Sterkir vöðvar snúast um miklu meira en útlit.
Vöðvar gegna mikilvægu hlutverki við að halda líkamanum heilbrigðum – allt frá betri efnaskiptum til minni hættu á beinsjúkdómum.
Nú leggur rannsókn frá Edith Cowan háskólanum í Ástralíu áherslu á að vöðvaþjálfun geti hjálpað krabbameinssjúklingum að lifa lengur.
Krabbameinsmeðferðir verða stöðugt betri og færri deyja úr sjúkdómnum.
En margir sjúklingar glíma við aukaverkanir sem geta skaðað bæði hjarta og vöðva og að lokum minnkað lífslíkur þeirra.
Sterkari vöðvar – lengra líf
Rannsóknin var byggð á 42 hóprannsóknum sem fylgdu 47.000 sjúklingum með krabbamein á öllum stigum.
Rannsakendur komust fljótt að því að líkamlegur styrkur og gott þrek sjúklinga spilaði stórt hlutverk – einnig í krabbameinsmeðferðinni.
Helsta niðurstaðan var sú að krabbameinssjúklingarnir með hvað mestan vöðvastyrk höfðu allt að 31 prósent betri möguleika á að lifa af sjúkdóminn.
Fólk með langt gengið krabbamein á stigi 3 og 4, og þá sérstaklega sjúklingar með lungnakrabbamein eða þarmakrabbamein voru í minni hættu á að deyja.
,,Niðurstöður okkar sýna að vöðvastyrkur gæti hugsanlega verið mikilvægur þáttur í mati á hættu á dauða hjá langt komnum krabbameinssjúklingum. Þess vegna væri hægt að nota vöðvastyrkjandi æfingar til að auka lífslíkur,” segja vísindamennirnir í rannsókn sinni.
Tímalína: Þannig myndast krabbamein

Fruma skiptir sér
Fruman getur skyndilega byrjað að skipta sér óeðlilega hratt og hætt að hlýða hefðbundnum vaxtarboðum.
Fruman verður stjórnlaus
Fruman getur ekki gert við nýja galla (stökkbreytingar) í erfðavísunum sem eykur hættuna á myndun skaðlegra stökkbreytinga
Fruman verður ódauðleg
Stökkbreytingin gerir frumuna ódauðlega, svo líkaminn verður ófær um að deyða hana. Stökkbreyttu frumurnar mynda nú æxli.
Æðar myndast
Æxlið leiðir af sér nýjar æðar til að tryggt sé að nægilegt súrefni sé fyrir krabbameinsvefinn svo hann geti stækkað frekar.
Innrás í líkamann
Krabbameinsfrumur úr æxlinu fara um líkamann með blóðrásinni, þar sem þær ráðast á ný líffæri og orsaka meinvörp.
Rannsóknin sýndi einnig að gott líkamlegt ástand dregur úr hættu á andláti vegna krabbameins um allt að 46 prósent.
Í stuttu máli þýðir gott þrek að líkaminn á auðvelt með að taka upp og flytja súrefni. Þrekið var því mælt með VO2 max mælingu, sem metur hámarks magn súrefnis sem einstaklingur getur tekið upp og notað í mikilli hreyfingu.
Hér voru það einkum lungnakrabbameinssjúklingar sem nutu góðs af því að viðhalda góðu líkamlegu ástandi.
Rannsóknin birtist í British Journal of Sports Medicine og kemur út í sömu viku og fréttir um að fjöldi krabbameinstilfella á heimsvísu mun að öllum líkindum slá nýtt met árið 2025