Lestu greinina, því 60% til viðbótar munu hafa veikst af krabbameini árið 2040
Hvað eiga tóbaksreykur, tvíþátta DNA-veira og lifrarbólga sameiginlegt, kann einhver að velta fyrir sér?
En það eru einmitt reykingar, HPV-veira og lifrarbólga B sem samanlagt munu eiga þátt í að krabbameinstíðni verður orðin 60% meiri árið 2040.
Árið 2040 er nefnilega búist við 29 til 37 milljón fleiri tilfellum, ef marka má skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem kortleggur lækningaúrræði gegn krabbameini.
Árið 2022 voru um 20 milljón manns sjúkdómsgreind með krabbamein á heimsvísu. Ríflega helmingur þeirra lést af völdum sjúkdómsins.
Þessa ógnvekjandi skýrslu ber að líta á í ljósi þess að vísindamenn verða sífellt færari um að fyrirbyggja, sjúkdómsgreina og meðhöndla krabbamein sem enginn sem les þessa grein til enda á eftir að efast um.
95% nýrra krabbameinsúrræða eru aldrei notuð
Nýtt krabbameinslyf sem þótti lofa afar góðu árið 1999 stöðvaði algerlega vöxt krabbameinsæxla í músum. Meðhöndlun þessi gekk undir heitinu SPI-77 og þótti hún gefa betri raun en hefðbundin krabbameinslyfjameðferð, auk þess sem aukaverkanir voru færri.
Ekki leið á löngu áður en vongott lyfjafyrirtæki varði milljónum í tilraunir á mönnum en tilraunirnar voru raunar stöðvaðar fljótlega.
Í ljós kom að SPI-77 gerði nánast ekkert gagn, það lagt til hliðar og því gleymt.
Hætt var við þessa lækningameðferð sem virtist fyrst í stað gefa svo góða raun og þar með deildi lyfið örlögum 95% allra krabbameinslyfja sem ár hvert eru gerðar tilraunir með á mönnum.
Jafnvel þau lyf sem hljóta að lokum leyfi, hafa iðulega takmörkuð áhrif. Eigi að síður gefa lyf gegn öðrum kvillum, á borð við sýkingar, langtum betri raun í tilraunum á mönnum.
Hversu margir fá krabbamein?
Sá ótrúlegi eiginleiki krabbameinsfrumna að hrista af sér nánast allt sem vísindamenn ráðast til atlögu við þær með, gerir það að verkum að sjúkdómurinn leggur að velli rösklega átta milljónir á ári hverju.
Vísindamenn hafa engan veginn gefist upp.
Þeir hafa nú leitt í ljós hvað það er sem helst stendur í vegi fyrir nýjum tímamótalækningaúrræðum og búa sig undir að jafna hindranirnar við jörðu.
Frumur gera sífellt mistök
Á hverri sekúndu erfiða milljarðar frumna í líkömum okkar við að halda lífi í okkur. Þær skipta sér, framleiða ógrynni ólíkra próteina, eiga í samskiptum hver við aðra og deyða sjálfar sig í þágu heildarinnar.
Þrátt fyrir óendanleg verkefni starfar búnaður líkamans oft svo vandkvæðalaust að furðu sætir. Þannig lítur þetta að minnsta kosti út á yfirborðinu.
Lengst inni í einstökum frumum eiga sér stað endalaus mistök sem haft geta ófyrirsjáanlegar afleiðingar á allan líkamann.
Þegar einhver frumnanna er í þann veginn að skipta sér, afritar hún DNA-erfðaefni sitt í því skyni að láta dótturfrumunum tveimur í té hvorri sitt afrit en afritun þessi mistekst oft.
Til allrar hamingju hefur fruman yfir að ráða áhrifamiklum verkfærum sem lagfæra að öllu jöfnu skekkjurnar um leið og þeirra verður vart.
Hvað er krabbamein?

DNA-erfðaefni krabbameinsfrumna stökkbreytist.
Sum kemísk efni eða geislun geta valdið skekkjum sem fruman er ekki fær um að lagfæra.
Afleiðingarnar verða þá þær að þau DNA-afrit sem fruman lætur afkomendum sínum í té, fela í sér skekkjur, það sem einnig kallast stökkbreytingar.
