Agnirnar eru innan við 5 millímetrar að stærð og þær er að finna í loftinu sem við öndum að okkur, í vatninu sem við drekkum, svo og í matnum sem við borðum.
Örplastsagnir eru orðnar að ósýnilegum hluta daglegs lífs okkar en samt vitum við ekki enn fyrir víst hvaða áhrif þær hafa á heilsu okkar.
Nú hafa vísindamenn við háskólann í Peking komist að raun um nokkuð sem veldur ugg: Örplast kann að hefta blóðstreymi um heilann.
Þó svo að við séum þess enn ekki fullviss hvort þetta á sér einnig stað í mönnum hafa vísindamenn komist að raun um að þetta á við um mýs.
Þessu er lýst í rannsókn einni sem birtist í tímaritinu Science Advances.
Líkt og bílslys í æðunum
Í rannsókninni notfærðu vísindamennirnir sér háþróaða myndtækniaðferð til að fylgja eftir örplastsögnum sem voru á hreyfingu í æðum músanna.
Þeir byrjuðu á því að gefa músunum vatn að drekka sem sjálflýsandi plastögnum hafði verið bætt út í og fylgdust með þegar ónæmisfrumur dýranna gleyptu agnirnar.
Frumurnar voru síðan á ferð um æðarnar og festust í litlum æðum heilans líkt og örsmáar hindranir.
Þetta minnkaði blóðstreymið gegnum heila músanna og dró úr getu þeirra til að hreyfa sig með eðlilegum hætti í nokkra daga.
Plast endar í líffærum okkar
Við getum ekki komist hjá örplasti. Það er að finna í fæðu okkar, svo og í loftinu sem við öndum að okkur. Litlu plastagnirnar enda svo lengst inni í líkamanum.

1. Við fyllum okkur af plasti
Rannsóknir hafa sýnt fram á að við borðum og öndum að okkur u.þ.b. 50.000 plastögnum á ári. Þær er að finna alls staðar í umhverfi okkar og eiga rætur að rekja til ógrynnis af ólíkum uppsprettum: teppum okkar, fatnaði, tannburstum, fæðuumbúðum og ýmsu öðru.

2. Agnir finna sér leið inn í líkamann
Agnir sem við öndum að okkur enda í kverkunum og lungunum en þær sem við snæðum lenda fyrst í maganum og þörmunum. Stærstu agnirnar sem við innbyrðum losum við okkur við með hægðum en þær smæstu verða áfram í líkamanum.

3. Plast endar í mikilvægum líffærum
Vísindamenn hafa rekist á plast í lungum okkar, lifrinni, miltanu, nýrunum og jafnvel í fóstrum. Afleiðingar þessa eru enn sem komið er óþekktar en í mörgu plasti er að finna efni sem hafa truflandi áhrif á hormóna líkamans ellegar eru krabbameinsvaldandi og safnast fyrir í líkamanum.
Þær hindranir sem plastagnir virtust mynda hegðuðu sér í fljótu bragði líkt og um væri að ræða blóðtappa.
„Þetta minnti á bílslys í æðunum“, segir Haipeng Huang, sem stundar rannsóknir á sviði líflæknisfræði við háskólann í Peking, í viðtali við tímaritið Nature.
Mörgum spurningum enn ósvarað
Fyrri rannsóknir hafa einnig greint örplast í heila fólks, lifur og nýrum.
Samt er enn ýmislegt á huldu um skaðleg áhrif örplastsins á heilsu okkar.
Örplast hefur lagt undir sig heiminn – líka loftið sem þú andar að þér. Nú hafa vísindamenn fundið örplast inni í líffærunum. Hér sérðu hvaðan allt þetta plast kemur og hvernig við getum losnað við það.
Í rannsókn einni sem gerð var á síðasta ári kom í ljós að einstaklingar sem eru með örplast í ósæðinni eru í aukinni áhættu hvað snertir hjartaáfall og heilablóðfall.
Þó svo að enn sé margt á huldu um þetta vonast vísindamennirnir að baki rannsókninni til þess að nýja myndtækniaðferðin geti gagnast okkur til að komast að raun um hver áhrif örplast mun hafa á heilsu fólks í framtíðinni.