Það er oft kallað „blakkát“ (blackout) þegar drykkja máir minningar gærkvöldsins.
Hættan er mest ef áfengismagn í blóði verður 1,6 prómill eða meira og þegar mikið er drukkið á skömmum tíma þannig að áfengismagnið vex hratt.
Margt ungt fólk kannast við þetta og nú segja vísindamenn að fyrirbrigðið breyti byggingu heilans í unglingum.
Viðvörunin kemur í kjölfar bandarískrar rannsóknar á áfengisnotkun unglinga og þróun heilans.
Um sex ára skeið fylgdust heilasérfræðingar hjá Michael E. De Bakey VA-lækningamiðstöðinni í Houston með þúsundum ungmenna á aldrinum 12-24 ára.
Minnið skaddast
Þá sem drukku oftast og mest og sögðust hafa lent í minnisleysi tóku þeir til sérstakrar rannsóknar.
Heilaskannanir ungmenna í þessum hópi sýndu að áfengið truflar ekki einungis margvíslega heilastarfsemi á drykkjukvöldinu, heldur einnig til lengri tíma.
Vísindamennirnir segja hættu á að svona mikil drykkja skaddi taugabrautir til og frá heilastöðinni drekanum til langframa.
Þetta kemur sér illa því drekinn sér um að flytja minningar úr skammtímaminni til langtímaminnis.
Misnotkun á áfengi skapar gat í heila

Alkóhólískur heili
Vísindamenn tóku eftir gati í heilanum þegar þeir skönnuðu 72 ára gamla konu með áfengisfíkn. Heilbrigður heili er fullur af svokölluðu hvítu efni en hér var gapandi gat.

Viðmiðunarheili
Minni holrúm finnast venjulega á nokkrum stöðum í heilanum. Þar myndast svokallaður mænuvökvi sem verndar viðkvæman vef heilans gegn m.a. miklum þrýstingsmun.
En þetta var ekki allt og sumt: Þessi mikla áfengisneysla hafði líka varanleg, hamlandi áhrif á þær heilastöðvar sem annast sjónminni og þar með t.d. nám með lestri.
Þessar sömu heilastöðvar gera okkur líka kleift að þekkja bæði andlit og orð.
Vísindamennirnir segja í rannsókninni að þegar allt kemur til alls hafi áfengið þannig skaðleg áhrif bæði á nám og hæfni til að mynda félagstengsl.