Vissir þú að fyrsti tebollinn var drukkinn fyrir slysni? Eða að í breskum testofum á 18. öld gat verið sauðataðsbragð af teinu? Eða þá að telaufin urðu svo eftirsótt á 18. öldinni að einn tebolli gat kostað heil daglaun?
Grunnur
Heiti: Te. Fyrstu þekktu leifar drykkjarins frá því um 400 f.Kr.
Þekkt fyrir: Te er þekkt fyrir bragðið og róandi verkun.
Vissir þú: Að te var selt á uppboðinu London Tea Auction fram til 1998. Hvert uppboð stóð yfir meðan kerti brann. Þannig var komist hjá því að uppboðin stæðu í marga daga.
Allt te er seyði af þurrkuðum laufum plöntunnar Camellia sinensis. Græn, gul og svört afbrigði verða til við forvinnsluna.
Hver drakk fyrsta tebollann?
Tedrykkja er kínversk uppfinning – samkvæmt gamalli sögn frá árinu 2737 f.Kr., þegar Shen Nung keisari drakk te fyrir slysni.
Það óhapp varð, þar sem keisarinn sat í garðinum sínum með bolla af heitu vatni, að lauf af runnanum, Camella sinensis, féllu niður í bollann áður en keisarinn drakk úr honum.
Keisarinn tók ekki eftir litabreytingunni á vatninu en drakk úr bollanum og uppgötvaði að telaufin höfðu gefið vatninu bragð sem honum þótti frískandi. Samkvæmt sögunni hélt keisarinn áfram að drekka te, því hann áleit að drykkurinn myndi verka sem móteitur ef einhver laumaði eitri í matinn hans.
„Þeir neyta ákveðins drykkjar sem gerður er í katli með heitu vatni og drekka þetta svo heitt sem þeir framast þola.“
Hollendingurinn Jan Huygen van Linschoten um tedrykkju Kínverja 1598.
Söguna er auðvitað ógerlegt að sannreyna og elstu minjar sem fornleifafræðingar hafa fundið um tedrykkju uppgötvuðust í skál frá því um 400 f.Kr. Í skálinni voru leifar af telaufum.
Drykkurinn var í upphafi ekki notaður sem nautnalyf heldur til lækninga og tilreiðslan var allt öðruvísi en nú tíðkast. Telaufin voru pressuð saman í köku sem svo var bökuð. Að því loknu var kakan skorin í smátt og sjóðandi vatni hellt yfir. Sumir bættu við lauk, engifer, appelsínusafa eða öðru til að bragðbæta drykkinn.
Þrátt fyrir þessa flóknu aðferð varð drykkurinn fljótlega vinsæll.
Á dögum Tang-keisaraættarinnar 618-917 ríkti mikil velsæld í Kína og tedrykkja breiddist út um mestan hluta ríkisins. Og á áttundu öldinni náði teið líka til Japans, Tíbets og Indlands.
Ef þú situr stóran hluta vinnudagsins eru miklir heilsufarsávinningar við að drekka kaffi. Og því meira, því betra. Þetta kemur fram í stórri rannsókn.
Hver flutti fyrst te til Evrópu?
Líklega er fyrsta lýsing Evrópumanns á tei skrifuð af portúgalska skipstjóranum Jorge Alvarez.
Árið 1547, fjórum árum eftir að portúgölsk skip voru farin að sigla til Japans, hitti hann trúboða, Jesúítaprest og honum til hjálpar skrifaði Alvarez lýsingu á siðum Japana.
„Á sumrin drekka þeir heitt byggvatn og á veturna drykk sem gerður er úr jurtum en ég hef reyndar ekki komist að því hvaða jurtir þeir nota,“ skrifaði hann m.a. og hefur að öllum líkindum átt við te. Nokkrum áratugum síðar, 1598, lýsti hollenski ferðalangurinn Jan Huygen van Linschoten drykkjuvenjum Kínverja og Japana.
„Þeir neyta ákveðins drykkjar sem gerður er í katli með heitu vatni og drekka þetta svo heitt sem þeir framast þola,“ skrifaði hann í bók sinni sem á ensku heitir Discours of Voyages. Stuttu seinna, árið 1606 tóku kaupmenn að flytja te með sér frá Kína.
Tedrykkja náði vinsældum í Hollandi og breiddist þaðan til annarra landa. Te var á þeim tíma dýr munaðarvara. Í Englandi kostuðu 450 grömm heilt pund sem þá samsvaraði vikulaunum handverksmanns. Verðið olli því að einungis hinir ríku gátu leyft sér slíkan munað.