Flestar skekkjurnar eru meinlausar en í einstaka tilvikum verða skekkjur í erfðavísum sem kóða fyrir mikilvægum próteinum.
Stökkbreytingarnar geta breytt atferli próteinanna þannig að fruman fer að skipta sér stjórnlaust. Fruman felur í sér ýmsar öryggisráðstafanir í formi próteina sem hefta skiptinguna en ef þær stökkbreytast engu að síður, breytast þær í krabbameinsfrumur.
Hvað er krabbameinsæxli?
Fruman heldur áfram að skipta sér þar til úr verður eins konar frumuköggull sem einnig kallast æxli, er eyðilagt getur líffærið sem hann fyrirfinnst í.
Þessi stjórnlausi vöxtur gerir það jafnframt að verkum að krabbameinsfrumurnar gera enn fleiri mistök þegar þær skipta sér. Þannig verða stöðugt nýjar stökkbreytingar sem léð geta frumunum nýja eiginleika sem svo geta leitt til þess að þær brjótast út úr upprunalega líffærinu og setjast að í öðrum líffærum.
Þessar ágengu frumur valda því að líffærin láta undan síga, hvert á fætur öðru og deyða að lokum líkamann sem þær sjálfar eru upprunnar í.
Krabbamein hefur verið til í milljónir ára
Vísindamenn hafa fundið ummerki um æxli í 70 milljón ára gömlum risaeðlubeinum og í 120.000 ára gömlum Neanderdalsmönnum en af því má sjá að krabbamein er engan veginn nýr sjúkdómur.
Grikkir til forna nafngreindu sjúkdóminn fyrir 2.600 árum en á þeim tíma hafði leitin að lækningu gegn honum staðið yfir í minnst þúsund ár.
Fyrsta læknismeðferðin gegn brjóstakrabba
Alls 3.600 ára gamlar áletranir frá Egyptalandi gefa til kynna að Egyptar til forna hafi gert tilraunir með að fjarlægja krabbameinsæxli úr brjósti með frumstæðum skurðaðgerðum.
Bandaríski skurðlæknirinn William Halsted beitti fyrstur allra nútímalegri skurðaðgerð gegn krabbameini árið 1882. Einum 14 árum síðar var glænýrri tækni svo beitt þegar franski læknirinn Victor Despeignes réðst til atlögu við krabbameinsæxli með röntgengeislum.
Báðar meðferðir gáfu góða raun, því geislar Despeignes deyddu helming æxlisins en sjúklingarnir læknuðust þó ekki. Meðferðirnar voru heldur ekki skaðlausar.
Vísindamennirnir áttuðu sig fljótt á að röntgengeislar höfðu í för með sér alvarlegar aukaverkanir, m.a. krabbamein.
Læknandi eiturgas

Fórnarlömb sinnepsgass í fyrri heimsstyrjöld gögnuðust vísindamönnum við að þróa fyrstu lyfjameðferðina.
Í miðjum blóðugum bardögum fyrri heimsstyrjaldar leit dagsins ljós, öllum til mikillar furðu, nýtt lyf gegn krabbameini en um var að ræða sinnepsgas.
Gasið átti þátt í að deyða um 90.000 manns á vígvellinum, auk þess að særa ríflega milljón manns en í raun réttri bjó það einnig yfir lækningamætti.
Þegar læknar rannsökuðu þá látnu veittu þeir athygli óvenjumiklu magni af hvítum blóðkornum í blóði sjúklinganna. Uppgötvun þessi leiddi til þess að bandarísku vísindamennirnir Louis Goodman og Alfred Gilman ákváðu áratugum síðar að gera tilraunir með gasið á sjúklingi með eitilfrumukrabbamein en um er að ræða krabbamein sem gerir vart við sig í hvítum blóðkornum sogæðakerfisins.
Hvorki skurðaðgerð né geislar hefðu getað unnið bug á ágengum krabbameinsfrumum sjúklingsins sem héldu áfram að komast undan og dreifa sér til annarra hluta líkamans.
Fyrsta lyfjameðferðin
Hinn 27. ágúst 1942 var fyrsti sjúklingurinn sprautaður nokkrum sinnum með virka innihaldsefninu úr sinnepsgasi. Tíu dögum síðar voru öll æxli hans horfin.
