Sagan um Trójuhestinn er þekkt frá hinu forngríska sagnakvæði Odysseifskviða frá um 700 f.Kr. Þar greinir höfundurinn Hómer frá grískum hermönnum sem hyggjast ná borginni Tróju á sitt vald og leyndust til þess inni í tréhesti.
Hvort Grikkirnir hafi í raun og veru notað tréhest er vafasamt að mati sagnfræðinga. Hesturinn var einungis nefndur rétt í framhjáhlaupi af Hómer og fyrstu eiginlegu frásagnir af honum festar á blað 600-700 árum síðar.
Auk þess hafa fræðimenn ekki fundið neinar fornminjar sem stutt geta tilvist hestsins og í dag eru sérfræðingar nokkuð sammála um að annað hvort beri að líta á hestinn sem myndlíkingu eða þá að þarna sé einhver málfræðilegur misskilningur í gangi.
Ein tilgáta er sú að tréhesturinn hafi í raun og veru verið umsátursvopn. Mörg söguleg umsátursvopn eru nefnd eftir dýrum – t.d. hrútum – og eins er vitað að slík vopn voru stundum klædd með votum hrossahúðum til að varna því að kviknaði í þeim.
Þess vegna er mögulegt að Hómer hafi verið að fjalla um venjulegan umsátursturn og líkt honum við tréhest.

Líkan af tréhestinum var smíðað fyrir Hollywood-myndina Troy (2004) og stendur það núna í tyrkneska bænum Canakkale þar sem Trója lá.
Önnur tilgáta segir að hesturinn gæti hafa verið skip. Sérfræðingar benda m.a. á að Hómer talar um skip sem „sæhesta“ í Odysseifskviðu og að sagnaritarar fortíðar hafi lýst tréhestinum með sömu hugtökum og eru gjarnan notuð við skipasmíðar.
Sambærilegt fagmál var þannig notað til að útskýra hvernig Grikkirnir gengu um borð í tréhestinn.
Í meira en 100 ár hafa fornleifafræðingar deilt um hið fræga sögukvæði Hómers, Ilíonskviðu sem segir frá falli hinnar glæstu borgar, Tróju.