Eins og til að undirstrika þetta var te borið fram í sérstaklega skreyttum tekönnum. Til dæmis áttu sólkonungurinn Loðvík 14. og drottning hans, María Theresa, gullskreyttar tekönnur.
Hvenær var svart te vinsælast í Evrópu?
Te náði almennum vinsældum í Evrópu í lok 17. aldar. Á þessum tíma komust ýmsar austrænar vörur í tísku og tedrykkja var álitin bæði framandleg og hátignarleg. Áður en teið barst til Evrópu hafði drykkurinn þó tekið verulegum breytingum.
Á tíma Ming-keisaraættarinnar (1368-1644) áttuðu kaupmenn sig á því að grænu telaufin voru viðkvæm og rotnuðu auðveldlega í langflutningum. Væru blöðin brotin og látin drekka í sig súrefni fyrir þurrkun héldu þau sér mun betur.
Þetta stafar af náttúrulegum áhrifum súrefnis á blaðfrumurnar. Eftir súrefnistökuna varð drykkurinn dekkri og bragðið mildara.
Terunninn eftirsótti fannst aðeins í Kína fram á 18. öld. Hér voru blöðin tínd úr allt að þriggja metra háum runnum.
Af hverju var te blandað sauðataði?
Á 18. öld fengu vel stæðir gestir á tehúsum te með dálitlu aukabragði – af sauðataði.
Ástæðan var nýr skattur sem stjórnvöld höfðu lagt á te til að auðvelda sér að standa undir margvíslegum útgjöldum ríkisins.
Smyglarar áttu í kjölfarið góða daga en teið sem þeir smygluðu var oft lélegt að gæðum og þeir brugðu á það ráð að mylja lambaspörð og blanda í teið en þau gátu gefið teinu hinn eftirsótta, dökkbrúna lit.
Í lok 18. aldar var þessi ólögmæti innflutningur kominn upp í 32 tonn sem var talsvert meira en þau 22 tonn sem flutt voru inn eftir löglegum leiðum. Smyglinu lauk loks 1784, þegar stjórnvöld gáfust upp og lækkuðu skattinn.
En þá hafði teskatturinn þegar valdið ríkinu ómældum skaða. Íbúar bresku nýlendnanna í Ameríku þverneituðu að borga skattinn á þeim forsendum að þeir ættu engan fulltrúa á breska þinginu og gætu því ekki haft nein áhrif á lagasetninguna.
Þann 16. desember 1773 mótmæltu þeir með því að kasta heilum skipsfarmi af tei í sjóinn í höfninni í Boston. Atburðurinn fékk heitið Boston Tea Party og leiddi af sér frelsisstríð og sjálfstæði Bandaríkjanna þremur árum síðar.
Á 18. öld var tedrykkja orðin hluti af daglegu lífi bresku yfirstéttarinnar sem drakk svarta afbrigðið með mjólk og sykri.
Forvinnsla ræður litnum
Þótt allt ekta te sé gert úr laufum terunnans Camellia sinensis, er misjafnt bragð af mismunandi afbrigðum. Ræktunarstaður, uppskeruaðferðir og forvinnsla ákvarða lit tesins og bragð.
Hvítt te - Það létta
Afbrigðið er unnið úr brumi og yngstu blöðum runnans. Plöntuhlutana þarf að uppskera strax að vori og þetta te er því sjaldgæft og dýrt. Bragðið er milt, létt og ávaxtakennt og gæti minnt á gúrku eða melónu.
Darjeeling - Það vandaða
Teið dregur nafn sitt af Darjeelinghéraði í Norðvestur-Indlandi, þar sem Bretar hófu ræktun á 19. öld. Þetta te telst vandað og nánast einstætt. Bragðinu er lýst sem sætu, svipað rúsínum.
Earl Grey - Það vinsæla
Þetta vinsæla te er af svarta afbrigðinu en í það er bætt olíu sítrusávaxtar. Teið heitir efir jarlinum Charles Grey sem var forsætisráðherra Breta 1830-1834.
Kamillute - Það líknandi
Þetta er ekki ekta te, heldur seyði af þurrkuðum blómum kamillujurtarinnar Matricaria recutita. Þetta jurtate hefur síðan á miðöldum verið notað sem lyf gegn t.d. kvefi og svefnleysi.
Af hverju varð Indland svo mikið teræktarland?
