Það þarf að hugleiða ýmislegt ef þú ert að velta fyrir þér að fá þér hund.
Meðal þess er hvort hundurinn eigi að vera hreinræktaður eða kannski blendingur.
Það hefur verið útbreidd skoðun að kynblendingar séu heilsuhraustari en „skyldleikaræktaðir“ hundar með ættbók. En nú hafa vísindamenn hjá A&M-háskólanum í Texas farið ofan í saumana á þessari fullyrðingu.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa nú verið birtar í vísindaritinu Frontiers in Veterinery Science. Þær byggjast á svörum 27.000 hundaeigenda sem beðnir voru að svara spurningalista.
Hreinræktaðir hundar ekki viðkæmari
Reyndar kom í ljós að ákveðin hundakyn voru veikari fyrir sérstökum sjúkdómum en aftur á móti reyndust þeir standast samanburð varðandi almennt heilbrigði og algenga sjúkdóma.
Kate Creevy yfirdýralæknir og prófessor við A&M í Texas útskýrir þetta:
„Það eru ýmsir vel þekktir sjúkdómar sem hrjá hunda af tilteknum hundakynjum,“ segir hún í fréttatilkynningu.
„Þetta hefur ýtt undir þá skoðun að hreinræktaðir hundar séu almennt viðkvæmari fyrir sjúkdómum en það er alls ekki rétt,“ útskýrir hún.
Niðurstöðurnar eru hluti langvinnrar rannsóknar á aldri hunda, þar sem sérstaklega var horft til 10 algengustu heilsufarsvandamála 25 vinsælustu hundakynjanna í rannsókninni.

Svona gömul verða mismunandi hundakyn
Bæði stærð og sérstakir ræktunareiginleikar hafa þýðingu varðandi lífslíkur hunda.
1. Franskur bolabítur: 4-6 ár
Flatt trýni og andlit veldur öndunarerfiðleikum og fleiri heilbrigðisvandamálum. Öndunarfærasjúkdómar eru algeng dánarorsök.
2. Stóri Dani: 6-8 ár
Þessir stóru hundar verða sjaldnast nema 6-8 ára og margir lifa skemur. Algengar dánarorsakir eru krabbamein og hjartasjúkdómar.
3. Boxer: 7-10 ár
Boxerhundar lifa yfirleitt 7-10 ár en geta þó örsjaldan orðið 16 ára. Krabbamein er langalgengasta dánarorsökin.
4. Labrador: 10-12 ár
Dæmigerðar lífslíkur eru 10-12 ár en metið er þó 27 ár. Liða- og vöðvasjúkdómar ásamt krabbameini eru algengustu dánarorsakir.
5. Chihuahua: 12-20 ár
Litli kjölturakkinn er meðal þeirra hundakynja sem lifa lengst. Meðal elstu hunda heims um þessar mundir er 21 árs chihuahua-hundur. Hjartagallar eru meðal algengustu dánarorsaka.
Algengustu heilsufarsvandamálin voru:
- Tannsteinn.
- Hundabit (af völdum annarra hunda).
- Tannúrtaka.
- Giardia (einfrumu sníkjudýr sem getur lifað í þörmum og valdið niðurgangi).
- Slitgigt.
- Árstíðabundin ofnæmi.
- Eyrnabólga.
- Hjartaóhljóð.
- Brotnar tennur.
- Ský á auga.
Heilsufarsvandamál blendingshunda reyndust í meginatriðum þau sömu en þó með dálitlum frávikum. Slitgigt og tannsteinsmyndun reyndist t.d. svipuð.
Hins vegar reyndist nokkru algengara að taka þyrfti tönn úr hreinræktuðum hundum.
„Af 53 heilsufarsvandamálum sem tilkynnt voru, reyndust 26 ámóta algeng hjá hreinræktuðum hundum og blendingshundum,“ segir Kate Creevy.