Snemma er lykilorð í baráttunni við flesta sjúkdóma.
Því fyrr sem sjúkdómur finnst þeim mun betri og markvissari verður meðhöndlunin.
Þetta gildir líka um vitglapasjúkdóma á borð við alzheimer. Uppgötvist sjúkdómurinn nógu snemma er unnt að draga úr hættu á fylgikvillum.
Nú hafa vísindamenn hjá Fudanháskóla í Shanghai unnið rannsókn sem getur haft mikla þýðingu fyrir fólk sem er í aukinni hættu á alvarlegum heilasjúkdómum.
Vísindamennirnir rannsökuðu blóðsýni úr 52.645 heilbrigðum Englendingum. Sýnin voru varðveitt í stórum, vel þekktum gagnagrunni, UK Biobank.
Óvenju há gildi áratug fyrr
Sýnunum var safnað á árunum 2006 til 2010 og þau greind 10-15 árum síðar. Þá höfðu 1.407 af þessum einstaklingum þróað elliglapasjúkdóm.
Vísindamennirnir skoðuðu nærri 1.500 prótín í hverju sýni til að athuga hvort einhver þeirra gætu borið ummerki um sjúkdóm sem kom fram áratug síðar.
Greiningar bentu til að hátt gildi fjögurra prótína stæði í samhengi við þróun elliglapa.
Meira en áratug áður en fyrstu einkenni gerðu vart við sig mældust óvenju há gildi prótínanna GFAP, GDF15, NEFL og LTBP2.
Þannig sigrar alzheimer heilann
1. Smávægileg vitsmunaglöp
Heilasvæði: Alzheimer byrjar í gagnaugablöðum.
Einkenni: Skert skammtímaminni.
Tímabil: Um 7 ár.
2. Mildur alzheimer
Heilasvæði: Sjúkdómurinn breiðist út um gagnaugablöðin og til hvirfilblaðsins.
Viðbótareinkenni: Skert áttunarhæfni, lestrarhæfni og kennslageta.
Tímabil: Um 2 ár.
3. Miðstig alzheimers
Heilasvæði: Sjúkdómurinn berst í ennisblöðin.
Viðbótareinkenni: Skjótræðni, skert athygli og dómgreind.
Tímabil: Um 2 ár.
4. Efsta stig alzheimers
Heilasvæði: Sjúkdómurinn berst í hnakkablaðið.
Viðbótareinkenni: Sjóntruflanir.
Tímabil: Um 3 ár (fram að andláti).
Vísindamennirnir beittu gervigreind til að þróa algóritma sem gátu sagt fyrir um þróun þriggja mismunandi elliglapasjúkdóma með 90% nákvæmni.
Allt saman á grundvelli hárra gilda þessara fjögurra prótína ásamt upplýsingum um aldur og kyn.
Þetta er síður en svo í fyrsta sinn sem bent hefur verið á prótín í blóði, t.d. GFAP sem mögulegan uppljóstrara, t.d. varðandi alzheimer.
Sjálfir telja vísindamennirnir að rannsóknina megi nýta til að skapa sérstakt próf sem geti bent á mikla áhættu.
Aðrir vísindamenn segja að fleiri rannsóknir þurfi til og þær þurfi að ná til fjölbreyttari hópa áður en unnt verður að nota prótín sem mælikvarða á áhættunni á alvarlegum sjúkdómum.
M.a. hefur verið skrifað um þetta í Nature News og The Guardian.
Rannsóknin birtist í vísindatímaritinu Nature Aging.