmi má nefna að gæsahúð er leifar frá því þegar við vorum loðin. Feldurinn veitir einangrun gegn kulda og vörn gagnvart raka, höggum, áverkum og útfjólubláum geislum sólar. Hvernig skyldi þá standa á því að forfeður misstu þennan snilldarlega útbúnað sem tekið hafði milljónir ára að þróa? Lifðum við upprunalega í vatni og hefti feldurinn sundgetu okkar? Er hugsanlegt að feldurinn hafi orðið að lúta í lægra haldi fyrir afkastamiklu kælikerfi okkar, sem ruddi brautina fyrir þróun hitanæmasta líffærisins, þ.e. heilans? Enginn skortur hefur verið á kenningum en nú hallast vísindamenn helst að því að nekt okkar sé þannig til komin að hún gerir okkur betur til þess fallin að standa af okkur árásir sníkjudýra.