Tungan hjálpar fyrst og fremst við að tyggja og vinna mat og án hennar gætum við ekki talað.
En í dýraríkinu hefur tungan mun fleiri hlutverk. Þar hjálpar tungan við allt frá persónulegri umönnun og veiðum til höggdeyfingar og skynjunar á umheiminum.
Áttunartæki
Slangan smakkar umhverfi sitt
Slöngur hafa nasir og geta fundið lykt á sama hátt og flest önnur dýr. En til viðbótar nota þær tunguna til að skapa sér eins konar mynd af umhverfinu.
Til þess nota þær líffæri tengt svonefndu plógbeini sem aðskilur nasirnar. Ýmis dýr hafa slíkt líffæri og nota það yfirleitt til að skynja ferómón og ákvarða t.d. hvort kvendýr sé frjótt.
Lyktarefni berast upp um tvö göt á gómnum og í plógbeinspokann sem sendir upplýsingar til heilans.
Slöngur nota líffærið þegar þær bragða á loftinu með tungunni. Klofin tungan skýst þá fram úr munninum og grípur loftsameindir. Þegar hún dregur tunguna inn berast þessar sameindir upp til plógbeinsins þar sem lyktin er greind og upplýsingar sendar til heilans.
Slangan fær þannig upplýsingar um hvaðan lykt berst og hvernig umhverfið er.
Bursti
Broddar halda feldinum hreinum
Óhreinindi í feldinum geta gefið frá sér lykt og afhjúpað köttinn þegar hann laumast að bráð sinni. Því er mikilvægt fyrir rándýrið að halda feldinum hreinum.
Tungur katta eru búnar litlum keratínbroddum – sama efni og t.a.m. í nöglum og geta kettir því notað tunguna til að fjarlægja óhreinindi úr feldinum – svipað og að greiða sér.
Keratínbroddarnir á tungu kattarins virka eins og greiða sem heldur feldinum hreinum.
Kettir þvo sér og sleikja um helming af vakandi tíma sínum í því skini að losa óhreinindi úr feldinum. Til þess eru broddarnir einstaklega góðir en gallinn er að þeir tryggja að mikið magn kattahára enda ofan í maga kattarins.
Útkoman er eitt af sérkennum kattadýra: hárkúlur sem hóstað er upp öðru hverju.
Skósóli
Leðurtunga ver fyrir þyrnum
Brumhnappar akasíutrésins eru uppáhaldsfæða gíraffa en erfitt að nálgast þá þar eð tréð verndar þá með löngum og hvössum þyrnum.
Þessi hálslanga skepna vefur engu að síður eins og hálfs metra langri tungunni um brumið og hámar það í sig. Yfirborð tungunnar er alsett hörðum nöbbum sem veita henni leðurkennda áferð, þannig að hún minnir helst á skósóla, er bæði hörð og sveigjanleg og ekki auðsærð.
Gíraffinn notar leðurkennda tungu sína til að tína brumhnappa á milli hvassra þyrna akasíutrésins.
Gíraffinn kemst þó ekki hjá því að fáeinir þyrnar komist alla leið upp í munninn. Þykkt slímlag í munnvatninu sér þó til þess að þyrnarnir valdi ekki skaða á meltingarfærunum.
Slímið umlykur þyrnana og þeir fara ekki gegnum allan meltingarveginn, heldur getur dýrið ælt þeim upp aftur.
Tunga gíraffans er utan munnholsins mikinn hluta dagsins. Gíraffi þarf að éta um 200 kg á viku og allri þeirri fæðu safnar tungan. Tungan er melanínlituð til að koma í veg fyrir sólbruna. Melanínið gefur dökka áferð og verndar gegn öflugu sólskininu.
Valslöngva
Meiri hröðun en hjá orrustuvél
Þótt kamelljónið fari ekki hratt yfir er það fengsælt rándýr, ekki síst vegna tungunnar sem það skýtur að bráðinni.
Þessi háþróaða tunga veitir bráðinni náðarhöggið af gríðarlegum krafti. Tungan nær 20 km hraða á 1/16 úr sekúndu – það er fimmfalt sneggri hröðun en nýjustu orrustuþotur geta státað af.
Tungan er byggð í lögum sem ganga hvert inn í annað líkt og loftnet. Innst er tungubeinið sjálft. Þegar kamelljónið ræðst á bráðina, spennir það tunguvöðvana og loftnetslögunin veldur því að tungunni er skotið út.
Hringvöðvi skýtur tungunni
Eins og skotið væri úr valslöngvu skýtur kameljónið tungunni á grunlausa bráð sína.
1.
Tungan liggur í um tíu lögum umhverfis tungubeinið. Þegar tungan er inni í munninum er hún samandregin líkt og útvarpsloftnet.
2.