Englendingar urðu mjög ásælnir í te, reyndar svo mjög að þörfin fyrir „a nice cup of tea“ komst nálægt því að setja ríkið á hausinn.
Englendingar fluttu inn gríðarlegt magn af te og silki frá Kína en Kínverjar höfðu engan áhuga á að kaupa neinar breskar vöru á móti. Vöruskiptajöfnuðurinn varð því Bretum gríðarlega óhagstæður.
Lausnin varð á endanum sú að flytja teplöntur til Indlands. Árið 1830 var komið á fót fyrstu teplantekrunum í indverska konungdæminu Assam.
Það sterka te sem þarna var ræktað náði fljótt vinsældum og innan skamms var Indland orðið stærsti útflytjandi tes bæði til Bretlands og annarra Evrópulanda.
Í 300 ár – til 1998 – var mest af tei heimsins selt á uppboðum frá East India House í London.
Indverjar voru sjálfir ekki hrifnir af drykknum og hans neyttu þar ekki aðrir en þeir sem höfðu tileinkað sér breska siði. Það var ekki fyrr en eftir 1950 sem tedrykkja varð almenn á Indlandi.
Til þurfti raunar mikla auglýsingaherferð sem byggðist á hugmynd landsföðurins Gandhis sem myrtur var 1948 en hann vildi nota tedrykkju til að byggja brú milli stétta.
Fyrirtækið Wagh Bakri Tea auglýsti t.d. með mynd þar sem tígrisdýr, tákn yfirstéttarinnar, drakk úr sömu skál og geit, tákn lágstéttarinnar.
Kaffi er drukkið um allan heim og allra vinsælast hér á norðurhjaranum. Þessi svarti drykkur hefur á síðari árum reynst hollara en sagnir herma. Loftslagsáhrifin eru hins vegar neikvæð.
Hvað eiga te og klipperar eiginlega sameiginlegt?
Svonefndir klipperar, skrokkmjó og hraðskreið seglskip með miklum seglabúnaði gegndu lykilhlutverki í teflutningum frá miðri 19. öld.
Árið 1834 afnámu bresk stjórnvöld einokun breska Austur-Indíafélagsins á verslun með te. Meðal fyrstu teflutningaskipa í eigu annarra var bandaríski klipperinn Oriental sem þurfti allt niður í 97 daga til að sigla milli Hong Kong og London.
Verslunarferð tók stór flutningaskip Austur-Indíafélagsins allt upp í tvö ár báðar leiðir og félagið fór því fljótlega halloka.
Teklipperinn fékk nafn sitt „clipper“ vegna hraðans sem skipinu var kleift að kljúfa eða „klippa“ öldurnar.
Samkeppnin frá Bandaríkjamönnum varð til þess að Bretar fóru sjálfir að byggja klippera og fljótlega tóku Bretar og Bandaríkjamenn að keppa um hraðskreiðustu skipin. Á árunum 1850-1870 veðjuðu eigendur skipanna iðulega stórfé um hvort skipið yrði fljótara í förum yfir heimshöfin.
En tími þessara skipa leið nokkuð skyndilega undir lok þegar Suezskurðurinn var opnaður 1869. Þessi skipaskurður milli Rauðahafs og Miðjarðarhafs stytti siglingaleiðina um heila 7.000 kílómetra þar eð ekki þurfti lengur að sigla suður fyrir Afríku.
Um svipað leyti voru gufuskipin farin að ná mun öruggari hraða og komust milli Kína og Bretlands á 58 dögum en meðaltími hraðskreiðu seglskipanna var 123 dagar. Þar með voru þessi skip óþörf. Nú eru aðeins tvö varðveitt, City of Adelaide og Cutty Sark.
„Fáar stundir í lífinu eru þægilegri en sá tími sem frátekinn er fyrir þá athöfn sem þekkt er sem afternoon tea.“
Henry James 1881
Hver fann upp tepokann?
Um aldamótin 1900 var rjúkandi heitur tebolli orðinn hluti af daglegri tilveru milljóna um allan heim. Árið 1901 drukku Bretar seyðið af heilum 2,7 kg á mann. Þessi heiti og létt kryddaði drykkur hressti fólk á morgnanna og veitti fró í vinnuhléum yfir daginn.