Louis Goodman og Alfred Gilman höfðu þróað fyrstu krabbameinslyfjameðferð í heimi, meðferð sem ekki krafðist skurðaðgerðar né geisla, heldur kemískra efna sem ætlað var að deyða frumur æxlisins.
Meðhöndlunin reyndist ekki vera fullkomin.
Sjúklingurinn varð alvarlega veikur af lyfjunum og krabbameinið fór aftur að láta á sér kræla að mánuði liðnum. Þegar læknarnir endurtóku meðferðina þoldi sjúklingurinn ekki aukaverkanirnar og lést skömmu síðar.
Meðferð gegn krabbameini
Nú á dögum eru skurðaðgerðir, geislar og lyfjameðferð algengustu meðferðarúrræðin gegn krabbameini. Allar aðferðirnar þrjár hafa batnað til muna frá því á árunum upp úr 1940 en veikleikarnir eru í grundvallaratriðum þeir sömu.
Skurðaðgerðir og geislar geta ekki unnið bug á krabbameini á áhrifaríkan hátt þegar meinið er byrjað að dreifa sér um líkamann. Og þó svo að lyfjameðferð geti unnið bug á krabbameinsfrumum alls líkamans hefur hún engu að síður í för með sér gríðarlegar aukaverkanir fyrir sjúklingana sökum þess að lyfin deyða einnig heilbrigðar frumur líkamans.
Vísindamennirnir pakka lyfjunum inn

Vísindamennirnir Yechezkel Barenholz og Alberto Gabizon hönnuðu smásæjar kúlur sem unnt var að flytja lyfin í alla leið inn í æxlið.
Ísraelsku vísindamennirnir Yechezkel Barenholz og Alberto Gabizon hófust handa við að þróa nýja aðferð sem gerði þeim kleift að flytja lyfið alla leið að krabbameinsfrumunum í von um að þannig mætti hlífa heilbrigðum frumum líkamans.
Vísindamennirnir pökkuðu krabbameinslyfinu doxorubicin inn í smásæjar fitukúlur sem kallast fitukorn en korn þessi eru einungis 100 nanómetrar í þvermál og gerðu síðan tilraunir með fitukornin í dýrum.
Þegar örsmáar kúlurnar flutu í blóðinu var lyfið vel varið inni í þeim og hafði engin áhrif á heilbrigðu frumurnar en lyfið komst hins vegar greiðlega alla leið að æxlinu þar sem það deyddi krabbameinsfrumurnar á tilætlaðan hátt.
Færri aukaverkanir en í hefðbundinni krabbameinsmeðferð
Ástæðan var sú að fitukornin komust inn í krabbameinsfrumurnar gegnum veiklaðar, götóttar æðar umhverfis æxlið. Inni í æxlinu draup krabbameinslyfið út úr fitukornunum og lenti á krabbameinsfrumunum.
Barenholz og Gabizon vörðu rösklega áratug í að betrumbæta smásæjar kúlurnar áður en þeir að lokum fóru að nota þær í tilraunum á mönnum.
Fitukornin höfðu færri aukaverkanir í för með sér en hefðbundin lyfjameðferð og fengu samþykki í Evrópu og Bandaríkjunum undir lyfjaheitunum Caelyx og Doxil.
Caelyx gaf afar góða raun og ýtti undir þróun nýrra fitukorna sem unnt var að beita gegn öðrum tegundum krabbameins og deyða krabbameinið á áhrifaríkari hátt.
Lyfi hafnað sem lofað hafði góðu
Lækningaúrræðið SPI-77 var í hópi þeirra meðferðarúrræða sem þróuð voru í kjölfarið á Caelyx. Líkt og við átti um Caelyx samanstóð úrræðið af smásæjum fitukúlum en í stað þess að innihalda doxorubicin fól SPI-77 í sér efnið cisplatin.
Efni þetta gefur mjög góða raun gegn krabbameinsfrumum en hefur í för með sér mýmargar aukaverkanir. Með því að nota fitukorn til að flytja krabbameinslyfið beint inn í krabbameinsfrumurnar bundu vísindamennirnir vonir við að geta unnið bug á æxlinu án þess að skaða sjúklingana.