Hringvöðvi í tunguvefnum þrýstist saman af miklu afli til að skjóta tungunni af stað.
3.
Lögun beinsins þrýstir hinum mismunandi vefjalögum fram á við og ,,loftnetið” skýst út.
Til að draga úr núningi er vökvi milli vöðvalaganna.
Að samanlögðu valda áhrifin af vöðvaafli, smurningu og byggingu krafti sem samsvarar um 54 hestöflum.
Til að gulltryggja árangurinn eru húðflipar fremst á tungunni. Þeir grípa bráðina og halda henni fastri meðan tungan er dregin aftur inn í munninn.
Beita
Skjaldbaka lokkar matinn í kjaftinn
Alligatorskjaldbakan (Macrochelys temminckii) er með latari veiðidýrum. Skjaldbakan lifir á botni fljóta og vatna og nennir oftast ekki að hreyfa sig eftir máltíðinni – maturinn kemur til hennar af sjálfsdáðum.
Hin hungraða skjaldbaka opnar munninn og sveiflar tungu sinni sem er í svipuðum lit og skjaldbakan sjálf en tveir rauðir húðflipar eru á enda tungunnar. Skjaldbakan hreyfir tunguna og húðfliparnir líkjast ormum.
Þegar fiskur lætur lokkast þarf skjaldbakan einfaldlega að skella kröftugum kjálkunum og njóta nýveiddrar máltíðar.
Öryggishjálmur
Aðgreining kemur í veg fyrir heilahristing
20 sinnum á sekúndu heggur spætan goggi sínum í tréð til að ná bjöllum og annarri fæðu. Þyngdaráhrif hvers höggs eru um 1.200 G – kraftur sem myndi steindrepa mann.
Spætan lifir af m.a. vegna tungunnar. Tungan er að hluta klofin að aftanverðu og teygir sig aftur og upp og tunguhlutarnir mætast aftur á milli augnanna. Þannig umvefur tungan höfuðkúpuna. Í sumum tilvikum nær tungan svo langt að samvöxturinn endar í annarri nösinni.
⇑ Vöðvaspenna dempar höggin
Þegar spætan heggur í tré gerist það með svo miklum krafti að fuglinn ætti að fá heilahristing.
Tungan umlykur bein og greinist utan um höfuðkúpu spætunnar
Vöðvatrefjar í tungunni spennast í hvert skipti sem spætan heggur og virka sem höggdeyfar.
Í hvert skipti sem spætan heggur dragast vöðvatrefjar tungunnar saman og hafa þannig dempandi áhrif sem ásamt þykkri höfuðskel verja heilann.
Þegar spætan hefur náð inn til skordýranna rekur hún tunguna fram úr goggnum. Tungan er þakin slími og hjá sumum tegundum eru lítil agnhöld á tungubroddinum til að tryggja að skordýrin sitji föst.
Hjá öðrum tegundum eru gaddar á tungunni og spætan rakar þá sem flestum skordýrum út í hverja munnfylli.
Kæling
Ör andardráttur ver hunda gegn hita
Hundar hafa svitakirtla í kringum loppur og á trýni, en þeir eru of fáir og of litlir til að hundurinn geti losað sig við umframhita. Þess vegna anda hundar ótt og títt með lafandi tungu.
Rakinn á tungunni gufar upp og kælir hundinn. Á sama tíma stuðlar hröð öndun til þess að vatn frá yfirborði lungna gufar upp og kólnar.
Þrátt fyrir öran andardrátt geta hundar lent í vandræðum á heitum sumardegi. Flatnefjategundir eiga oft í erfiðleikum með að anda það ört að nægt loft umlyki tunguna og allar hundategundir eiga á hættu að of mikill raki gufi upp af tungunni á heitum sumardegi.
Límtunga
Tungan er lengri en hreisturdýrið
Hreistudýr sem mest getur orðið um metri að lengd, getur teygt tunguna um 40 cm út úr munninum. Stór hluti hennar er þó enn inni í líkamanum. Í flestum hreisturdýrum er tungan lengri en dýrið sjálft.
Löng tunga kemur sér vel þegar maurar eru á matseðlinum. Lengdin ein dugar þó ekki til.
⇑
Tungan er fest við mjöðmina
Hin langa tunga er geymd í kviðnum
Til að maurarnir festist við tunguna er hún þakin límkenndu slími og það stendur svo sannarlega undir hlutverki sínu því dýrið étur um 100 maura á mínútu þegar það kemst í mauraþúfu.
Þessi stóra tunga þarf mikið pláss. Hreisturdýr eru tannlaus og þurfa að hemja tunguna með öðrum aðferðum. Vöðvarnir sem stýra henni eru festir aftur við mjaðmirnar og tungan sjálf er geymd í kviðnum – í holrúmi milli barkans og bringubeinsins.