Teið var tilreitt í tekönnum, ýmist var sjóðandi vatni helt yfir te í síu eða teinu komið fyrir í svokölluðu teeggi, litlu götóttu hylki sem sett var í tekönnuna. Vegna þess að laga þurfti heila könnu í einu, fór mikið te til spillis. Tvær bandarískar konur, Roberta C. Lawson og Mary Molaren, einsettu sér að bæta úr þessu.
Árið 1903 fengu þær einkaleyfi nr. US7323701A á litlum grisjupoka sem þær nefndu „tehaldara“ sem unnt var að setja í einn tebolla.
„Með þessu móti eyðist ekki meira te en þarf í nákvæmlega einn bolla,“ skrifuðu konurnar um fyrsta tepoka sögunnar.
Tepokinn dró úr sóun og gerði te aðgengilegra fyrir venjulegt fólk.
Sagan hermir að sjö árum síðar hafi tekaupmaðurinnn Thomas Sullivan gert svipaðan poka, þegar hann sendi tesýni í litlum silkipokum til viðskiptavina í auglýsingaskyni. Viðskiptavinirnir héldu að pokinn ætti að fara beint í bollann og notuðu hann þannig.
En hvaða hugmynd sem varð ofan á, er hitt víst að tepokar öðluðust fljótlega vinsældir og á þriðja áratugnum voru tepokar seldir í flestum bandarískum verslunum þar sem te var á boðstólum. Englendingar voru mun seinni að taka við sér, enda þekktir fyrir íhaldssemi. Þarlendis sættist fólk ekki við tepokana fyrr en upp úr 1950.
Hvernig varð japanska tedrykkjuathöfnin til?
Ýmis viðhöfn getur tengst tedrykkju en hin gamla og hefðbundna japanska siðaathöfn er þekktust þeirra. Í þessari athöfn felst m.a. eins konar andleg hreinsun ásamt fornum viðhafnarkveðjum. Fólkið neytir matar saman og að lokum drekka allir te úr sömu skál.
Japanir taka þessa athöfn svo hátíðlega vegna þess að hefðin snýst um miklu meira en bara te. Upphafsmaður hefðarinnar var Eisai, stofnandi Rinzai-zenbúddismans í Japan.
Á 12. öld hvatti hann munka til að drekka te til að eiga auðveldara með að halda sér vakandi við hugleiðsluna. Tengslin við zenbúddismann gera japönsku tedrykkjuathöfnina að andlegri athöfn sem á að skapa aga, samhljóm, virðingu og frið.
Kennsla í réttum aðferðum við slíka athöfn er enn mikilvægur þáttur í menntun ungra kvenna og sérstakir teskólar bjóða upp á námskeið í þessari flóknu list.
Styttri vinnuvika og betri laun gáfu Bretum undir lok 19. aldar kost á að finna sér áhugamál. Margir lögðu stund á fótbolta en einnig mátti nýta frítímann í öllu undarlegri afþreyingu.
Hvenær varð síðdegiste fastur liður í Englandi?
Utan Asíu er engin þjóð tengd tedrykkju jafn sterkum böndum og Bretar.
Ekki síst stafar þetta af hugtakinu „afternoon tea“ sem kalla má breskast af öllu bresku. Upphafið má rekja aftur til 1840 þegar hertogaynjan Anna af Bedford, sérstök hirðmey Viktoríu drottningar fann upp á því að slá á sárasta sultinn með lítilli millimáltíð milli hádegisverðar og kvöldverðar sem ekki var snæddur fyrr en klukkan átta.
Á hverjum degi færði þjónustufólk henni bakka með tei, brauði og smjöri ásamt köku um fjögurleytið. Þessi tedrykkja varð smám saman að hefð og Anna bauð sínum nánustu vinkonum.
Aðrir fóru síðan að fylgja fordæminu og upp úr 1860 var síðdegiste orðið fastur liður í lífi hefðarkvenna sem söfnuðust saman í stofu gestgjafans íklæddar síðum kjólum og með hatt og hanska. Saman drukku þær te og borðuðu samlokur, kökur og skonsur. Þannig varð þetta smám saman táknmynd fyrir breska menningu og lífsstíl.
„Fáar stundir í lífinu eru þægilegri en sá tími sem frátekinn er fyrir þá athöfn sem þekkt er sem afternoon tea,“ skrifaði rithöfundurinn Henry James í bók sinni „The Portrait of a Lady“ árið 1881.
Meira um tesöguna
- Alex Woolf: The Story of Tea, Wayland, 2016.
- Erling Hoh & Victor H. Mair: The True History of Tea, Thames & Hudson, 2009.