Árið 1999 voru gerðar tilraunir með SPI-77 í músum og fitukornameðferðin virtist gera nákvæmlega það gagn sem vísindamennirnir höfðu spáð fyrir um.
Cisplatin er að öllu jöfnu skaðlegt nýrunum og starfsemi þeirra en rannsóknir á músunum leiddu í ljós að fitukornin fækkuðu um 75% af cisplatin-magninu sem barst í nýrun. Þá jókst magnið af cisplatin sem barst til krabbameinsæxlisins 28 falt og þess má enn fremur geta að SPI-77 hefti vöxt krabbameinsfrumna á umtalsvert áhrifameiri hátt en við átti um cisplatin sem ekki hafði verið komið fyrir í fitukornum.
Þegar svo gerðar voru tilraunir með SPI-77 á sjúklingum með lungnakrabba nokkrum árum síðar varð árangurinn ekki jafn vænlegur og af hefðbundinni lyfjameðferð. Lyfið virtist ekki hafa marktækt jákvæð áhrif á neinn þeirra 29 sjúklinga sem þátt tóku í tilrauninni og hætt var við hana. Engu að síður er ekki hægt að segja að SPI-77 hafi verið þróað til einskis.
Vísindamenn læra af mistökum sínum

Vísindamenn gera tilraunir með krabbameinslyf í músum sem eru með æxli rétt undir húðinni.
SPI-77 var fyrst prófað á músum sem þarma- eða lungnakrabbameinsfrumum hafði verið sprautað í, rétt undir húðinni á lærum dýranna. Meðhöndlunin með SPI-77 hófst á meðan æxli músanna voru agnarsmá.
Í dag vita vísindamennirnir fyrir víst að þessi gerð dýratilrauna hefur afar takmarkað forspárgildi um það hver áhrif lyfjanna á menn verða.
Lungnakrabbameinsfrumur sem vaxa í læri dýra munu ekki framkalla neitt í líkingu við lungnakrabba. Þá munu vísindamennirnir að sama skapi fá skakka mynd af áhrifum meðferðarinnar ef tilraunir eru gerðar með lyfin á smáum, nýjum æxlum því mennskir sjúklingar eru yfirleitt ekki greindir með krabbamein fyrr en æxlin eru orðin allstór.
Þá var val vísindamannanna á sjúklingum í SPI-77-tilraunina heldur ekki hvað ákjósanlegast. SPI-77, líkt og við á um önnur fitukorn, hefur ekki greiðan aðgang að krabbameinsfrumunum nema æðarnar í æxlinu séu veiklaðar og götóttar.
Mörg æxli eru með heillegar æðar sem engin göt hafa myndast á og lyf sem gefin eru í fitukornum hafa fyrir vikið slæleg áhrif á sjúklinga með þess háttar æxli.
Hefðu vísindamennirnir gagngert valið sjúklinga með götóttar æðar í æxlunum hefði SPI-77 hugsanlega gefið betri raun og unnið bug á krabbameini þeirra.
Vísindamenn endurgera æxli í rannsóknarstofu

Vísindamenn útbúa gerviæxli sem líkjast æxlum sjúklinga.
Endurgerð æxla í rannsóknarstofum hefur tekið miklum framförum, þannig að þau líkjast mennskum æxlum til muna. Þá hefur einnig tekist að þróa nýjar aðferðir sem hafa aukið forspárgildi um það hvaða sjúklingar muni bregðast best við tiltekinni meðferð.
Framfarir þessar hafa gert vísindamenn færari um að meta hvaða efni hafi í raun áhrif á menn og að velja úr þá krabbameinssjúklinga sem gert er ráð fyrir að meðhöndlunin gagnist hvað best.
Þá hefur sérfræðingunum enn fremur tekist að þróa glæný meðferðarúrræði sem var með öllu óhugsandi að beita fyrir einungis örfáum áratugum.
Ný meðferð gegn krabbameini
Árið 2017 samþykktu bandarísk yfirvöld í miklum flýti nýtt meðferðarúrræði sem nefnist Kymriah.
