Franska byltingin sneri samfélaginu á haus. Lúðvík 16. konungur var settur af 10. ágúst 1792 og tæpum hálfum öðrum mánuði síðar var fyrsta lýðveldinu komið á fót. Sá dagur, 22. september, varð svo dagur nr. 1 í nýju tímatali sem þingið tók upp í október 1793.
Byltingartímatalið átti að verða tákn nýrra tíma í Frakklandi. Vissulega var árinu áfram skipt í 12 mánuði, en að öllu öðru leyti var gregoríanska tímatalinu umbylt. Í hverjum mánuði voru 30 dagar og mánuðinum skipt í þrjár tíu daga vikur sem nefndar voru „décades“. Síðasti dagur vikunnar, „décadi“ leysti sunnudaginn af hólmi sem vikulegur hvíldardagur. Í árslok var svo bætt inn 5 eða 6 aukadögum til að árið stemmdi við lengd sólarársins.
Sólarhringnum var skipt upp eftir tugakerfinu í 10 klukkustundir, 100 mínútur í hverri og aftur 100 sekúndur í mínútu. Hver klukkustund varð því meira en tvöfalt lengri en verið hafði og framleiða þurfti nýjar klukkur til samræmis við þessa breytingu byltingarmanna.
Gömlu mánaðaheitin fuku líka og viku fyrir nýjum. Skáldið og þingmaðurinn Fabre d‘Églantine hugsaði upp skáldleg mánaðaheiti, svo sem germinal (frjómánuður), messidor (haustmánuður) og nivose (snjómánuður). Dagarnir fengu heiti eftir röð sinni í vikunni og sá fyrsti hét t.d. primidi (fyrsti dagur).
Þrátt fyrir þessar miklu breytingar, eða kannski einmitt vegna þess hve umfangsmiklar þær voru, náði byltingartímatalið aldrei vinsældum og 1802 var sjö daga vika tekin upp á ný ásamt sunnudeginum. Þetta vakti hrifningu meðal verkamanna, sem verið höfðu óánægðir með að fá aðeins frí á 10 daga fresti. Gregoríanska tímatalið var svo endanlega tekið upp aftur 1. janúar 1806.
En metrakerfið, sem einnig var afrakstur frönsku byltingarinnar, heldur velli enn í dag.