Um 60% líkamans samanstendur af vatni, svo í raun þarf ekki að beita sérlega miklu hugviti til að átta sig á mikilvægi daglegrar vatnsdrykkju. Ráðleggingarnar eru allt frá einum lítra vatns á dag og meira.
Vatnsdrykkjan kann að virðast sumum óyfirstíganlegt verkefni.
Nú hafa vísindamenn við Kaliforníuháskóla í San Francisco fínkembt alls 18 vísindalegar rannsóknir sem gefa til kynna kostina við það að neyta vatns í nægilegu magni.
Kostirnir eru margir og að sama skapi ótvíræðir.
Vísindamennirnir hafa nú útbúið safngreiningu með hliðsjón af greiningum sínum og segir vísindamannateymið hana vera þá fyrstu sinnar tegundar.
„Eftir því sem við best vitum er um að ræða fyrstu viðamiklu yfirferðina á heilsufarslegum kostum þess að drekka nægilega mikið vatn“, segir þvagfæralæknirinn Benjamin Breyer við Kaliforníuháskóla í fréttatilkynningu. Hann er einn af vísindamönnunum að baki stóru safngreiningunni sem birt var í vísindatímaritinu JAMA Network Open.
Vísindamennirnir veittu því m.a. eftirtekt að nægileg vatnsneysla hefur fyrirbyggjandi áhrif á myndun nýrnasteina og gagnast enn fremur þeim sem vilja grenna sig.
Getur ýtt undir þyngdartap
Þeim sem áður höfðu greinst með nýrnasteina var talsvert síður hætt við myndun frekari nýrnasteina ef þeir drukku átta glös af vatni daglega.
Margar af rannsóknunum í safngreiningunni leiddu að sama skapi í ljós að þeir sem drukku ekki færri en sex vatnsglös á dag áttu auðveldara með að léttast en ella.
Sumar af rannsóknunum í safngreiningunni gáfu enn fremur til kynna að aukin vatnsdrykkja gæti komið í veg fyrir mígreni og þvagfærasýkingu, ásamt því að gagnast þeim sem eru með sykursýki eða lágan blóðþrýsting.
Hættulegt að drekka of lítið
Engin rannsóknanna í safngreiningunni var nægilega örugg til að geta sýnt fram á eiginlegt orsakasamhengi en þær gefa engu að síður sterklega til kynna hversu mikið aukin vatnsdrykkja getur gagnast líkamanum.
Hverju mæla yfirvöld með?
Samkvæmt ráðleggingum Landlæknis ætti að miða vökvaþörf kvenna við 1,6 l á dag og karla við 2 l.
Allir drykkir teljast til vökva, svo sem eins og te, kaffi, djús og ávaxtasafi, svo og auðvitað vatn.
Þegar við reynum mikið á líkamann og svitnum höfum við yfirleitt þörf fyrir meiri vökva en ella. Hér er að finna ráðleggingar Landlæknisembættisins um vatnsdrykkju.
Hér er líka nýrri grein á Doktor.is.
Vísindin eru ótvíræð í afstöðu sinni til hættunnar sem fylgir of lítilli vatnsdrykkju. Vökvaskortur er sagður geta haft neikvæð áhrif á lífslíkur okkar, svo og aukna hættu á ýmsum langvinnum sjúkdómum.
Of mikið getur þó einnig verið skaðlegt
Líkaminn hefur þörf fyrir vatn til að stjórna hitastigi okkar, auk þess að stuðla að losun úrgangsefna og fyrir vikið er mikilvægt að gæta þess ávallt að rétt vökvajafnvægi ríki í líkamanum.
Líkt og hægt er að deyja úr vatnsskorti er í raun réttri einnig hægt að deyja úr skyndilegri ofdrykkju vatns þó svo að slíkt til allrar hamingju sé ákaflega sjaldséð. Sé of mikið vatn drukkið í einu er hætt við að þrýstingur myndist á heila en slíkt ástand gæti orðið lífshættulegt.
Suðumarkið er 140 gráðum hærra en meðal svipaðra sameinda og öfugt við öll önnur efni er vatn léttara í föstu formi en sem vökvi. Vægir rafkraftar veita vatni einstæða eiginleika.