Ástæða þess hve mikið lá á að samþykkja meðhöndlunina var sú að meðferðin eyddi öllum ummerkjum um krabbamein í 83% þeirra sjúklinga sem gerðar voru tilraunir með lyfið í en um var að ræða sjúklinga sem hefðbundin meðferðarúrræði höfðu ekki hjálpað.
Kymriah felur í sér notkun ónæmisfrumna úr sjálfum sjúklingnum. Frumurnar eru teknar úr blóði sjúklingsins og er nýjum erfðavísi bætt í frumurnar sem gerir það að verkum að þær geta borið kennsl á krabbameinsfrumurnar.
Þegar svo ónæmisfrumunum er sprautað aftur í sjúklinginn leita þær uppi æxlið og ráðast til atlögu við það.
Meðhöndlunin gefur afar góða raun og hefur verið lofuð í hástert í fjölmiðlum víðs vegar um heim sem einhvers konar kraftaverkalyf.
Ráðist er til atlögu við heilbrigðar frumur
Mætti þá segja að Kymriah væri hin fullkomna læknismeðferð sem leitað hefur verið að öldum saman? Ekki alveg. Kymriah getur í raun réttri virkjað ónæmiskerfi sjúklingsins á svo áhrifaríkan hátt að það ráðist jafnframt á heilbrigðar frumur líkamans en þess ber að geta að meðferð þessi dró fimm sjúklinga til dauða þegar gerðar voru tilraunir með áþekka meðhöndlun árið 2016.
Banvænar aukaverkanirnar gera það að verkum að læknar nota Kymriah einungis þegar allt annað þrýtur, þegar önnur og hættuminni úrræði hafa verið reynd, árangurslaust.
Hins vegar er Kymriah ekki endilega gagnslaus aðferð og sömu sögu er að segja af fitukornunum.
Með hverjum deginum sem líður öðlast vísindamenn aukinn skilning á veikleikum meðferðarúrræðanna, auk þess að fá meiri skilning á líffræði krabbameinsins og öll þessi vitneskja gagnast til að betrumbæta þau meðferðarúrræði sem fyrir eru og til að þróa spáný úrræði.
Gervigreind eykur hraðann
Þá gera tímamótatækninýjungar vísindamenn færari um að ná meiri framförum með miklu meiri hraða en áður þekktist. Ein þessara tækninýjunga á rætur að rekja til bandaríska fyrirtækisins „twoXAR“.
Fyrirtæki þetta útbýr tölvur með gervigreind sem er fær um að þróa ný lyf gegn m.a. krabbameini. Kerfið vinnur á leifturhraða úr gífurlegu magni gagna frá rannsóknarstofum og sjúkrahúsum víðs vegar um heim, grandskoðar erfðavísa krabbameinsfrumnanna, þrautkannar efnasamsetningu þeirra lyfja sem fyrir hendi eru og fer yfir þær tilraunir sem gerðar hafa verið á dýrum og mönnum.
Þegar þessi víðtæka greining hefur átt sér stað bendir kerfið á áður óþekkta veikleika í krabbameinsfrumunum og mælir með lyfjum sem notfæra sér veikleikana, ferli sem áður hefði tekið vísindamenn mörg ár að framkvæma. Niðurstöðurnar verða þær að læknar geta brátt fengið aðgang að langtum stærra forðabúri gagnlegra vopna í baráttunni gegn krabbameini.
Við sigrumst brátt á krabbameini

Vísindamenn sem stunda rannsóknir á krabbameini hafa þegar bjargað milljónum mannslífa. Rannsókn sem gerð var í Bretlandi leiddi í ljós að dánarhlutfall af völdum krabbameins hefur lækkað um 14 af hundraði frá því um 1970.
Ástæðunnar er að leita í betrumbættum sjúkdómsgreiningum, skurðaðgerðum, geisla- og lyfjameðferðum, svo og nýjum meðferðarúrræðum í líkingu við ónæmismeðferð. Þegar einblínt er á tilteknar gerðir krabbameins, svo sem eins og brjóstakrabba, lifa helmingi fleiri af en gerðu kringum 1970 og þegar horft er til ristilkrabbameins lifa hann af þrefalt fleiri en um 1970.
Þróunin heldur svo áfram. Vísindamenn spá því að dánartíðnin muni lækka um 15 af hundraði til viðbótar fram til ársins 2035.