Á meðan leiðtogar heims hártogast um hvaða lög beri að setja til að losna út úr loftslagskreppunni starfa vísindamenn baki brotnu við að þróa tækni sem bjargað getur jörðinni okkar.
Einn helsti loftslagsvandinn er fólginn í losun gróðurhúsalofttegunda í líkingu við koltvísýring og metangas.
Fyrir bragðið strita margir nú við að finna lausnir sem gera kleift að beisla og helst einnig að umbreyta lofttegundunum í eitthvað sjálfbærara.
Nú hafa vísindamenn fundið upp brautryðjendatækni sem gerir kleift að slá tvær flugur í einu höggi.
Hópur efnaverkfræðinga við Oak Ridge ríkisrannsóknarstofuna (ORNL) í Bandaríkjunum hefur þróað hvata sem getur umbreytt metangasi og koltvísýringi í svokallað efnasmíðagas.
Í heimi efnafræðinnar er talað um hvata sem efni sem aukið geti hraða efnahvarfa, án þess þó að hann sjálfur verði hluti af efnahvörfunum.
Tækninýjung efnaverkfræðinganna við ORNL fólst í þróun nýrrar gerðar af hvata sem hraðar svo um munar efnaferli sem kallast „þurrauðgun metangass“.
Ferli þetta var þekkt fyrir og jafnframt notað en þegar notaðir eru hvatar sem þekktir eru á sviði iðnaðar í dag er nauðsynlegt að eyða gífurlega mikilli orku og nota hátt hitastig, allt að 650°C, til að umbreyta koltvísýringi og metani í efnasmíðagas.
Þá getur hátt hitastigið að sama skapi skemmt hvatann eða látið hann virka síður en skyldi.
Ofurhvatar úr efni sem minnir á sand, svo og nikkel
Vísindamennirnir við ORNL hafa þróað viðnámsþolnari hvata sem samanstendur af því sem kallast kristallaðar zeólítagrindur, að viðbættu nikkeli.

Zeólít fyrirfinnst víðs vegar um heim, þó einkum þar sem áður hefur verið gosvirkni. Þess vegna er um að ræða efni sem auðvelt er að komast yfir þegar nýju tækninni verður beitt að einhverju ráði.
Zeólít er flokkur holufyllinga sem hafa efnasamsetningu kísils, áls og súrefnis. Efnið minnir eilítið á sand en er þó svampkenndara að gerð og er jafnframt stöðugt við hátt hitastig.
Holótt áferðin leiðir af sér hlutfallslega stórt yfirborð, jafnframt því sem í efninu leynast holur sem mörg efnahvörf eiga sér stað í.
Samblandið af zeólíti og nikkeli leiðir jafnframt af sér fullkominn og mjög svo stöðugan hvata sem notaður er til að umbreyta skaðlegum gróðurhúsalofttegundunum metani og koltvísýringi í sjálfbært efnasmíðagas.
Efnasmíðagas gegnir mikilvægu hlutverki í grænu byltingunni því efnið er unnt að nota sem eldsneyti sem leyst getur af hólmi jarðefnaeldsneyti og er jafnframt unnt að nota sem áburð, í raforkuverum og lyfjaiðnaði.
Vísindamennirnir hafa sótt um einkaleyfi fyrir tækni sinni og vonast til að brátt verði unnt að nýta uppgötvunina á sviði iðnaðar.
Niðurstöðurnar birtust í tímaritinu Nature Communications.