Um allan heim rísa nú timburskýjakljúfar sem góður valkostur við hefðbundna skýjakljúfa úr stáli og steinsteypu. Ný viðarefni eru jafnsterk og stál en mun léttari, sem gerir kleift að byggja bæði stórt og hátt.
Hinar öflugu viðarbyggingar gefa arkitektum einstakt tækifæri til að þróa nýstárleg mannvirki sem, ótrúlegt en satt, hafa betri brunavarnir en hefðbundnir skýjakljúfar.
Ástæðan er sú að límtré, svokallað glulam, sem myndar burðargrind „timburskýjakljúfana“, brennur þannig að ytra lagið verður að kolum. Þetta kolalag virkar sem hindrun sem kemur í veg fyrir að eldurinn nái lengra inn í viðinn. Stál byrjar hins vegar að bogna þegar hitinn nær um 550 gráðum á Celsíus.
Auk þess bjóða þessar himinháu viðarbyggingar upp á þægilegt innra umhverfi.
Hástökkvarinn

Japanskur risi þolir jarðskjálfta
Með hæð sem nemur heilum 350 metrum myndi timburskýjakljúfurinn W350 vera hæsta bygging í Tókýó ef reisugillið væri yfirstaðið. Hins vegar er ráðgert að timburskýjakljúfurinn verði fyrst tilbúinn árið 2041 og er hann hannaður til að þola þá jarðskjálfta sem skella jafnan á Japan.
Risi þessi er byggður sem blendingur úr bæði timbri og stáli þar sem stálið er þó einungis um 10% af efnisnotkuninni. Afgangurinn eða um 90%, telur einhverja 185.000 m3 af timbri sem samsvarar um 8.000 venjulegum timburhúsum.
Hæð: 350 metrar
Byggingarár: 2041
Land: Japan
Methafinn

Heimsins hæsta timburbygging þolir bruna
Hinn 86,6 metra hái Ascent í Milwaukee, Wisconsin heldur um þessar mundir fyrsta sætinu sem heimsins hæsti skýjakljúfur úr timbri. Byggingin sem að hýsir bæði verslanir og lúxusíbúðir þykir sérstök fyrir það hvað hún er eldtraust.
Burðarsúlur úr límtré sem kallast á ensku „glulam“ samanstanda úr samsíða tréborðum og í prófunum getur viðurinn þolað bruna í minnst þrjár stundir. Annað byggingarefni, krosslímdur viður (eða CLT), er notað í milligólfin.
Hæð: 86,6 metrar
Byggingarár: 2022
Land: BNA
Púsluspilið

Róbótar eiga að stafla gríðarlegum byggingareiningum
Geta róbótar byggt 300 metra háan skýjakljúf? Það er í minnsta falli fyrirhugað fyrir Oakwood Timber Tower í London. Burðargrind, veggjum og gólfum verður í miklum mæli púslað saman af iðnaðarbottum á byggingarstaðnum með sjálfvirkum hætti. Rétt eins og byggingin væri smíðuð í verksmiðjusal.
Með burðareiningum sem eru 2,5 sinnum 7,5 metrar í burðarvirkinu er hugmyndin sú að róbótar geti byggt hverja hæðina af annarri eftir sömu grunnteikningunum.
Hæð: 300 metrar
Byggingarár: Óvisst
Land: Bretland
Frumherjinn

Norskur turn skrifar sig inn í sögubækur
Með hæð sem nemur 85,4 metrum stökk Mjøstårnet árið 2019 inn í Guinness-heimsmetabókina sem hæsti timburskýjakljúfur í heimi. Árið 2022 tók hins vegar bandaríska byggingin Ascent fram úr turninum.
Byggingin liggur við stærsta vatn Noregs, Mjøsa og er byggð úr krossviði og límtré. Klæðningin er öll tilbúin úr forsmíðuðum timbureiningum og einungis á 6 efstu af 18 hæðum er steypa notuð til að styrkja bygginguna og stífa hana af til að koma í veg fyrir að hún svigni of mikið.
Hæð: 84,5 metrar
Byggingarár: 2019
Land: Noregur
Loftslagshetjan

Spilaborg tengir menn og náttúru
Arkitektar í hinu austurríska Studio Precht hafa lagt drög að hugmyndahúsinu The Farm House sem á að mynda græna vin í hjarta stórborga. Eins og risahá spilaborg úr timbri þakið plöntum er skýjakljúfurinn hannaður til að leysa mörg af núverandi vandamálum, ekki síst loftslagsvánni og skorti á lifandi náttúru í borgunum.
Skýjakljúfurinn verður byggður með forsmíðuðum einingum úr krossviði (CLT) og státar einnig af kössum þar sem íbúar geta m.a. ræktað eigin matjurtir.
Hæð: Óviss
Byggingarár: Óvisst
Land: Austurríki